Góðu ofbeldismennirnir og lögreglustjórinn

Í mars 2012 birtist einkar óviðeigandi viðtal við Sigríði Björk núverandi lögreglustjóra Höfuðborgarssvæðisins og þáverandi lögreglustjóra Suðurnesja. Í fullum skrúða birtist Sigríður Björk á forsíðu tímaritsins Nýtt Líf þar sem hún efaðist um orð Guðrúnar Ebbu varðandi meinta misnotkun föður hennar, þáverandi Biskup Ísland, Ólaf Skúlason.

Sigríður Björk er gift bróður Guðrúnar Ebbu, sr. Skúla Ólafssyni og er Guðrún Ebba því mágkona Sigríðar. Þar sem málið var opinbert á sínum tíma þá birtust bæði systkinin og sögðu sögu sína, þó það sé örlítið einkennilegt að bróðir hennar segi sína sögu af meintu kynferðisofbeldi systur sinnar þar sem það fór nú ekki beint fram á opnum torgum, ekkert frekar en kynferðisofbeldi gerist almennt.

En ekki þótti þeim hjónum nóg um að hann birtist einn í Kastljósi að rengja sögu systur sinnar því stuttu síðar birtist Sigríður í forsíðuviðtali Nýs lífs. Af hverju rifja ég þetta upp núna? Ég sá þessa umfjöllun einungis nýlega og það sem vakti athygli mína fyrst og fremst, er að sífellt hefur verið talað um baráttu Sigríðar í heimilisofbeldi og kynferðisbrotamálum varðandi störf hennar hjá lögreglunni og kom hún fram í frétt mbl.is um málið og sagði það áherslur sínar, reyndar í fréttinni stendur að áherslan sé á rannsókn kynferðisbrotamála, sem kemur kannski ekki mikið á óvart miðað við orð hennar í viðtali Nýs Lífs.

Nú er stórundarlegt svo vægt sé til orða tekið að manneskja, starfandi lögreglustjóri, stígi fram í forsíðuviðtali í fullum skrúða og leggi sitt persónulega mat á meint kynferðisofbeldi. Því með því að standa þarna í búningnum þá er hún ekki einungis að koma fram sem mágkona Guðrúnar Ebbu, heldur líka sem lögreglustjórinn Sigríður Björk. Það er óhjákvæmilegt þegar hún stígur fram í sínum búning. Lögreglubúninurinn er táknrænn, því getur enginn neitað og þegar konan birtist í viðtali í þessum búningi þá er hún einnig í viðtalinu sem vinnan sín.
Í þessu viðtali segir hún meðal annars að hún eigi einungis góðar minningar af Ólafi Skúlasyni, nú er ég ekki í nokkrum vafa um að það sé rétt, það er alveg ábyggilega til fullt af fólki sem á góðar minningar af Ólafi, það kemur málinu samt ekki við. Það getur ekki verið lagt undir sem ástæða fyrir því að hún telji Guðrúnu Ebbu ljúga, það skiptir nefnilega engu máli hvernig hún upplifði Ólaf, það var ekki hún sem sakaði hann um nauðgun. Ég er heldur ekki í vafa um að Guðrún Ebba á ekki bara góðar minningar um Ólaf Skúlason.

Það er vel þekkt að ofbeldismenn koma vel fram, þetta eru engin skrímsli sem ganga um og meiða hvern einasta mann sem á vegi þeirra verður, heldur þvert á móti. Það er mjög algengt að kynferðisbrotamenn eru vel liðnir og oft á tíðum vinsælir bæði hjá fullorðnum og börnum. Þetta ætti manneskja sem sérhæfir sig í að uppræta ofbeldi að vita, henni ætti ekki að detta til hugar að hennar upplifun af manneskju hafi áhrif á það hversu vond/ur sú manneskja getur verið við einhvern annan.

Nú verð ég að segja að þegar manneskjan kemur svona fram með sitt persónulega mat og segir hreint út að hún trúi ekki Guðrúnu Ebbu meðal annars vegna þess hve góðar minningar hún á af Ólafi þá vekur það ekki upp traust. Það getur ekki verið traustvekjandi fyrir konur höfuðborgarsvæðisins að hafa lögreglustjóra sem opinberlega hefur rengt fórnarlamb kynferðisofbeldis vegna sinna góðu minninga. Hvað ef kona verður fyrir ofbeldi af vinum Sigríðar í framtíðinni? Er hætta á að Sigríður stígi þar einnig fram með sitt persónulega álit og góðu minningar? Þetta grefur undan trausti og finnst mér hreint út sagt ótrúlegt að enginn hafi vakið athygli á þessu fyrr, nema einhver hafi gert það, þetta viðtal fór framhjá mér á sínum tíma, umfjöllunin hefur geta gert það líka. En hvernig sem umfjöllunin um það fór hafði það ekki meiri áhrif en það að hún var settur lögreglustjóri Höfuðborgarsvæðisins tveimur árum síðar. Hvernig kemst starfandi lögreglustjóri upp með það að segja sitt persónulega álit á meintu kynferðisofbeldi í fullum skrúða án þess að eitthvað sé sagt?

 

*Nú hef ég virkilega óbeit á orðinu meintu og hvað þá þegar kynferðisofbeldi fylgir þar á eftir en til öryggis þá nota ég þetta orð, í ljósi þess að önnur hver manneskja er kærð fyrir meiðyrði á netinu nú til dags.

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *