Að grípa tækifærin

Ég veit ekki hvort ég hef sagt ykkur það en Pollýanna er mamma mín, bókstaflega. Ég á bjartsýnustu manneskju í heimi sem mömmu, þar að auki á ég bestu mömmu í heimi, svona til að koma því frá líka, enginn vafi á því.

Pabbi minn dó þremur mánuðum áður en ég fæddist, nánar tiltekið þann 21. maí árið 1986, þá var bróðir minn 18 mánaða, systir mín varð 7 ára í september það ár og ég átti eftir að fæðast, en gerði það að lokum þann 8. september sama ár. Svo ég ólst upp föðurlaus. Lengi vel vissi ég ekki til hvers pabbar væru og átti meira að segja eftir að spyrja mömmu að því, hvað pabbar gerðu eiginlega. En fyrir mér, þá vantaði mig aldrei pabba, ég átti mömmu sem gat allt, sannkallaða ofurhetjumömmu, ég á hana ennþá og vona að ég muni eiga hana í svo miklu fleiri ár í viðbót, hún er nefnilega ein mikilvægasta manneskja í mínu lífi. Hún er líka mín helsta fyrirmynd. Ef mér tekst að gera mömmu mína stolta er ég búin að ná öllu sem ég ætlaði mér.

En ég skrifa þetta vegna þess að það er einna mikilvægst fyrir alla að vera bjartsýnir og að sjá tækifærin í höfnuninni sem lífið gefur okkur. Árið 2010, var ég 23ja ára gömul, 3ja barna móðir sem var atvinnulaus. Ég var ekki búin með stúdent og satt að segja svolítið týnd í lífinu, ég var kannski ekki í neinu rugli en ég vissi ekki hvaða veg ég átti að fara eða hvort ég ætti yfir höfuð einhvern veg. Samkvæmt öllum staðalímyndum átti ég að vera vonlaus. Ungar, margra barna mæður eru sjaldnast sýndar í jákvæðu ljósi og það er erfitt að standa upp gegn staðalímyndum, því fordómarnir leynast víða. Það er erfitt að vera ungur og reyna að sýna heiminum að maður vill einungis standa sig í lífinu, fyrir sjálfan sig og börnin sín. Sem betur fer átti ég fólk sem trúði á mig, sem vissi að ég átti mér framtíð og sem þekkti mig nógu vel til að vita að ég setti börnin mín í fyrsta sæti. Á fremsta bekk sat mamma mín, sem alltaf hefur haft trú á mér, sem ég heyrði segja við kennarana mína þegar ég var barn að vegna þess að ég hefði munninn á réttum stað þá kæmist ég langt. Að ég ætti bjarta framtíð.

Að verða atvinnulaus eftir fæðingarorlof var eitt það besta sem skeði fyrir mig, ég var send á námskeið gegnum vinnumálastofnun og vegna þess að ég lauk því með lofi fékk ég námssamning gegnum vinnumálastofnun að fara gegnum menntastoðir hjá Mími. Þar með opnaðist mín framtíð.

Því með því að hefja nám í menntastoðum vissi ég að ef ég myndi ljúka því þá gæti ég komist inní Keili og lokið þar háskólabrú og þar með væru mér allir vegir færir. Ég spýtti því í lófana og einsetti mér að ljúka menntastoðum með góðri einkunn og tókst það, því ég útskrifaðist þaðan með 8.9 í meðaleinkunn og komin með inngöngu í verk- og raunvísindadeild Keilis. Það var í janúar 2011 sem ég útskrifaðist og hóf nám í Keili. Mikil vinna síðustu mánuði hafði svo sannarlega skilað sínu því ég var að upplifa allt sem mig dreymdi um.

Í mars 2011 var haft samband við mig frá Eflingu þar sem ég var beðin að fara yfir sögu mína á ráðstefnu verkalýðsfélagana sem ég þáði með þökkum. Ég hélt ræðu fyrir 100 manns og ég held ég hafi aldrei verið jafn stolt af mér og á þessu augnabliki því einhvern vegin, á einu ári, hafði lífið tekið þvílíka U-beygju að ég hefði aldrei getað giskað á að ég myndi standa í þessum sporum, svona stuttu eftir að hafa orðið atvinnulaus. Í apríl, mánuðinum á eftir hafði Efling samband við mig aftur og bað mig um viðtal sem birtist í maí tölublaði og ég tel að þetta sé ein mesta viðurkenning sem ég hef fengið á mínum árangri. Allt erfiðið var til einhvers. Ég var á leið minni til betra lífs og fólk tók eftir því, ég gerði eitthvað. Kannski, með heppni, hafði ég áhrif á einhvern, kannski fékk ég einhvern til að verða bjartsýnni á eigið líf eins og mamma gat alltaf fengið mig til að  verða bjartsýnni á mitt líf.

Á leið minni til betra lífs hef ég vissulega skipt um skoðun, breytt plönun, skipt um nám og drauma í leiðinni. Að læra íþróttafræði var ekki einu sinni á blaði þegar ég hóf nám að nýju árið 2010 en á einhvern hátt hef ég endað hérna og tel mig vera á rétta braut, ég hef virkilega ánægju af náminu mínu og það er það sem skiptir höfuðmáli. Maður verður að velja eftir vilja og engu öðru, því annars er ekki hægt að endast í því, lífið er of stutt til að eyða því í vitleysu. Ég vona allavega að þessi pistill, geti kannski haft jákvæð áhrif á aðra, það verður að grípa tækifærin þegar þau gefast og fara eftir draumum sínum, alveg óháð því hversu ólíklegir aðrir segja draumana vera.

Þangað til næst!
-Freyja

Join the Conversation

4 Comments

  1. Flottur og fallegur pistill hjá þér Freyja, og ég get svo sannarlega sagt að mamma þín er með yndislegustu konum sem ég þekki og ég dáist af henni hvernig hún er alltaf hress og brosandi þó að hún hafi kannski ekki alltaf átt 7 dagana sæla 🙂

  2. Þù ert endalaust dugleg, og èg er svo löngu sìðan orðin stolt af þèr Freyjan mìn 😉

  3. Sæl Freyja.

    Frábær pistill og frábær saga. Mér þætti vænt um að fá að endurbirta þetta á facebook síðu Keilis (www.facebook.com/keilir) enda hvatning fyrir aðra sem eru í sömu sporum og þú varst í.

    Kveðja,
    Arnbjörn

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *