Vanhæfni Sigmundar

Sigmundur Davíð heldur því fram að lekar úr íslenskri stjórnsýslu um persónuhagi fólks séu algengir og því þykir honum einkennilegt hversu stórt lekamálið svokallaða var. Það að Sigmundur sjái ekki eitthvað að því að leka persónulegum málefnum, trúnaðargögnum, út úr íslenskum ráðuneytum segir allt sem segja þarf um vanhæfni hans.

Það að íslendingar tóku allt í einu við sér og ákváðu að stjórnvöld kæmust ekki upp með það að leka trúnaðargögnum um einstaklinga í fjölmiðla er jákvætt. Það hversu stórt lekamálið var, er ekkert nema jákvætt því loksins í fyrsta sinn þurftu ráðamenn að taka ábyrgð á gjörðum sínum! Við skulum ekkert ræða hversu litlar afleiðingar þetta hafði fyrir viðkomandi einstaklinga því þeir dómar sem féllu voru hlægilegir og alls ekki nægilega þungir. Fyrir utan fáránleg viðtöl sem fylgdu á eftir.

En að reyna að réttlæta það að leka trúnaðargögnum um einstaklinga út úr íslenskum ráðuneytum með því að þetta sé algengt og því ekkert mál, hræðir mig. Það bókstaflega hræðir mig að þessi maður sé einn valdamesti maður þjóðarinnar.

-Freyja

Join the Conversation

 1. Avatar
 2. Avatar

2 Comments

 1. Það er rétt að alls konar lekar hafa viðgengist í opinberri stjórnsýslu langa lengi, nægir að benda á tvö nýleg mál sem vörðuðu persónuhagi fólks, annað hjá Fjármálaeftirlitinu og hitt hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. En þessi mál eru ótal.

  En það er rangt að Sigmundur Davíð hafi talið það einkennilegt þess vegna hve þetta mest áberandi lekamál í fyrra hafi vakið mikla athygli. Eða sjái ekkert að því að trúnaðargögnum sé lekið í fjölmiðla. Hvar hefur hann tjáð sig þannig?

  Nú hefur aðeins einn dómur fallið vegna þessa leka í fyrra. Ráðherrann hefur ekki verið kærður né dæmdur, hún var flæmd í burt með sífelldum árásum sem DV kynnti undir og iðkaði um leið. En hún varðist augljóslega ekki með réttu hugarfari.

  Það töpuðu allir í þessu stríði og gamla blaðið mitt, DV, er í rjúkandi rúst. Ég hef lengi saknað DV eins og til þess var stofnað. Þar var ég einn af liðinu. Núna á ég engra hagsmuna að gæta þar og þekki hvorki Sigmund Dvíð né Hönnu Birnu.

  1. Já það er svo sem eitthvað sem ég hef gefið mér. Sigmundur hefur hvergi fordæmt þennan leka, þegar maðurinn getur ekki fordæmt lekann og segir svo í lokin að þjóðin verði að læra af lekanum, þá finnst mér það ekki bera vott um að honum finnist eitthvað því að leka trúnaðargögnum um fólk. Vandinn var augljóslega ekki sá að trúnaðargögnum var lekið heldur að þjóðin gekk fram með of mikilli hörku, -sem er mjög brengluð sýn á stöðuna að mínu mati.

   Nú er ég augljóslega ósammála staðhæfingum Sigmundar, mér þykir nefnilega þingmenn, ráðamenn og íslensk stjórnsýsla megi læra af þessu máli en ekki þjóðin. Þeir mega læra það að íslenskur almúgi er kominn með nóg af því að hafa sig af fífli – ég vona það að minnsta kosti.

   Ráðherra ber meiri ábyrgð en hin almenni starfsmaður, það að hún steig ekki til hliðar um leið og lekinn kom upp þykir mér bera vott um visst dómgreindarleysi. Það hefði verið mun eðlilegra að stíga til hliðar og leyfa óháðri rannsókn að fara fram en slíkt gerðist nú ekki. Í staðinn hrökklaðist þáverandi lögreglustjóri, Stefán Eiríkson, frá störfum og sagði eftir það að hún hefði ítrekað reynt að hafa áhrif á málið. Þannig hún var alveg jafn ófagleg í sínu starfi og það leit út fyrir að vera. Hún stoppaði þó ekki þar heldur handvaldi hún nýjan lögreglustjóra sem vildi bara svo heppilega til að vera nákvæmlega sami lögreglustjóri og veitti Gísla Frey trúnaðarupplýsingarnar til að byrja með. Þetta er hreinlega of mikil tilviljun til að maður geti trúað henni.

   Já ég sé líka eftir dv.is sem er nú einungis orðið að fréttablaði Framsóknarflokksins og trúverðugleikinn jafn mikill og hjá flokknum sjálfum.

   Að lokum vil ég segja að fjöldi leka er í raun þessu máli óviðkomandi, það eru mörg brot alls staðar og að réttlæta eitt þeirra með því að benda á annað er í raun alveg fáránlegt. Við ættum að fagna því að brot fái athygli og að lokum dómsúrskurð, en ekki að hneykslast á umfjölluninni. Vonandi bara að þetta verði til þess að allir lekar verði að lokum að dómsmálum og að kannski nái íslensk stjórnsýsla að koma sér upp trúverðugleika aftur. Þó það séu mörg ár í það.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *