Af vanhæfum foreldrum

Í dag birtist frétt inná pressan.is um  hina 14 ára gömlu Snædísi sem hefur lent í virkilega grimmu og ljótu einelti. Það tekur á hvern einasta mann að lesa svona hryllingssögur, ég get ekki ímyndað mér hvernig er að upplifa þær á eigin skinni. Þessi stelpa er sannkölluð hetja að stíga fram og segja frá. Það er líka oft eina vopnið í baráttunni gegn grimmum krökkum og vanhæfum foreldrum þeirra.

Ég hef sagt það áður og segi það aftur að einelti er foreldravandamál, enda kemur það skýrt fram þarna í greininni að foreldrar gerandana eru gjörsamlega geldir þegar kemur að því að aga börnin eða grípa inní algjörlega óásættanlega hegðun krakkana. Þeir líta í hina áttina og segja að börnin þeirra gera ekki svona nokkuð.

Er ekki nokkuð ljóst að þarna er um að ræða barnaverndarmál? Foreldrar sem geta ekki agað börnin sín og axlað þá ábyrgð sem þeim fylgir eru augljóslega vanhæfir. Allir foreldrar sem hafa hint af hæfni í farteskinu myndu taka hart á því ef börnin þeirra yrðu uppvís að einelti. Það segir sig sjálft.

Næsta skref ætti því væntanlega að vera að tilkynna foreldrana til réttra yfirvalda fyrir að bregðast skyldu sinni með öllu.

En til Snædísar og allra fórnarlamba eineltis vil ég segja; Unglingsárin eru sem betur fer ekki besti partur lífsins. Lífið er stærra, betra og meira heldur en það sem gerist þar. Haldið áfram, það hefur enginn rétt á því að segja að þið eigið ekki að halda áfram, þið hafið fullan rétt og þið eigið líka fullan rétt á að lifa ofbeldislausu lífi. Það er heill her fólks sem stendur við bakið á ykkur og fordæmir ofbeldið sem þið verðið fyrir og vonandi verður fundin viðeigandi lausn, fyrr heldur en síðar!

-Freyja

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *