Í nafni femínisma

Margir, bæði konur og karlar, leyfa sér að gagnrýna útlit annarra, klæðaburð og þá kannski sérstaklega skorti á honum, villt og galið. Gagnrýnin er hvorki uppbyggjandi né gagnleg og því algjörlega óþarfi. Oft er hún meira að segja bara hrikalega dónaleg og langt því frá nokkuð femínísk.

Þykir það meðal annars mjög eðlilegt að gagnrýna skort á fötum kvenmanna og segja þar af leiðandi að þær séu augljóslega fórnarlömb klámvæðingarinnar. Þetta þykir mér ekkert nema argasti dónaskapur, því augljóslega er kona ekki fær um að velja sér föt (já eða ekki föt!) nema þá að vera undir áhrifum. Það var skrifaður gríðarlega góður pistill á vísir.is um daginn sem bar heitið „Meira klám fyrir mig takk!“ og hann var svo skemmtilega sannur. Konur geta aldrei unnið. Ef þær eru án fata þá er það vegna þess að þær eru undir stjórn karlmanna, nú ef þær eru huldar fötum frá toppi til táar þá eru þær líka á valdi karlmanna. Já leyfum þessu að setjast.

Já nei ég skil ennþá ekkert í þessu.

Lengi vel þá var ég þeim sammála sem töluðu sem mest gegn skorti á fötum. Ég var svo sem ekki orðin fullorðin heldur og svolítið óhörnuð en rökin þótti mér „meika fullt sens“. Þangað til ég hugsaði að öll erum við nú misjöfn. Það er bara alls ekkert víst að allar konur vilji vera vel klæddar, sumar vilja kannski ekki vera í neinu og þá er það hreinlega rangt að stíga fram og reyna að taka völdin af þeirri konu með því að segja að hún hafi bara ekki getað tekið þessa ákvörðun sjálf og ef hún tók hana sjálf þá er það einungis vegna þess að hún er undir áhrifum klámvæðingarinnar og að hennar (ó)fataval sé rangt. Þetta er bara ekki í lagi. Aldrei.

Ég vil eiga kostinn á því að velja mér mín föt, nú eða velja að vilja ekki vera í fötum, eða mjög litlum fötum, kannski vil ég bara vera í ljótum fötum? En fyrst og fremst, vil ég eiga valið, án þess að eiga það í hættu að völdin séu tekin af mér og færð í hendur karlmanna allt í einu, því ég klæddi mig á þann hátt að það þóknaðist ekki vissum hluta, nú hver fer þá með völdin?

Fyrst og fremst finnst mér vanta virðingu fyrir vali kvenna, því nú fyrst höfum við raunverulegt val, hvort sem heldur er á fatavali, menntun eða öðru (best að taka það fram að ég er hér að ræða íslenskar konur þar sem er einna mesta jafnrétti í heiminum).

Að öðru þá vil ég ræða gagnrýni á útlit kvenna, sem er gríðarlega mikið einnig. Kona sem hugsar vel um útlitið er oft álitin heimsk, sem er svo gríðarleg firra að ég hef aldrei náð upp í það, hvernig getur verið samasem merki þarna á milli? Kona sem er mjó fær gagnrýni á það að hún sé horuð og að karlmenn vilji „alvöru“ konur (ég fæ sömu gagnrýni á hundinn minn, ég get svo svarið það, hún er nefnilega af smáhundategund), kona sem er of feit fær gagnrýni á að enginn vilji hana, kona sem stundar mikla líkamsrækt fær gagnrýni á að konur eigi ekki að hafa mikla vöðva ef hún vill ekki líta út fyrir að vera karlmaður.

Eftir síðustu grein mína sá ég komment á hana þar sem var sagt orðrétt „Skil bara ekki orðið þessa fitness keppni, horaðar brúnku barbídúkkur á sviði.“ og ég hef verið gríðarlega hugsi eftir þessa setningu, hún sló mig einhvern veginn svo útaf laginu. En svona er ég augljóslega barnaleg, mér þykir bara svo bilað að segja svona um annað fólk að mér dettur varla til hugar að annað fólk gerir það. En hvað á þetta að þýða? Við ættum öll að hugsa svolítið um það hvort orð okkar séu nauðsynleg, af hverju segjum við suma hluti? Það er ágætt að hugsa þetta sem svo, ef þú hefur ekkert gott að segja, segðu þá ekki neitt. Þetta meina ég á útlit annarra. Það að konur vilji keppa í fitness hlýtur að vera leyfilegt án þess að fólk segi niðrandi hluti um þeirra útlit. Ég er ekki hrifin af öllu útliti, ekkert frekar en neinn annar, en ég skrifa ekki niðrandi hluti um útlit annarra gjörsamlega að óþörfu, orð særa og maður á ekki að særa fólk að óþörfu.

Að gagnrýna er allt annar hlutur, ég segja eitthvað um útlit annarra er allt í lagi upp að vissu marki, en þú setur ekki eitthvað frá þér sem er einungis ætlað að vera niðrandi, það er ljótt.

Nú vona ég, að þessi pistill fái einhverja til að velta svolítið fyrir sér að orð hafa ábyrgð og stundum á það bara við að fæst orð bera minnsta ábyrgð.

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *