Foreldravandamálið einelti

Í dag fór dóttir mín í forskólaheimsókn ef ég beinþýði þetta frá norskunni. Það var tekið mjög hátíðlega á móti öllum og börnin boðin velkomin, það var flaggað fyrir þau og sungið, hvert og eitt kallað upp og kennarar kynntu sig, þetta var verulega skemmtilegt. Eftir kynninguna fóru allir inni í stofu þar sem það var haldin smá samverustund, á meðan börnin voru í samveru með kennurum að vinna smá verkefni þá fórum við foreldrarnir í kynningu hjá rektor, aðstoðar rektor, hjúkrunarfræðingi skólans og sálfræðing.

Þar var mikið rætt og þá var öllum sérstaklega tíðrætt um einelti. Það fannst mér svolítið merkilegt, ég hef aldrei áður mætt í kynningu á skóla þar sem einelti var rætt strax. Það var ítrekað að einelti væri ekki liðið og einnig talaði rektor um að einelti væri í raun ekki barnavandamál, það myndi ekkert virka að draga börnin í samveru, hittinga og annað ef foreldrarnir væru ekki virkir með. Einelti væri fyrst og fremst foreldravandamál og það væri á okkar ábyrgð að vinna saman að útrýma einelti.

Nú er ég með öllu sammála þessu, einelti í skólum er fyrst og fremst foreldravandamál og þetta er hlutur sem foreldrar eiga að taka ábyrgð á að útrýma. En, rektor vildi meina að með því að hafa foreldrasamfélagið virkt, sýna krökkunum að allir tali saman og allir séu vinir, foreldrar hittist á kvöldin, um helgar og hringist á þá sé mun auðveldara að skapa gott bekkjarsamfélag og góðan bekkjaranda. Það er nefnilega sjaldnast í boði að vera vondur við vini foreldra þinna. Nú veit ég sjálf, eigandi barn með lélega félagsfærni og ADHD að hvað ég segi nær bara svo langt, ég get aldrei verið 100% viss um að allt sem ég ítreki og segi skili sér á réttan stað eða hafi tilætluð áhrif. En ég get, sem foreldri, axlað mína ábyrgð, ég get rætt þetta á hverjum degi, oft á dag ef þarf og mætt í skólann og gert allt sem í mínu valdi stendur til að bæði vernda börnin mín fyrir einelti og til að koma í veg fyrir að þau beiti aðra einelti, þar á meðal rætt við aðra foreldra eins oft og þarf, en til að þetta hafi tilætluð áhrif þá verða allir foreldrar að standa saman.

Það sem þarf að ítreka í þessu er að foreldri sem axlar ekki sína ábyrgð á því að koma í veg fyrir einelti, á að vera áminnt, það er ekki í lagi að axla ekki þessa ábyrgð frekar en að axla ekki ábyrgð á heimanámi. Að taka virkan þátt í skólasamfélaginu er jafn mikilvægt og að taka virkan þátt í lífi barnsins, enda eyða börnin mörgum klukkutímum utan heimilisins í skólanum, foreldri sem tekur virkan þátt í skólasamfélaginu er að taka virkan þátt í lífi barnsins.

Mér þótti allavega skemmtilega góð tilbreyting að fá slíka ræðu áður en skólinn byrjaði, mér þótti gaman að heyra hversu mikið uppi á borðum samfélagsmeinið einelti var og hversu alvarlega skólinn tekur því. Öllum var bara gert grein fyrir ábyrgð sinni strax og sagt beint út að þetta yrði ekki liðið og það væri á ábyrgð allra að útrýma þessu. Ég fékk að minnsta kosti góða tilfinningu fyrir skólabyrjuninni og tel að þetta eigi eftir að verða ánægjuleg dvöl fyrir börnin mín, og okkur foreldrana.

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *