Fjarlægðin gerir fjöllin….

blá? Eða mögulega er búið að selja öll fjöllin og því ekkert eftir til að sakna.

Nú hef ég verið búsett í Noregi í rúma 15 mánuði og að fylgjast með Íslandi í fjarlægð og þeirri firringu sem á sér þar stað er hreint út sagt ótrúlegt. Ég varð virkilega glöð inní mér þegar ég sá að skipulögð voru mótmæli og jafnvel enn glaðari þegar ég sá á vefmyndavél mílu allt fólkið sem mætti! Bravó og vel gert!

En þrátt fyrir mótmæli þá sé ég ekki fyrir mér að ég komist á þann stað að vilja flytja til Íslands aftur, kostirnir við Noreg eru bara svo miklu meiri. Það er ekki einungis það að geta unnið eðlilegan vinnudag og fá laun til að lifa út mánuðinn fyrir, heldur er það vegna þess að hér er heilbrigðiskerfi sem virkar, hér eru stjórnmálamenn látnir bera ábyrgð á orðum og gjörðum, hér svara stjórnmálamenn þegar þeir eru spurðir, og lögreglan, og herinn og.. þarf ég að halda áfram? Af hverju og hvernig kemst næstum hver einasti maður í valdastöðu á Íslandi upp með allt þetta bull?

Hvernig getur það staðist að opinber starfsmaður heimtar að blaðamaður fer í fangelsi fyrir blaðagrein? Að blaðamenn þurfi að leita til mannréttindadómstóls til að fá uppreisn æru? Hvað í ósköpunum gengur eiginlega á í okkar litla landi?

Þetta er ekki léttvægt og snýst ekkert lengur um það hvaða stjórnmálaflokkur er við völd, þetta snýst um það að spillingin virðist vera í gjörsamlega hverju einasta skúmaskoti sem fyrirfinnst á Íslandi og fólk verður svo samdauna ástandinu að enginn gerir raunverulega neitt. Svo er bara ætlast til að hver einasti landsmaður vilji flytja tilbaka að loknu námi í útlöndum. Til að fólk eigi að vilja búa á landinu verður að gera landið þannig að venjulegt fólk geti búið þar. Það verður að búa við eðlilegt og vel starfandi heilbrigðiskerfi, menntakerfi og atvinnulíf.

Elsku íslendingar, haldið áfram að mótmæla, gerið það sem er rétt. Þessir menn, þeir eiga ekki landið og þeir starfa í ykkar þágu, ekki sinna, minnið þá á það!

Þangað til næst….

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *