Á morgun er 13. mars

og þann dag verður haldið „Million Women March for Endometriosis“  og í tilefni af þeim degi skrifaði ég þessa grein í Kvennablaðið.

Þar sem talið er að 5-10% kvenna þjáist af endómetríósu þá hvet ég alla til að kynna sér þennan sjúkdóm þar sem allar líkur eru á að þú þekkir einhvern sem er að þjást. Mikið af fræðiefni er að finna á síðunni endo.is sem eru félagasamtök kvenna á Íslandi með endómetríósu. Þetta þykir lítt geðslegur sjúkdómur enda beintengdur við blæðingar og túrverki og þykir ekki fínt að tala um það en það gerir sjúkdóminn nákvæmlega ekkert auðveldari. Hann er krónískur og mjög sársaukafullur.

Það er alltaf frekar erfitt að vera svona „óhuggulega“ sjúkdóma, sérstaklega ef maður er það óheppin að þetta leggist á þarmana, ekki er það nú geðslegra að tala um. En einhvers staðar verður að opna umræðuna og þetta er ekkert til að skammast sín fyrir. Þetta kemur mikið í köstum hjá mér, ég hef lent í því að fá risa blóðfylltar blöðrur sem þekja eggjastokkana hjá mér, þegar þær springa þá blæðir inná eggjastokkinn og það veldur gríðarlegum kvölum. Einnig hefur þetta farið í kviðarholið hjá mér og blætt þar. Ég hef farið á svo miklar blæðingar að það blæðir í gegnum allt í methraða, í fötin, rúmið og rúmfötin. Vaknað upp á floti og varla staðið í fæturna af verkjum. Er stöðugt haldin járnleysi og fólk stendur svo og starir á mann þegar maður reynir að útskýra hvað er að, fyrir utan hversu ógeðfellt fólki finnst að maður segi þeim það, enda er þetta ekkert fínn sjúkdómur.

En hægt er að lesa greinina mína til að kynna sér þetta betur og einnig hvet ég alla að fara inná endo.is og kynna sér efnið það.

Í öðrum fréttum fékk ég frekar leiðinlegar fréttir frá lækninum mínum á mánudaginn. En ég hef verið að glíma við mikil veikindi núna í svolítinn tíma og fór í alls konar blóðprufur í síðustu viku, góðu fréttirnar eru þær að skjaldkirtillinn í mér er við frábæra heilsu! Kólesterólið í toppstandi og allt kemur svaka vel út, nema lifrin kom ekkert alltof vel út en það var vegna þess að ég er með einkirningasótt! Bæði lifrin í mér og miltað eru bólgið og veldur það vondum einkennum, ég er með um 10kg af bjúg eða álíka og mikla magaverki vegna miltans. En einkirningasótt veldur einnig gríðarlegri þreytu og orkuleysi sem hefur einmitt einkennt mig undanfarna viku ásamt ljósfælni og hreinlega krónískum höfuðverk. Meðgöngutími sjúkdómsins er mjög langur en ég get verið veik í um 6-8 vikur og jafnvel lengur þar sem hann leggst yfirleitt verr á mann eftir því sem maður er eldri og ekki algengt að maður fái hann eftir 25 ára. Ég er því bara í því að fá sjúkdóma sem ég á ekkert að fá, gamalmenna- og ungmennasjúkdóma, vonandi bara að ég bæti ekki fleirum við núna.

Sem betur fer á ég afskaplega skilningsríka og góða kennara og fæ ég því að skila hópvinnuverkefni ein og undanþágu vegna skyldumætingar í tíma núna en verð þess í stað í sambandi við kennarann minn gegnum e-mail. Svona getur maður nú verið heppin þrátt fyrir allt 🙂

En ég læt þetta duga í bili, þar sem ég sé fram á rúmlegu næstu vikurnar verð ég örugglega duglegri að skrifa.

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *