Að vanta trúna

Í dag þá bara hef ég hana ekki. Ég er að reyna að muna hversu langt ég er komin en finnst ég bara standa í lausu lofti. Það er óþægileg tilfinning.

Það hefur mikið gengið á í mínu lífi undanfarna mánuði, ég er búin að vera mikið veik og þegar það gerist þá er erfitt að rísa aftur á fæturna. Ég er búin að vera frekar döpur en er að rísa upp úr því -held ég. En stundum, þá vantar manni bara að finna að einhver sé þarna til staðar að hjálpa manni upp ef maður hrasar, oft þarf ekki meir. Einhver, einhvers staðar, er þarna og hefur trú á manni. Hvetur mann áfram þegar maður trúir ekki sjálfur.

Ég er ekki sú manneskja sem geislar af sjálfstrausti, ég hef aldrei haft neitt sérstaklega mikið af því og yfirleitt dregið í efa allar mínar ákvarðanir. Ég hef eina manneskju til að hringja í sem getur alltaf hent mér af stað aftur og það er mamma mín, besta kona í heimi. Ég veit ég er ekki ein, það er fullt af fólki sem stendur í sömu sporum og ég. Kannski þess vegna sem ég ákvað að skrifa þetta blogg. Ég er að reyna að standa í fæturna aftur og vantar að muna hversu langt ég er komin.

Allir hafa líklegast heyrt sögur af því af hverju á ekki að hitta ókunnuga af netinu, sérstaklega ekki börn eða unglingar. Flestir hafa heyrt hryllingssögur. Ég er ein slík saga og enn í dag, berst ég við mína drauga fortíðar og reyni eftir fremsta megni að henda þeim í burtu, flesta daga gengur það líka ágætlega.

Ég var 12 ára og kynntist honum á irkinu, hann sagðist vera unglingsstrákur. Ég fór og hitti hann, hann var ekki unglingsstrákur, alveg langt því frá. Hann var þrítugur maður og ekki nóg með það, heldur átti hann þrítugsafmæli daginn sem hann ákvað að hitta mig.  Hann nauðgaði mér. Enn situr í mér hvort ég hafi verið einhvers konar afmælisgjöf. Ég hef alltaf átt erfitt með þetta. Ég hefði ekki átt að
-Fara og hitta hann
Ég hefði átt að
-Hlaupa í burtu þegar ég sá að hann var ekki unglingsstrákur
-Segja eitthvað
-Neita að koma með honum
-Gera eitthvað, bara eitthvað
-Segja einhverjum frá strax
-Ekki ljúga um þetta

Ég veit í dag að það er ekkert sem ég hefði átt að gera en ég sit samt uppi með þetta öðru hverju og spyr sjálfa mig aftur og aftur, af hverju sagði ég ekkert? Af hverju leitaði ég ekki hjálpar strax? Af hverju leyfði ég þessu að gerast?

Ég veit betur en þessar spurningar ásækja mig enn í dag, alltof mörgum árum seinna. Því ákvað ég að kasta þessu frá mér, ég þarf að losna við þetta, ég veit að þessar spurningar eru ekki réttar. Enn í dag, þá skammast ég mín, ég er alltaf að reyna að vera sterk, láta ekki á mér sjá en inni í mér, þá er ég bara ég, ég með hálfbrotna sjálfsímynd og skort á trú.

Einu og hálfu ári seinna þá sagði ég frá, ég sagði hjúkrunarfræðing í skólanum frá og hún hjálpaði mér, góð kona. Þetta komst upp, maðurinn var ákærður af ríkissaksóknara, hann var dæmdur líka. En ekki fyrir nauðgun. Nei, hann var dæmdur fyrir gáleysi. Gáleysið að „sofa hjá“ 12 ára barni, þrítugur maðurinn. Í dag hefði hann verið dæmdur fyrir nauðgun vegna nýrra laga en þetta situr í mér líka. Dómskerfið brást mér, það sagði að ég hefði viljað þetta. Ég vildi þetta ekki.

Núna hafandi skrifað þetta niður þá líður mér betur. Ég veit ég kemst yfir þetta, ég geri það alltaf. En það er gott að minna sjálfan sig á, hversu langt maður er komin í eigin baráttu, það er enginn þarna úti sem getur brotið mann niður.

-Freyja

Join the Conversation

2 Comments

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Fara í tækjastiku