Mikilvægi bólusetninga!

Bólusetningar hafa verið mikið í umræðunni um allan heim núna. Frá Bandaríkjunum berast fréttir um að mislingafaraldur berst hratt út og hér í Noregi fjalla fjölmiðlar um hættuna af áróðri andstæðinga bólusetninga þar sem æ fleiri foreldrar kjósa að bólusetja ekki börnin sín. Hættan af slíkri ákvörðun er gríðarleg og helstu rökin sem notuð hafa verið fyrir að sleppa MMR bólusetningu er sú mýta að hún valdi einhverfu. Ekkert bendir hins vegar til þess að það sé satt. Læknirinn sem gerði rannsóknina er búinn að viðurkenna að hafa falsað niðurstöðurnar og var sviptur læknaleyfinu í kjölfarið. Einnig hafa verið uppi raddir um að bólusetningar innihaldi kvikasilfur en staðreyndin er sú að frá árinu 2007 inniheldur ekkert bóluefni sem notað er í almennar bólusetningar kvikasilfur.

Ein af ástæðum þess að mikilvægt er að bólusetja er að viðhalda hjarðónæmi. Hjarðónæmi er þegar nógu margir eru bólusettir gegn ákveðnum sjúkdómum svo komið er í veg fyrir útbreiðslu þeirra. Því gerist það óhjákvæmilega að þegar hlutfall bólusettra lækkar að við búum ekki lengur við hjarðónæmi, sem er gríðarlega hættulegt og þá sérstaklega fyrir þá einstaklinga sem ekki mega fá bólusetningar vegna sjúkdóma eða veikinda. Þeir einstaklingar verða að treysta á hjarðónæmi.

Alvarlegar afleiðingar mislinga verða ekki endurteknar nógu oft. Staðreyndin er sú að árið 2013 voru skráð 145.700 dauðsföll vegna mislinga í heiminum, það jafngerir því að á hverri klukkustundu dóu 16 manns úr mislingum. Eina leiðin til að koma í veg fyrir smit er bólusetning. Bólusett er gegn mislingum við 18 mánaða aldur í svokollaðri MMR sprautu og er hún endurtekin við 12 ára aldur. Staðreyndir um þessa bólusetningu má finna á vef Embætti landlæknis og segir þar:

Alvarlegar afleiðingar mislinga Alvarlegar afleiðing bólusetningar (sönnuð tengsl) Engin tengsl við bólusetningu
Lungnabólga: 1 af 20
Heilabólga: 1 af 2000
Dauði: 1 af 3000 í hinum vestræna heimi en 1 af 5 í þróunarlöndum
Heilabólga eða alvarleg ofnæmisviðbrögð: 1 af 1.000.000
Fækkun blóðflagna: 1 af 500.000
Liðbólgur: 1 af 300.000
Einhverfa
Heilaskaði
Sykursýki
Þarmabólga

Þátttaka barna í MMR bólusetningu á Íslandi árið 2013 sýnir að nauðsynlegt er að fræða almenning betur um nauðsyn bólusetninga og afleiðingar þess ef við búum ekki lengur við hjarðónæmi. Í skýrslu sem Embætti landlæknis gaf út, sýnir að árið 2013 var bólusetningarhlutfall í MMR bólusetningu 90% yfir landið allt og einna minnst í Vestmannaeyjum þar sem hlutfallið er einungis 86% en hæst er hlutfallið á Vestfjörðum þar sem það mældist 93%.

Talið er að til að koma í veg fyrir mislingafaraldur þurfi bólusetningarhlutfall að vera að minnsta kosti 90%. Er því ljóst að ekki megi mikið út af bregða til að hætta á mislingafaraldri verði að raunveruleika.

Elsku foreldrar, ekkert okkar vill missa börnin okkar vegna smitsjúkdóma, veljum rétt og bólusetjum.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *