Greinasafn fyrir flokkinn: Ýmislegt

Rigning, Kínamatur og lærdómur

Nú er úti veður vott! Við Óli skruppum út í Odda til að skila verkefni og komum heim alveg sundrennandi eftir þessa stuttu göngu. En það var MJÖG hressandi og það er komin þvílíkt góð gróðurlykt 🙂

Núna erum við bara að bíða eftir því að fá sendan kínverskan mat frá Indókína…ummm…hlakka til að borða.

Hef annars bara verið að læra og læra og læra síðustu daga…hef varla farið út úr húsi. Þetta er allt smá saman að síast inní hausinn á mér…vona að það dugi til.

En maturinn kominn…

Jæja

Ekkert föstudagsskap þessa vikuna, enda var ég alls ekki í föstudagsskapi í gær, eyddi deginum að mestu í að vera hálfpirruð og endaði með því að gera mestlítið af viti. En svo fór ég til stelpnanna í gærkvöldi og það var fínt.

Páskafríð var skemmtilegt, fór til Norðfjarðar með Svenna og Hrönn og var þar í rúma 4 daga. Eyddi tímanum þar í að heimsækja gamlar frænkur og aðra ættingja, borða góðan mat, skoða myndir með afa, fara í gönguferðir með mömmu („uppá garð“ og útí Páskahelli), synda og fleira.

Hef haft undarlegar draumfarir síðustu nætur. Allt mjög raunverulegir draumar sem framkalla sterkar tilfinningar, ýmis jákvæðar eða neikvæðar.

Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér hvort ég ætti að bloggdeyja eða taka mér bloggpásu…það er nokkuð ljóst að ég nenni þessu varla (nei, er það virkilega?!!).

Góða helgi!

Vá, hvað diskurinn Adore með Smashing Pumpkins er góður!

Vá, hvað ég fékk stóran og flottan pakka frá ömmu, afa og Ástu áðan og ég verð að bíða í 5 daga eftir að fá að opna hann!

Vá, hvað Gettu Betur var spennandi áðan!

Gleðilegt ár :)

Hæhó!
Er ég hætt að blogga? Nei, greinilega ekki! Ég hef bara ekki verið að nenna þessu síðasta mánuðinn. Ég hef þó verið að sýsla ýmislegt og ber þar hæst jólaferð til Vopnafjarðar og Akureyrar. Það var óskaplega gaman og yndislegt og hefðbundið.

Núna er loksins búin að fá allar einkunnirnar mínar og þær voru allar á bilinu 7,5-8,5 sem er vel ásættanlegt. Verst þykir mér að Óli var með aðeins hærri einkunnir en ég í þremur fögum. Mér finnst það reyndar ekkert sérlega slæmt en það kom mér virkilega á óvart 🙂
Núna hef ég semsagt lokið 33 einingum og vegin meðaleinkunn er 8. Þetta þýðir að ég er orðin 1/3 bókasafns-og upplýsingafræðingur og í vor verð ég vonandi rúmlega hálfur bókasafns-og upplýsingafræðingur 🙂
Bjartsýnisáætlun Eyglóar hljóðar svo uppá BA í bókasafns-og upplýsingafræði fyrir 23 ára afmælisdaginn 🙂 Og það er hreint ekki svo langt í hann.
En núna er skólinn sem sagt byrjaður á fullu aftur og þetta legst bara vel í mig.

Ég fór í stórskemmtilega sumarbústaðaferð um síðustu helgi með vinum mínum úr bókasafnsfræði. Mjög góð afslöppun og mikið af skemmtilegheitum og góðum mat 🙂

Ég er að „deyja“ úr spenningi yfir árinu 2004. Stundum verð ég hreinlega andvaka yfir því hvað það er margt skemmtilegt framundan og skemmtunin er nú þegar byrjuð með þessari sumarbústaðaferð og svo er afmælispartý í kvöld 🙂 Gleði, gleði!

Jæja, læt þetta duga í bili.

Jólafrí!!!

Ég er komin í jólafrí! Var að klára síðasta prófið núna áðan. Þvílíkur léttir. Nú get ég loksins farið að hugsa skýrt aftur. Og nú get ég farið að gera e-ð skemmtilegt algjörlega laus við samviskubit 🙂

Í próflestrinum var ákveðið að lesa meira yfir önnina á næstu önn. Það er algjört hell að frumlesa svona mikið efni á svona stuttum tíma og þurfa svo að berja það inn í leiðinni. Áramótaheitið verður því formlega gefið hér og nú: „Ég heiti því að vera hinn fullkomni námsmaður á vorönn 2004“.

Prófin gengu annars bara svona upp og ofan. Prófið sem ég kveið mest fyrir og hélt að yrði erfiðast gekk best, líklegast af því að lærði svakalega vel fyrir það.

En núna er bara gleði, gleði, gleði framundan. Heimsókn til Akureyrar, heimsókn til Vonafjarðar, jól, áramót, sumarbústaðaferð og þetta allt inniheldur fullt, fullt af skemmtilegheitum.

Planið fyrir kvöldið er að elda e-ð(það hefur sko ekki verið gert á þessu heimili í marga daga), fara í heimsókn til vina og svo í bíó. Ahhhh…

Jólastress, próf og rokk í kaffi

Jæja, þá er ég búin að útbúa 10 pakka og skrifa 15 jólakort.
Ég var orðin svo stressuð yfir þessu að ég fékk jólagjafamartröð í nótt. Hún lýsti sér þannig að ég hafði gleymt að kaupa jólagjafir handa Óla og Svenna…og ég var á Vopnafirði á aðfangadag í stresskasti því að þeir voru ekki á Vopnafirði og Kaupfélagið var lokað. Einhversstaðar í draumnum var ég líka að reyna að velja svona pakkabönd en ég gat ekki ákveðið hvaða lit ég vildi og var að deyja úr stressi.
Ég vona að ég sofi vært í nótt. Ég á þó eftir að útbúa svona 5 pakka og skrifa ca. 10 jólakort í viðbót, en það er ekkert sem bráðliggur á, get dundað við það eftir próf 🙂

Annars gengur próflestur svona lala. Hann gæti gengið betur og hann gæti gengið verr. Þetta ætti þó allt að hafast á endanum.

Mér skilst annars að við séum að fá rokkhljómsveit í kaffi á morgun. Það verður áhugavert. Ég vona að það sé rokk að vera með skítug gólf og óhreint hár.