Áramótauppgjör

Í dag er 29. desember og einungis tveir dagar eftir af árinu. Það fylgir því alltaf viss sorgartilfinning að kveðja nýtt ár, ég verð alltaf örlítið döpur við öll áramót, ég er ekki viss hvort það sé vegna þess að á nýju ári hefst nýr kafli eða hvort það sé pressan að maður á alltaf að gera betur. Á áramótunum áttu að strengja heit, þú ætlar að verða jákvæðari, duglegri í skólanum, léttast, komast í betra form, drekka minna, hætta að reykja, eyða meiri tíma með fjölskyldunni og listinn gæti haldið endalaust áfram.

Auðvitað verður enginn að strengja áramótaheit en þetta liggur í loftinu, hverju ætlarðu að breyta á næsta ári og hvað ætlarðu að gera betur? Verða besta útgáfan af þér?

Hvað þýðir það að vera besta útgáfan af sjálfum sér? Er maður það einhvern tíma?

Öll ár eru viðburðarík, í lok hvers árs horfi ég tilbaka og hugsa, vá hvað það skeði mikið á þessu ári, en það er ekkert nýtt. Það eru 12 mánuðir í hverju ári og því viðbúið að það gerist heill hellingur.

Ég hef vissan kvíðahnút yfir nýju ári, ég er að taka nýja stefnu og draumur sem hefur blundað í mér lengi er aðeins að koma upp á yfirborðið, ég fann von og ég rígheld í hana. Ég ætla að eyða næsta ári í að færa mig nær draumnum mínum, ég hef von og ég hef trú að ég geti uppfyllt hann.

En í lok ársins horfi ég tilbaka og þó vissulega séu alltaf viðburðir sem maður sér eftir og hugsar að önnur viðbrögð hefðu verið heppilegri eða betri þá breytir maður ekki því liðna. En á hverju ári eru líka viðburðir sem maður er stoltur af, sáttur við sinn hlut og einhvers staðar kom maður sjálfum sér á óvart. Eins erfitt og árið hefur verið á stundum þá hefur það verið jafn gott á öðrum. Súrsætt ár.

En gleðilegt nýtt ár til ykkar allra, ég ætla að setja mér áramótaheit, það verður ekki það að létta mig, komast í betra form eða borða hollari mat. Ég ætla heldur ekki að vera besta útgáfan af mér því það er bara ein útgáfa hvort sem er. Ég ætla að halda áfram að láta mig dreyma og ég ætla að reyna að láta drauma mína rætast, alveg sama hversu fjarlægir þeir eru.

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *