Af hverju ég vorkenni ekki

Það hefur verið örlítið í umræðunni að kenna í brjósti um kynferðisbrotamenn en best að taka það fram að betra er að lesa umræðuna í heild sinni inná facebook síðu Haukar þar sem DV fjallar einungis bara um brotabrot af því, en ég kann hreinlega ekki við að linka beint á facebook síðu annarra og því linka ég frekar inná DV. Þessar umræður og umfjallanir hafa vakið mig til umhugsunar og hér eru mínar vangaveltur.

Nú geng ég út frá því að flestir sem nauðga eru eitthvað skertir. Það nauðgar enginn heilbrigð manneskja, ekki frekar en að heilbrigð manneskja labbi út og myrði næsta mann. Það er eitthvað mikið að þeim sem nauðga, hvort sem um ræðir einhvers konar siðblindu, tímabundna geðveiki eða annað. Það er bara á hreinu að heilbrigð manneskja er ekki nauðgari.

Nú get ég bara ekki séð þörfina fyrir því að vorkenna þessu fólki, það þarf ekki á minni vorkunn að halda. Það er bara allt í góðu að líða illa eftir að hafa brotið svona alvarlega á annarri manneskju og ég skil hreinlega ekki þessa þörf til að fyrirgefa og vorkenna. Fullorðið fólk verður bara að axla ábyrgð á sínum gjörðum og stundum er glæpurinn það alvarlegur að þú átt enga vorkunn skilið -heldur enga fyrirgefningu, að minnsta kosti ekki frá þolenda ofbeldisins. Það að mamma þín, pabbi, systkini eða nánustu fyrirgefa þér er bara allt annað mál.

Þegar ég er komin inná þetta ætla ég einnig að nefna mína meiningu á fyrirgefningu. Ég fyrirgef ekki kynferðisbrotamönnum, ég mun ekki og hef ekki fyrirgefið nauðgurum mínum og sé nákvæmlega ekkert að því. Ég þarf ekki að fyrirgefa þeim til að halda áfram með mitt líf, sem betur fer eru þeir ekki hluti af mínu lífi og munu heldur ekki vera það. Málið með fyrirgefningu er að ég mun fyrirgefa börnunum mínum fyrir að brjóta uppáhalds myndina mína eða vini mínum fyrir að klessa bílinn minn og þar fram eftir götunum. Þá er það fyrirgefið, gleymt og grafið og allt er í lagi. Það er aldrei í lagi að nauðga. Það er ekki í lagi að hafa nauðgað fyrir 10 árum. Það mun heldur aldrei vera í lagi. Tíminn læknar heldur ekki öll sár en þegar tíminn líður þá lærir maður að lifa í sátt. Ég sætti mig við mína fortíð og held áfram.

Að ná sáttum er frekar langt og erfitt ferli. Það tekur tíma að sætta sig við svona erfiðan hlut en ég þarf ekki að fyrirgefa til að sætta mig við þá staðreynd að á mér var brotið og að ég get ekki breytt fortíðinni. Æðruleysi er mikilvægt til að sættast við fortíðina og sætta sig við hluti sem maður getur ekki breytt. Ég get ekki farið aftur í tímann og breytt því sem kom fyrir mig en ég get haldið áfram og lifað mínu lífi eins vel og ég get, í sátt við sjálfa mig. Ég gerði eins vel og ég gat og ég er sátt við minn hlut, ég er ekki reið lengur en ég hef ekki fyrirgefið og mun ekki gera.

Mér þykir mikilvægt að koma þessum punkti inn. Það þurfa ekki allir að fyrirgefa til að halda áfram með lífið og vera sáttir og hamingjusamir í sínu lífi, þessi eilífa krafa um að þú getir ekki lifað hamingjusömu lífi nema að fyrirgefa er ekki sanngjörn, hún er í raun heftandi fyrir þá sem geta eða vilja ekki fyrirgefa. Lífið er ekki svart/hvítt og margir lifa hamingjusömu lífi án þess að fyrirgefa brotamönnum sínum, þeir sem finnst það vera nauðsyn að fyrirgefa geta gert það, en mega þá vel sleppa því að halda því fram að við hin sem kjósum að gera það ekki burðumst með reiði og óhamingjusemi allt okkar líf.

Nú er líklegast til fullt af fólki sem horfir á fyrirgefningu með allt öðrum augum en ég og það er allt í góðu, en þegar kemur að svona glæpum þá er mikilvægt að hafa það í huga að fólk tekur misjafnlega á sínum málum, það er ekki til ein rétt leið fyrir alla. Þolendur kynferðisofbeldis hafa að öllum líkindum hundrað leiðir til að díla við sína erfiðleika og það að segja að ein leið sé sú rétta en hin ekki er hreinlega vanvirðing við alla þá sem velja sér aðra leið.

Þangað til næst!

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *