Týnda sálin og eilífðarstúdentinn

Einhvern tíma sagði maðurinn minn við mig að ég væri fullkomið dæmi um manneskju með ADHD í háskóla, flakkandi á milli brauta í hvert einasta skipti viss um að þarna væri námið komið! Draumurinn að rætast og ég var handviss… –þetta- vildi ég læra!

Verst að þetta var meðal annars tæknifræði þar sem ég kláraði vor- og sumarönn, rafmagnsverkfræði þar sem ég kláraði haustönn, félagsfræði þar sem ég kláraði vorönn og svo að lokum lýðheilsufræði þar sem ég hef lokið hálfri BA gráðu.

Síðan fyllist ég námsleiða, þetta er ekki það sem ég vil læra, ég vil læra næsta þetta. Maðurinn minn kinkar eins skilningsríkt kolli og hann mögulega getur þegar næsta þetta kemur upp og vonar að það sé síðasta þetta sem ég tek mér fyrir hendur.

Hálfnuð í mínu námi ákveð ég að þetta er ekki það sem ég vil læra og fann mér næsta þetta. Hef samband við háskólann og sæki um, þetta er það sem ég vil gera. Þetta er draumurinn.

Fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri í fjarnámi varð fyrir valinu og bíð ég spennt eftir því að hefja nám, vonandi að þetta sé minn raunverulegi draumur.

Ef ekki, þá get ég kannski sameinað þetta í endann í eina Bachelor in Bullshit gráðu, með áherslu á næstum allar deildir háskólans.

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *