Óvænt athygli

Pistillinn minn um framkomu skólans í garð okkar foreldrana og Mikaels fékk óvænta athygli og var sólarhringurinn eftir færsluna hálf óraunverulegur. Ég er virkilega þakklát fyrir stuðninginn sem ég fékk fyrir að stíga fram og hversu mikið þetta opnaði umræðuna. Þá vil ég líka þakka fréttamiðlum fyrir að koma til móts við mínar kröfur að öllu leyti og fjalla vel um þetta mál.

Ég hef mikið séð kallað eftir að ég nafngreini kennarana sem komu nálægt þessu og skólann sjálfan en ég nafngreindi þessa aðila ekki af ástæðu, þetta átti ekki að verða að nornaveiðum og vandamál sem þetta er landlægt og alls ekkert bundið við einstaka kennara eða skóla og því tilgangslaust að nafngreina og valda einstaka fólki verulegri vanlíðan, þessir aðilar vita uppá sig skömmina og er það nóg.

Ákvað ég að senda námsmatsstofnun póst aftur með fyrirspurn hvað hefði orðið af kvörtuninni okkar og bíð ég eftir svari frá þeim, sem betur fer hef ég geymt öll samskipti um þetta mál skrifleg.

Þar að auki hef ég séð vangaveltur um að Mikael fái einn daginn að vita að skólinn hafi komið svona fram við hann og að aðrir krakkar kringum hann muni jafnvel stríða honum á því.  Fyrir það fyrsta þá erum við búsett í Noregi og munum ekki flytja til Íslands í nánustu framtíð, engin íslensk börn ganga með Mikael í skóla en það allra mikilvægasta í þessu máli er að hvorki við né Mikael höfum eitthvað til að skammast okkar fyrir. Þetta er ekki leyndarmál og munum við segja Mikael frá hegðun skólans í þessu máli. Það er ekkert skammarlegt við það að fá skítlega framkomu, það er ekki eitthvað sem er í okkar ábyrgð og því algjörlega til einskis að þagga það niður og að segja ekki frá vegna mögulegrar stríðni.

En að lokum vil ég bara þakka aftur fyrir auðsýndan stuðning í þessu máli.

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *