Morgunverður!

Ég á einstaklega erfitt með að finna mér hollan morgunmat sem mér langar til að borða. Ég vakna yfirleitt með furðulegar langanir svona eins og löngun í kvöldmatinn kvöldið áður eða að mig langi til að elda mér eitthvað. Síst af öllu langar mér í hafragraut eða morgunkorn, svo þetta hefur verið eilítið vesen dag frá degi að halda sig á beinu brautinni og borða eitthvað á morgnanna sem er bæði hollt og ég hef lyst á!

Oftast hef ég borðað Weetabix sem ég set út á mjólk sem hef ég blandað með súkkulaðipróteini en ég á líka afskaplega erfitt með að finna mér prótein sem ég hef lyst á að borða þar sem það er allt meira og minna vont finnst mér, en oftast hef ég bara pínt þessu ofan í mig enda er nauðsynlegt að byrja daginn vel svo maður nái að halda blóðsykrinum í jafnvægi yfir daginn og líða vel. Ef ég passa ekki morgunmatinn fæ ég líka svakaleg cravings í alls konar óhollustu síðar um daginn og þar sem ég er ekki með mestu sjálfstjórn í heimi þá er best að reyna að halda öllu kerfinu í jafnvægi bara og sleppa við svoleiðis sveiflur.

En undanfarið hef ég fengið algjörlega meira en nóg af Weetabixi enda takmarkað hversu lengi maður getur borðað eins morgunmat dag eftir dag eftir dag…. án þess að gefast hreinlega bara upp á þessu og demba sér beint aftur í óhollustuna! En ég hef verið að leita mér að einhverju sem ég get borðað á morgnanna sem ég hef lyst á og heldur mér góðri í svolítinn tíma, eitthvað sem er einfalt og fljótlegt að gera þar sem ég er ekki líkleg til stórræða á morgnanna heldur! En ég fann mér dásamlega einfaldan, hollan og góðan morgunmat og prufaði í morgun. Það sem ég valdi mér voru heimagerðar próteinpönnukökur. Eins og áður sagði þá er ég sælkeri og því nauðsynlegt að borða eitthvað sem mér þykir gott því annars gefst ég bara upp.

En aftur að pönnukökunum. Þegar ég nenni að baka eitthvað þá verður það að vera einfalt, athyglisbresturinn minn veldur því að ég gefst upp að lesa langar uppskriftir og nenni ómögulega að baka eitthvað sem er svona flókið og með innihaldsefni sem þarf að fara í 15 búðir til að kaupa, nú eða panta það sérstaklega af einhverri síðu því það fæst ekki annars staðar… en allavega, pönnukökurnar! Ég fann um það bil 150 uppskriftir en nennti að gera fæstar, of flóknar fyrir morgunFreyju svo ég ákvað að búa bara til eitthvað einfalt og útkoman varð hreint út sagt bara fín! Þannig nýi morgunmaturinn minn eru próteinpönnukökur og hér er uppskriftin mín, einfalt, fljótlegt og þægilegt!

2 egg

2 msk próteinduft (ég nota með súkkulaði og toffy bragði)

1 stappaður banani

2 msk haframjöl

Allt hrært vel saman og svo er bara að steikja sér pönnukökur á pönnunni og borða eintómar eða setja ósætaða sultu eða ber eða hnetusmjör á. Í raun alveg valfrítt hvað maður gerir! Ég nota jarðarberjasultu sem inniheldur engan sykur, hún er ofsalega góð.

Ég varð að minnsta kosti himinlifandi að finna mér morgunmat sem mér fannst góður og mæli alveg með að prufa þetta fyrir þá sem eiga erfitt með finna sér góðan morgunmat 🙂

En þangað til næst!
Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *