Ég stend með læknum

og ég vildi bara koma því frá.

Almenningur á að standa þétt við bakið á læknum. Laun þeirra, álag og vinnuaðstæður eru með öllu óásættanlegar. Það þýðir ekki að laun annarra stétta eða vinnuaðstæður séu í lagi en þær eru ekki til umræðu núna, laun á Íslandi eru yfir höfuð of lág en það er ekki það sem er verið að berjast fyrir akkúrat núna. Ég hvet allar stéttir á Íslandi til að berjast fyrir betri kjörum, ekkert er eðlilegt í dag miðað við hvað það kostar að framfæra sér á Íslandi.

En að horfa uppá ríkisstjórnina reyna að snúa almenningsáliti gegn læknum er hreint út sagt viðurstyggilegt. Þarna koma fram ráðherrar með égveitekkihvaðmarga aðstoðarmenn sjálfir og geta ekki samið við lækna sem vinna við ömurlegar aðstæður og undirmannaðir allan sólarhringinn. Í staðinn stíga þeir fram og reyna að fá almenning til að snúast gegn þeim. Þetta er ógeðslegt.

Nú bý ég í landi með heilbrigðiskerfi sem virkar, reyndar bý ég við sósíalískt heilbrigðiskerfi sem hefur vissulega sína kosti og galla, það pirrar mig vissulega oft að geta ekki pantað sjálf tíma hjá þeim læknum sem ég vil mæta hjá, eins og t.d. kvensjúkdómalæknis. En það er umfram allt mikilvægast að búa við tryggt heilbrigðiskerfi, ég og fjölskyldan mín búum við greiðan aðgang að lækninum okkar og getum leitað þangað til að fá aðstoð og beiðni til sérfræðings ef þarf.

Í þessu ljósi má líka nefna að hér er lyfja- og lækniskostnaður tekinn saman, svo þegar ég var búin að greiða 2105kr norskar, sem gera samkvæmt landsbankinn.is í dag 36.003kr íslenskar fæ ég svokallað fríkort. Eftir það fæ ég öll lyf sem eru með bláresept, sem eru öll nauðsynleg lyf (þ.m.t. ofnæmislyfin mín), og alla læknisþjónustu ókeypis, ég þarf ekki að borga eitthvað lágmark heldur þarf ég einungis að sýna kortið og borga ekki krónu.

Nú vilja ef til vill margir segja að sjálfsögðu er þetta öðruvísi hérna, Noregur er ríkt land og allt það EN ég borga aðeins hærri skatta, hér eru auðlindir í eigu almennings og hér er forgangsraðað í ÞÁGU almennings, EKKI örfárra ríkisrassa! Ísland og íslendingar hafa fullt tækifæri til að bjóða uppá gott heilbrigðiskerfi með samkeppnishæfum launum og góðu starfsumhverfi, þetta er spurning um að nýta auðlindir þjóðarinnar í þágu almennings en ekki örfárra einstaklinga og forgangsraða!

En ég endurtek það aftur, ég stend með læknum, starfsumhverfi sem þeir búa við í dag er ekki neinum bjóðandi.

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *