Opnum augun

Hér úti hefur einelti verið gríðarlega mikið í umræðunni. Sagan af honum Odin hefur hrist ótrúlega upp í samfélaginu, þar sem hver einasta manneskja sem les söguna hans fær illt í magann og tár í augun. Hvernig getur svona grimmd á móti barni þrifist í okkar samfélagi? Hvað veldur því að þetta er ekki stöðvað? Ég hef áður skrifað um einelti í pistlinum mínum foreldravandamálið einelti þar sem ég var nýbúin að hlusta á rektor skóla barna minna tveggja, Mikaels og Kristínu. Í nýlegri rannsókn kom það fram að Torridal skóli, sem er skóli barna minna væri að mælast með einna minnst einelti stórra skóla í Noregi þar sem mældist 0,7% einelti yfir tímabilið 2007-2012.

Nú hafa börnin mín gengið í þennan skóla síðan um miðjan ágúst og sé ég gríðarlegan mun þá helst á Mikael, hann hefur aldrei þrifist jafn vel í skóla og í þessum, á góða vini, er hamingjusamur og hefur náð lygilegum námsárangri á þessum stutta tíma. Samstarf foreldra og skóla er mjög mikið í skólanum og samstarf milli annarra foreldra mjög mikið. Á foreldrahittingum (í báðum bekkjum) sem eru reglulega yfir árið þá hafa foreldrar verið settir saman í hópavinnu þar sem við eigum að koma með hugmyndir fyrir börnin að gera saman til að viðhalda góðum bekkjaranda og styrkja foreldrasamstarf, samstarf milli barnanna og minnka líkur á einelti. Þetta hefur virkað mjög vel.

Virkt foreldrasamstarf hefur gríðarlega góð áhrif gegn einelti en skólinn ber þar líka ábyrgð að leiða foreldra áfram til að mæta og stýra hópnum hvað eigi að gera. Það er ekki bara hægt að ætlast til að foreldrar nái að skipuleggja svona allt sjálfir, stjórnendur hvers skóla bera þar mikla ábyrgð að forgangsraða þannig að baráttan gegn einelti sé þar efst á baugi, það getur varla neitt verið mikilvægara en að skapa öruggt og gott starfsumhverfi fyrir börnin að vera í. Grunnskólagangan mótar hvern einstakling og það er samfélaginu öllu til bóta að hver einstaklingur komi upp úr grunnskóla með góðan grunn og tilbúinn til að halda áfram en ekki niðurbrotinn eftir margra ára vítisdvöl. Hvert líf er of dýrmætt og ekkert foreldri á að þurfa að upplifa sig varnarlausan gagnvart skóla barnanna sinna og börn eiga aldrei að þurfa að upplifa það að missa von og trú á því fólki sem á að standa með þeim og passa þau í skólanum.

Öll börn geta byrjað að leggja önnur börn í einelti en það eru einungis börn góðra foreldra sem ná þeim tilbaka, einelti á ekki að vera liðið, það á aldrei að segja „við erum að vinna í þessu“, þetta er ekki eitthvað sem þú vinnur bara í, þetta er eitthvað sem þú stöðvar á punktinum. Einelti á ekki að vera liðið og það er ekki í boði að leggja aðra í einelti, svo einfalt er það og svo einfalt á að vinna útúr þessu. Ef foreldri stendur sig ekki í því að stoppa sitt barn í að leggja í einelti þá verður bara að veita þeim foreldrum viðeigandi aðstoð, það er íka viss vanræksla að gera það ekki og ef foreldrarnir ráða ekki við barnið þá verður líka að veita þeim aðstoð.

Ég get ekki hugsað mér kvölina sem þessi börn fara í gegnum og get heldur ekki hugsað mér að þetta samfélagsmein sem einelti er verði ekki stöðvað. Það er hægt að stöðva það, með sameiginlegu átaki foreldra og skóla, öll berum við ábyrgð í að segja nei, þetta er ekki í boði, við viljum ekki búa í samfélagi þar sem börn eru beitt ofbeldi í skólum og ef við stöndum öll saman þá er þetta hægt. Að einelti þrífist er á ábyrgð okkar allra.

Þangað til næst…

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *