Greinasafn fyrir flokkinn: Vinnan

Kæra dagbók

Þá er best að halda áfram með dagbókina 😉

Tók þátt í yndislegri geðveiki á fimmtudaginn. Ég fór í Toys´R´Us með öllu hina geðbilaða fólkinu. Stóð meira að segja í röð úti í næðingnum. Þetta er fínasta búð og nóg til þarna. Gerði sérlega úttekt á spilahillunni hjá þeim og það var ágætis úrval, meira að segja hægt að fá bingóvél sem gæti komið sér vel suma daga ársins. En manni varð samt hálfóglatt yfir neyslubrjálæðinu, fólk með kúfaðar innkaupakerrur af leikföngum, ótrúúúlegt.
Hitti svo mömmu aðeins áður en hún fór á ASÍ-djamm. Hún fór svo heim á föstudeginum.

Ég fór á fyrsta starfsmannadjammið í nýju vinnunni á föstudaginn. Fyrst voru bjór og samlokur í vinnunni. Svo var okkur smalað uppí rútu og keyrt með okkur uppí Kjós. Þar á Stjórinn bústað sem við fengum til afnota. Þar var nóg að borða og drekka. Hápunkturinn var Tekílahafnarbolti með vafasömum reglum. Okkur var smalað aftur uppí rútu og haldið að veiðihúsinu Laxá í Leirársveit. Þar fengum við mjög góða sveppasúpu sem ég át yfir mig af. Vorum svo komin aftur í bæinn fyrir miðnættið og þá var ég alveg búin á því og dreif mig bara heim.

Á laugardagskvöldið kom Hrönn í „innflutningspartý“ til mín. Það eru ekki allir sem fá svona sérmeðferð 😉 En hún hafði aldrei komið í „nýju“ íbúðina áður. Hún var svo sæt að færa mér rós og kertastjaka í innflutningsgjöf. Takk fyrir mig.
Ég bauð henni í mat í uppáhaldskjúklingaréttinn minn og auðvitað var Bónusís með Marssósu og jarðarberjum í eftirrétt. Jummí! Spjölluðum svo frameftir nóttu.

Á sunnudaginn fór ég og spilaði við Hjördísi og Halla. Það var mjög skemmtilegt. Spiluðum Trivial og Pass the Pigs og ég vann bæði. Nananananana! 😉 Við stefnum að því að hittast oftar á næstunni og gera eitthvað sniðugt saman. Jólaföndur er líklegast næst á dagskrá.

Lasin á Landsfundi

Ég er ennþá hálflasin. Svaf í næstum 17 tíma í nótt (les: gærkvöldi, nótt, morgun og fram á dag!) og er voðalega tuskuleg.

Ég fór á Landfund Upplýsingar (ráðstefna um bókasafns- og upplýsingafræði) sem var á föstudag og laugardag á Selfossi. Það var hin besta skemmtun og margt áhugavert sem fjallað var um. Er svolítið hugsi eftir þetta allt saman, bæði varðandi vinnuna mína og fagið sjálft. Margar skemmtilegar hugmyndir sem komu fram þarna sem hægt væri að nota í vinnunni minni. En það eru blikur á lofti varðandi fagið sjálft og það er sennilega best að bretta upp ermarnar ef ekki á að fara illa.

Snjór, vinna, jóga (oh no, not again), þrif og Gettu Betur

Í dag tók ég strætó fjórum sinnum og labbaði heilmikið í snjónum. Mig grunar að skórnir mínir fari ekki vel út úr því. Mér finnst eitthvað indælt við snjóinn, finnst næstum notalegt að verða blaut í fæturna og verða svo kalt á lærunum að það svíður. Finnst æði að ganga úti í hríðinni. Elska að sitja í strætó með eplarauðar kinnar og hlusta á Immigrant song.

Fór á fund í morgun (stundum er ekki vinnufriður fyrir fundum og námskeiðum (já, ok það var þess vegna sem ég fór í háskóla)). Henti svo nokkrum bókum eftir hádegið. Það er gaman…í hófi.

Fór í jóga og bíð spennt eftir morgundeginum, þ.e. bíð spennt eftir því hvort ég fæ harðsperrur.

Horfði á Allt í drasli þegar ég kom heim. Varð svo uppnumin að ég fór beint að þrífa baðherbergið eftir það (ekki að baðherbergið hafi verið allt í drasli, ég er ekki algjör sóði þó ég vaski sjaldan upp). Hlustaði á Gettu Betur meðfram þrifunum (í nýja eldhúsútvarpinu sem er svo fjölhæft að það gengur líka sem baðherbergisútvarp) og var ekkert sérstaklega hrifin. Semsagt ekkert mjög hrifin af Sigmari sem spyrli. Hann var svolítið stífur og alls enginn Logi (enda var svosem ekki við því að búast). En ég ætla að gefa honum sjens. Spurningarnar voru ágætar, ég gat svarað sumum.