Lífið er svo stutt!

Þó að ég sé vonandi ekki búin með nema 1/4 eða 1/5 jafnvel af lífi mínu þá finnst mér lífið skelfing stutt. Líf mitt dugar mér samt vonandi til að gera flest sem mig langar til…en það er tvennt sem ég mun aldrei ná að gera og mér finnst það á undarlegan hátt hálfsorglegt þó að það sé í raun engum manni gerlegt. Ég mun aldrei geta lesið allar þær bækur sem mig langar að lesa(og það eru bara þær bækur sem ég veit af í dag, svo á hellingur eftir að koma út og hellingur sem ég á eftir að uppgötva) þó að ég ynni við það að lesa mér til ánægju. Hitt sem ég mun aldrei geta er að skoða Jörðina eins vel og ég vildi og ég gæti það ekki jafnvel þó ég væri sífellt á ferðalagi og ætti nóg af peningum, ég á ekki eftir að geta skoðað nema örlítið brot eins og ég á ekki eftir að geta lesið nema lítið brot af því sem mig langar að lesa.
En það er lítið annað í því að gera en að velja vel hvað maður les og hvað maður skoðar og njóta þess á meðan á því stendur. Þetta mun allavega ekki taka af mér ánægjuna við að lesa og ferðast.

Lesi, lesi, les

Ég er SVO hamingjusöm yfir lestri mínum. Þó að þetta séu engar heimsbókmenntir sem ég er að lesa, þá er bara svo gaman að lesa. Ég hef örugglega ekki lesið svona mikið í 8 ár eins og ég er búin að lesa í sumar. Það er ótrúlega erfitt að hemja sig þegar maður er á bókasafni alla daga, núna í augnablikinu er ég með 28 bækur í láni frá bókasafninu…reyndar er Óli með e-ð af því en það erulíklega ekki nema svona 5.
Er aðallega í því að lesa e-ð létt núna en það er hellingur af einhverju þyngra efni sem mig langar að lesa, bæði skáldsögur og fræðibækur…en ætli ég láti það ekki vera í bili.

Lífið er í þínum höndum

Enn ein sjálfshjálparbókin. Þessi er eftir Kate Keenan og er í flokki sem kallast 50 mínútna bækur. Maður á sem sagt að lesa hana á 50 mínum og ná valdi á lífi sínu. Hún er frekar þurr og leiðinleg og ég nennti ekki að lesa hana frá A-Ö, bara svona kafla og kafla sem virtust áhugaverðir(en voru það ekki). Komst samt að því að ég virðist hafa líf mitt gjörsamlega í höndum mér og mér eru allir vegir færir og ég veit hvernig ég get hagað lífi mínu á sem farsælastan hátt…eða allavega lærði ég ekkert nýtt af bókinni.
Þetta er kannski e-ð fyrir þá sem hafa engar áætlanir, ekkert skipulag og vita ekki hvaða vinnubrögð skila sér best. En mæli ekki með þessu fyrir fullkomið fólk eins og mig 😉

Júlía

Þetta er skáldsaga eftir Sigurbjörn Þorkelsson, kom út 2003. Svona alltílæ bók, er svona á mörkunum að vera unglingabók(þó ekki flokkuð sem slík í Borgarbóksafni ;)). Fjallar um Júlíu sem er 18 ára og er skrifuð í ævisöguformi þ.e. Júlía skrifar um ævi sína hingað til. Það sem er undarlegt við þetta er að höfundurinn, Sveinbjörn, er rétt tæplega fertugur karlmaður. Söguþráðurinn í bókinni er alveg sannfærandi en maður lifir sig ekkert inní þetta og bókin er líka ekkert sérstaklega vel skrifuð. En það er alveg gaman að henni og hún er fljótlesin.

Steinar er dáinn

Var að klára bókina Steinar er dáinn rétt í þessu. Hún er skrifuð af móður Steinars, Vigdísi Stefánsdóttur og fjallar um ævi Steinars frá meðgöngu til dauða. Steinar var ofvirkur en var greindur seint og fékk ekki mikinn stuðning og líklega olli það því að hann leiddist út í neyslu og afbrot og endaði með að taka líf sitt rétt fyrir tvítugsafmælið. Mjög átakanlegt og sorglegt. Bókin sýnir manni aðeins inní heim aðstandenda afbrotamanna og eiturlyfjasjúklinga.
Bókin er vel skrifuð og á Vigdís hrós skilið fyrir að skrifa sögu sonar síns á svo einlægan hátt.

Þreytt

Er alveg svakalega þreytt núna. Svaf illa í nótt. Náði samt að koma mér í gegnum vinnudaginn sómsamlega. Ætla að leggja mig á eftir þegar ég verð búin að skreppa í Kringluna og kaupa mér e-ð í svanginn.
Svo er það kertafleyting í kvöld…í fyrsta sinn sem ég mæti, hefur samt langað að fara síðustu 4 ár.

Yfir djúpið breiða

Yfir djúpið breiða er saga Þóru Snorradóttur skrifuð af henni sjálfri. Átakanleg frá byrjun til enda. Hún missir eldri systur sína þegar hún er 11 ára, fer í fóstureyðingu 16 ára gömul komin 4 mánuði á leið, lendir í mikilli neyslu, er á sífelldu flakki, getur ekki eignast börn þrátt fyrir margar hormónameðferðir og fær svo krabbamein í eggjastokka sem leiða hana til dauða aðeins 45 ára. Hreint út sagt sorgleg saga, en þó eru ljósir punktar í tilverunni hjá henni t.d lýkur hún námi í svæðanuddi og mannfræði og er með yndislegum manni síðustu 15 árin.
Mæli mjög með henni fyrir þá sem langar að lesa e-ð sorglegt.

Konan í köflótta stólnum

Las Konuna í köflótta stólnum um helgina. Og fannst mjög fín. Þetta er sem sagt saga Þórunnar Stefánsdóttur um baráttu hennar við þunglyndi skrifuð af henni sjálfri. Það sem kom mér helst á óvart var meðferðin sem hún fór í til að vinna bug á þunglyndinu, það var einhverskonar Freud-meðferð þar sem draumar og bernskuminningar léku stórt hlutverk. Hélt að þessi aðferð væri ekki notuð, ekki á Íslandi allavega. En virkaði fyrir Þórunni, þó að hún væri 10 ár að losa sig úr svörtu holunni. Áhugaverð bók.

Perfect

Hef fengið lagið Perfect með Alanis Morrissette mjög oft á heilann undanfarna daga, án þess þó að hafa heyrt það nýlega. Er að hlusta á það á rípíti núna. Ekkert smá flott lag. Fjallar um þá áráttu foreldra að láta börnin sín gera allt sem þá langaði til og reyna að bæta fyrir það sem þeir voru lélegir í…en svo er bara ekkert nógu gott. We´ll love you just the way you are if you’re PERFECT!

Ný heimkynni

Nú hef ég eignast ný heimkynni bæði í netheimum og raunheimum. Reyndar er ég ekki flutt í raunheimum en það gerist innan fjögurra vikna vonandi, vorum að undirrita leigusamning nú fyrir stundu. En flutningar í netheimum hafa þegar átt sér stað…nú líður mér eins og „alvörubloggara“ 🙂