Foreldrasamviskubitið

Almennt þykir mér gott að skrifa, hef gert það síðan ég var barn að skrifa frá mér tilfinningar og hugsanir vegna þess að þá þykir mér ég ná að flokka, stjórna og skilja betur hvernig mér líður og hvað mér finnst. Oftast er þetta eitthvað sem liggur á mér og næ ekki alveg utan um og er ekki alveg viss hvernig mér líður, þá að skrifa hlutina niður hjálpar mér að átta mig betur á stöðunni. Ég mæli í raun með þessu fyrir flesta, þetta er mjög gott. En viðfangsefni dagsins hjá mér er foreldrasamviskubit. Ég held ég geti fullyrt að flestir foreldrar hafi upplifað það. Ég upplifi þetta samviskubit nokkuð reglulega vegna elsta barnsins míns.

Tvö yngri börnin mín eru tiltölulega auðveld börn, þau eru þægileg og gegna bara, það er mjög sjaldan sem ég þarf að segja nokkuð við þau svo samviskubitið nær sjaldnast til þeirra en þá kemur að elsta barninu mínu. Frumburðinum sem er að verða 11 ára gamall í haust.

Nú vil ég ítreka það að sonur minn er stórkostlegur strákur með risastórt hjarta og myndi aldrei gera flugumein. Að því sögðu get ég sagt að hann er einnig með ADHD, hefur sýnt kvíðaeinkenni, var greindur með ODD 7 ára gamall og er að fara í aðra greiningu núna hér úti þar sem er rökstuddur grunur að hann sé á einhverfurófi.

Ég held ég upplifi foreldrasamviskubit vegna sonar míns nokkrum sinnum í viku, það er þegar þolinmæði mín er á þrotum eftir 150 spurningar um næstum sama efnið því hann skilur það ekki almennilega eða þegar það tekur yfir klukkutíma að fá hann til að gera sig kláran fyrir skólann. Þegar ég þarf að segja hlutina 5x bara til að bíða í hálftíma eftir að hann geri hlutina. Nú hugsa líklegast margir einnig að ég sé ekki nógu ströng eða ég eigi bara að láta hann gera hlutina, við það fólk vil ég segja að prufa fyrst að eiga og ala upp barn með svona margvísleg vandamál áður en það gagnrýnir og gefur uppeldisráð. Ég hef hlustað á ráð frá sérfræðingum, geðlæknum, sálfræðingum og heilu teymunum sem sérhæfir sig í þessum hlutum og fer eftir þeirra ráðum, ég er ekki að gera bara eitthvað útí loftið.

En einhvern veginn upplifir maður samt vonbrigði yfir því að hafa ekki endalausa þolinmæði, að hafa ekki orkuna í að svara endalausum spurningum og sitja betur á sér. Einnig er þetta ekki auðveldara þegar hann er í eirðarleysi og gerir lítið annað en að bögga yngri systkini sín og hleypa öllu uppí háaloft því honum leiðist.

Að fá samviskubit fyrir að vera mannlegur er ekki eðlilegt en samt finnst manni að maður eigi að gera betur, svara í fallegri tón, hafa meiri þolinmæði, meiri skilning, meiri tíma. Listinn gæti haldið áfram út í hið óendanlega og líklegast flestir foreldrar sem upplifa hugsanir sem þessar einhvern tíma á leiðinni. En ég vildi skrifa um þetta í dag því við erum byrjuð í sumarfríi. Ég elska að komast í frí en frí fyrir sum börn þýðir bara rútínuleysi, það er ekki alltaf gott, sonur minn þyrfti að hafa plan frá morgni til kvölds og það er ekki hægt á sumrin.

Svo það reynir verulega á þolinmæði mína þessa dagna, ég er afskaplega glöð ef ég næ að klára fyrsta kaffibollann áður en ég þarf að stilla til friðar eða svara 50 spurningar um hvernig við ætlum að skipuleggja daginn þar sem þarf næstum að hafa mínúturnar klárar fyrir hvert einasta verkefni og því skrifa ég þetta niður, það hefur enginn endalausa þolinmæði og það er eðlilegt að verða þreyttur einstaka daga.

Svo í dag, eru ekki nema 47 dagar eftir af rútínuleysi og ég og margir aðrir foreldrar, teljum niður dagana… í ljúft rútínulíf!

Þangað til næst!

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *