Halló heimur?

Ég er hér og enn á lífi, einkirningasóttin drap mig ekki ótrúlegt en satt. En ég hef verið að reyna að ná upp náminu hjá mér aftur, veitir ekki af þar sem ég missti af næstum því öllum fyrirlestrum vetrarins og einungis 20 dagar í fyrsta prófið mitt.
Norðmenn eru ótrúlega skemmtilegir, sérstaklega kennarinn minn sem fannst það afbragðshugmynd að hafa prófið heimapróf, en ekki bara heimapróf, neinei þetta er 16 DAGA heimapróf svo ég býst við 150bls í word eða eitthvað álíka. Best að taka nógu marga daga svo við nemendurnir getum pottþétt  verið úttauguð eftirá, hressandi!  En svona til að bæta við þetta þá fannst henni það líka frábær hugmynd að hafa þetta HÓPpróf, hvað er það? Hver hefur hóppróf? og ekki bara hóppróf, neinei heldur 16 daga hóppróf! Hún er pottþétt að gera félagstilraun, það getur bara ekki annað verið. Ótrúlegt fyrirkomulag.

Hér er komið vor, yfirleitt yfir 10° hiti og bara gott veður, næstum eins og Ísland á sumrin og ég er búin að geta farið út í sólbað, ég elska þetta. Í dag er ég á leiðinni í foreldraviðtal, þau eru yfirleitt áhugaverð, ég fæ spurningar og upplýsingar eins og: „heimanámið búið að vera svolítið erfitt?“ „já hann hefur ekki getað einbeitt sér mikið undanfarið..“ „það hafa komið upp erfiðleikar“

og allt þetta kemur hvorki mér né kennaranum á óvart og eitthvað sem við vissum fyrir en einhvern veginn verður að segja mér þetta aftur, bara svona svo ég gleymi þessu nú örugglega ekki. Ég verð þó að hrósa skólanum hérna fyrir hans framlag til að gera skólagöngu sonar míns auðveldari. Það er bara eitthvað svo dásamlegt við það að þeim þyki sjálfsagt að hleypa syni mínum útúr kennslustundum og að vera með smíðakennara skólans og húsverðinum líka, þar bralla þeir ýmislegt saman, hann fær hjálp í félagsfærni, spjall og að smíða og vera úti að laga og betrumbæta ýmsa hluti. Þeir gerðu þetta svo náttúrulega að aldrei hefur neinn sett neitt útá þetta, hvorki sonur minn né aðrir nemendur og hann er svo hamingjusamur.

Að fá það viðurkennt án þess að þurfa að berjast fyrir þessu var svo mikill léttir að ég held að fæstir nái að átta sig á því, að skólinn viðurkenni veikleika sonar míns án þess að ég þurfi að útskýra hvert einasta smáatriði og án þess að ég þurfi að segja þeim að ég geri mitt besta er líka mjög gott. Það er ótrúlega upplífgandi að upplifa í fyrsta sinn einstaklingsmiðað skólakerfi þar sem sonur minn fær heimanám við hæfi -án þess að ég þurfi að berjast fyrir því, kennslu við hæfi og að allir nálgist hann á þeim forsendum sem hann þarf. Kröfurnar eru komnar á það level sem hann ræður við og við sjáum ótrúlegan mun, hann er hamingjusamari og heimilislífið er auðveldara, hann er í fyrsta sinn að upplifa sig á góðan hátt í skóla sem er tilbúinn að taka á móti honum eins og hann er en ekki að reyna að umbreyta honum í eitthvað sem hann getur aldrei orðið.

Íslenskt skólakerfi gefur sig út fyrir að vera einstaklingsmiðað en einhvern veginn varð ég aldrei vör við það, nema að það hafi falist í því að láta son minn sitja einan hliðina á kennaranum svo það sé auðveldara að láta hann læra nákvæmlega sama efni og samnemendur (sem eyðileggur strax hugtakið „einstaklingsmiðað“), láta hann fá nákvæmlega sama heimanám og gera nákvæmlega sömu kröfur á hann og samnemendur. Nú ef hann stóð ekki undir þessum kröfum þá fengum við foreldrar tiltal enda augljóslega ekki að standa okkur í því að gera son okkar nákvæmlega eins og normið og því best að tala okkur aðeins til.  Ég áttaði mig ekki á því hversu ótrúlega þreytt ég var á neikvæðum foreldraviðtölum fyrr en ég losnaði við þau, það er eitthvað furðulegt við að kvíða foreldraviðtölum, ég vissi alveg hvað ég myndi heyra og ef satt skal segja þá nennti ég hreinlega ekki að hlusta á þetta lengur, að hafa kennara sem hafði augljóslega engan skilning á raunverulegum erfiðleikum barnsins var hörmung. Þó vil ég taka það fram að í tæplega tvo vetur hafði sonur minn ofsalega góðan kennara, kennara sem hafði fullan skilning á hans erfiðleikum en það er takmarkað sem kennarar geta gert þegar skólakerfið er ekki einstaklingsmiðað, hún gerði þó sitt allra, allra besta og fyrir það erum við þakklát, það auðveldaði hlutina til muna.

Barátta okkur við skólakerfið á Íslandi var þó erfiðara en þetta, við fengum nefnilega eitt af hið frægu símtölum frá kennara sem biðja foreldra um að hringja börnin sín inn veik í samræmdu prófin. Það sem kannski ekki margir vita er að það er nákvæmlega ekkert mál að fá undanþágu frá samræmdum prófum ef raunveruleg ástæða þykir til (sem sonur minn féll samt ekki undir, því nauðsynlegt að ég sjálf myndi hringja hann inn veikan), ég ráðfærði mig við lækni sonar míns, fyrrv. kennara hans og svo mat ég þetta að sjálfsögðu sjálf líka og allir voru sammála um að það væri ekki því til fyrirstöðu að sonur minn tæki prófin, það væri nú þegar gengið í gegn að hann yrði í sérstofu með aukaaðstoð. En það dugði nú samt ekki til, við hjónin þurftum bókstaflega að berjast fyrir þeim sjálfsagða rétti sonar okkar að mæta í prófið. Okkur var meira að segja sagt að ef við myndum láta hann taka prófin þá myndi hann „upplifa sig heimskan“ þetta er orðrétt frá sérkennara.

Það er ekkert grín að vera foreldri og standa í stappi við skólakerfið á Íslandi, að þurfa að berjast fyrir sjálfsögðum rétti barnsins síns og vera gert lítið úr frá kennara sem við áttum svo að eiga í eðlilegum samskiptum við eftir þetta. Það er næstum ómögulegt og í okkar tilfelli var það það. Við létum veturinn líða enda lítið hægt að gera en ekki gátum við leitað til kennarans, foreldraviðtöl voru með stórum bleikum fíl sem fyllti herbergið og allt var yfirborðskennt og hálf asnalegt í alla staði. Það er því ótrúlegur léttir að mæta í viðtal þar sem ég veit að kennarinn hefur skilning á aðstæðum, að vita að við höfum sameiginlega hag barnsins fyrir brjósti og að allir séu af vilja gerðir til að gera skólugöngu barnsins sem ánægjulegasta.

Fyrir þetta er ég svo þakklát og fegin. Og í fyrsta sinn í lengri tíma þá sé ég raunverulega von fyrir son minn að eiga ánægjulega skólagöngu og góða framtíð, þar sem honum er tekið, nákvæmlega eins og hann er.

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *