Jólagleði trúleysingjans

Ég er búin að vera svo hugsi yfir allri þessari ljótu umræðu sem hefur átt sér stað á netmiðlum undanfarið. Ég elska jólin, mér finnst þetta alveg stórkostlegur tími. Tími barnanna minna, tíminn þar sem þau telja niður dagana allan desember fram að aðfangadag, þar sem þau búa sér til jólagjafalista og svo skreytum við saman, bökum piparkökur, byggjum piparkökuhús og allt er skreytt í öllum regnbogans litum. Þetta er svo stórkostlega skemmtilegur fjölskyldutími sem ég nýt til ystu æsar með börnunum mínum.

Eitt skyggði þó á gleði mína og byrjaði ég að vera reið, þangað til kunningi minn henti mér niður á jörðina aftur og minnti mig á jákvæðnina. En það er þessi leiðinlega umræða sem hefur átt sér stað á netmiðlum. Börnin mín fara í kirkju með skólanum, ég er ekki hrifin     -þau vita ekki af því- en aldrei myndi ég viljandi láta skilja börnin mín ein eftir. En það er líka vegna þess að ég er trúlaus, trú skiptir ekki máli í mínu lífi, hún er ekki partur af því og því líkar mér heldur ekki að það sé verið að boða trú í skóla barnanna minna en ég get hummað það af mér. Hins vegar er til fullt af fólki með aðra trú en kristni þar sem trúin spilar stóra rullu í þeirra lífi, vegna þess fara börnin þeirra ekki í kirkju. Börnin tilheyra minnihlutahópum og eru jaðarsett í skólanum.

Þetta eitt og sér eyðileggur næstum jólagleðina hjá mér. Ég á virkilega bágt með að vita af því að börn eru pikkuð út eftir trú í opinberum skólum og flokkuð þar niður, sum, yfirleitt örfá, eru svo skilin eftir í skólanum meðan aðrir fara í kirku. Þetta er sárt og þetta er ljótt.

Jólin eiga að vera tími barnanna, þetta á að vera tími fjölskyldunnar og þetta á að vera tími náungakærleiks. Hvort sem við erum bleik, hvít, brún, gul, rauð eða fjólublá, eða trúlaus, kristin, múslimar, búddha trúar eða alls konar trúar, það skiptir ekki máli. Við erum öll manneskjur af holdi og blóði, öll berum við tilfinningar og allt eru þetta börn sem ganga í leik- og grunnskólana okkar. Börn eiga aldrei -undir nokkrum kringumstæðum- skilið að vera mismunað.

Foreldrar eiga að sjá um trúarinnrætingu hjá sínum börnum, af hverju ekki að virkja foreldrastarf innan kirkjunnar? Skipuleggja huggulegar aðventustundir hvern sunnudag fram að jólum fyrir börn og foreldra? Möguleikarnir eru endalausir ef einungis viljinn er fyrir hendi.

En ég ætla allavega að njóta jólanna, í faðmi fjölskyldunnar og þakka fyrir hvað ég hef verið heppin í mínu lífi, með stórkostleg börn, góða fjölskyldu, fallegt heimili og gott líf. Það eru sönn forréttindi að búa við það.

Þið hin, njótið jólanna á ykkar hátt, með ykkar hefðum og hafið það gott.

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *