Jafnréttið byrjar í leikskólanum

Nú hef ég áður skrifað um hinn stórkostlega grunnskóla sem eldri börnin mín tvö ganga í og taldi ég því tímabært að skrifa um hinn dásamlega leikskóla sem örverpið er á.

Leikskólinn heitir Hokus Pokus og er stúdentaleikskóli rekinn af Studentsamskipnaden i Agder (SIA) og er leikskólinn svokallaður jafnréttisleikskóli. Það er næstum jafnt kynjahlutfall af starfsmönnum (40% starfsmanna karlmenn) og á deild sonar míns (elstu deild leikskólans) er deildarstjórinn karlmaður, svo eru þrír leikskólastarfsmenn, allt menntaðir leikskólakennarar, ein kona og tveir karlmenn. Svo á deild örverpisins starfa fleiri karlmenn en konur. Mikið er lagt upp úr jafnrétti á leikskólanum og það er tíðrætt.

Hverri viku er tileinkað þema, það hefur verið brunavarnaþema þar sem þau fræddust um eldvarnir, slökkviliðsstarfsmenn, viðbrögð í eldsvoða og að lokum heimsótt slökkvistöðinn sjálf. En í síðustu viku var jafnrétti þema vikunnar.

Í jafnréttisvikunni var rætt um jafnrétti, hvort það sé munur á því hvernig stelpur og strákar leika, hvort strákar megi leika með dúkkur og stelpur með kaptein sabeltann og svo framvegis. Varla að ég þurfi að taka það fram en geri það til öryggis. Áherslan er að sjálfsögðu sú allir geta leikið með hvaða leikföng sem er og að leikföng eru fyrir alla óháð kyni, sem og er rætt um liti og föt.

Fimmtudagur er svokallaður innidagur, þar sem til ca. 14 á daginn er leikið inni, meðal annars sett upp brúðuleikhús, búin til listaverk og þess háttar. Í jafnréttisvikunni var sett upp SPA stofa, þar sem börnin fengu að nudda hvort annað, svo var slökunarstöð þar sem þau fengu gúrku á augun og allir fóru í slökun í vissan tíma og einnig var í boði að fá naglalakk og „manicure“ og þar lagt áherslan á að strákar jafnt sem stelpur hafa gaman af þess konar dekri og að gera sig fína með naglalökkum, það er ekki einbundið við stelpur og mætti örverpið heim með silfurlitað naglalakk á annarri hendi og rautt á hinni. Hæstánægður með daginn.

En málið er að þetta er hárrétt. Jafnréttið á að byrja á leikskólanum. Það er erfitt að segja börnum frá því að kynin eru jöfn þegar einungis konur starfa á leikskólanum, en ekki bara á leikskólanum heldur einnig í grunnskólum, þar vantar stráka fyrirmynd, því samkvæmt Félagi Grunnskólakennara í janúar 2013 voru meðlimir þar 80% konur og 20% karlmenn.

Jafnréttiskennsla verður að hefjast snemma til að bera góðan árangur. Það er erfiðara að ætla að byrja þegar samfélagið hefur þegar mótað einstaklinginn í 14-15 ár og samfélagið er mjög kynjaskipt, það er ekki jafnrétti þar og við ölumst upp við það, á endanum teljum við það norm nema við byrjum strax að tala gegn því. Það þarf að velta þessu upp strax svo allir séu meðvitaðir, það þarf líka að gera stráka meðvitaða um það að það sé allt í lagi líða illa og gráta, það á ekki að harka allt af sér. Þetta hefur nefnilega meiri líkamlegar afleiðingar fyrir karlmenn heldur en kvenmenn. Karlmenn lifa skemur, þeir leita síður til læknis og sjálfsmorðstíðni karla er mun hærra heldur en kvenna.

Jafnrétti snertir okkur öll og gerir heiminn betri, það skiptir ekki máli hvort um sé að ræða konur eða karla.

-Freyja-

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *