Máttur bókarinnar

Ég hlakka alltaf mest til jólanna þar sem ég veit að þá get ég átt ótrúlegar góðar stundir með bók í hönd. Eða réttara sagt, með kindil í hönd. Mikilvægustu eign mína.

Ég þarf ekki á neinu að halda ef ég hef góða bók, ég tala ekki í símann, ég kíki ekki á netið og ég hef ekki opnað tölvuna mína síðan 22. desember, svona til að gera þetta einfalt, ég verð örugglega svakalega leiðinleg manneskja sem talar ekki við neinn. Reyndar hef ég netið í símanum mínum en það hefur ekki verið notað sérstaklega mikið, aðallega til að deila einstaka jólamyndum.

En síðan 22. desember hef ég verið að lesa Divergent bækurnar, réttara sagt byrjaði ég á fyrstu bókinni -Divergent, las svo bók númer tvö -Insurgent og að lokum bók númer þrjú -Allegiant. Ég sá nefnilega myndina, Divergent, í nóvember og hugsaði með mér að þetta gæti ekki bara verið mynd, hún minnti mig á Hunger Games, þetta eru keimlíkar sögur að mörgu leyti en samt ekki alveg. Svo ég ákvað að leita að myndinni og upplýsingum og sá að ég hafði rétt fyrir mér! Þetta voru að sjálfsögðu bækur, svo ég náði í þær á kindilinn minn og beið spennt eftir jólafríi.

Nú hef ég gleypt þessar bækur í mig bókstaflega, lesið þær allar þrjár á fjórum dögum en sit eftir frekar vonsvikin. Þegar ég las Hunger Games bækurnar þá var það eins, ég las þær allar í einu en ég varð þó ekki vonsvikin með endinn, hann var kannski örlítið fyrirsjáanlegur en þessi, ég get ekki útskýrt það, viss tómleiki varð til við endann á bókinni. En þær eru góðar.

Næstu bækur sem ég ætla að byrja á er Maze Runner, alveg eins og Divergent er þetta mynd sem ég sá í nóvember, hugsaði það sama og fann út það nákvæmlega sama. Sumar myndir eru þess háttar að þú situr eftir og sérð að þetta getur ekki bara verið mynd, þetta hlýtur að vera bók. Bækur eru, og munu alltaf vera, betri.

Að lesa góða bók er ótrúlegt, fyrir einhvern sem ekki hefur gaman af bókalestri hljómar þetta líklegast einkennilega, en bækur geta búið til heim, svo lifandi að þú getur næstum snert hann. Þú veist öll smáatriði, ekkert er ósvarað og karakterinn verður lifandi fyrir sjónum þér eins og manneskja.

En þar sem ég hef nýlokið lestrinum á þessum bókum er ekki seinna vænna en að byrja á þeim næstu, eftir allt, þá hef ég ekki endalaust jólafrí og eins gott að nýta það vel!

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *