Uppgötva heiminn upp á nýtt

Nú fyrir nokkrum mánuðum skildi ég við maka minn til margra ára. Maður sem ég hafði verið með frá því að ég var unglingur. Svo ég þekkti í raun ekki lífið án hans. Ég hafði aldrei verið fullorðin án þess að hafa hann mér við hlið. Breytingin var í raun stærri en ég gerði mér grein fyrir.

Nú ætla ég mér ekki að fara út í ástæður skilnaðarins og mun aldrei gera það opinberlega heldur. En ég ætla að skrifa um mína upplifun hvernig það er að uppgötva heiminn alein aftur. Það er í raun stórundarlegt fyrirbæri að verða allt í einu einhleyp eftir margra ára sambúð og rússibaninn er slíkur að ég hefði einhvern veginn aldrei gert mér almennilega grein fyrir öllum tilfinningaskalanum sem maður fer í gegnum. Þetta er í raun kannski svolítið eins og að missa vitið í örlitla stund. Það finnst mér lýsa þessu best.

Ég las grein um daginn þar sem var sagt að maður ætti að óska fólki til hamingju sem er að skilja. Ég er enn að melta það hvort ég sé sammála því. Ég veit það hreinlega ekki. Ástæðurnar geta verið svo margar en auðvitað vona allir sem standa í þessum sporum að ákvörðunin hafi verið rétt, nú sé maður kannski að stíga sín fyrstu skref í átt að sannri hamingju -hver svo sem hún er.

Ég nýtti tækifærið og ferðaðist bæði til Þýskalands og Sviss. Ég get með sönnu sagt að ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun minni. Ég hef alltaf óskað mér þess að ferðast, gat látið það rætast núna í fyrsta sinn. Það var dásamlegt og mjög hollt að prufa að ferðast til annarra landa. Ég fór einungis ein, heimsótti vin minn og konuna hans í Þýskalandi og systir mína, mág og börn í Sviss. Menningin er allt öðruvísi en maður á að venjast og ef satt skal segja þá fannst mér ég allt í einu vera komin heim þegar ég kom til Sviss. Það eru allir svo afslappaðir og umhverfið er dásamlegt. Þetta er staður sem ég get séð mig fyrir mér búa á.

En aftur að skilnaðinum. Fyrstu vikurnar eru ennþá í hálfgerðri móðu. Ég var í raun heppin og tveim vikum eftir skilnaðinn ferðaðist ég til Íslands. Það hjálpaði vissulega til að dreifa huganum. En svo tók alvara lífsins við og maður þurfti að koma heim, skipta innbúinu og enn í dag á ég ekkert sjónvarp. Ég sakna þess svo sem ekki svo mikið, ég á aðra hluti í staðinn og vonandi bý ég við þann lúxus einn daginn að geta keypt mér sjónvarp.

En það sem mér fannst kannski erfiðast að kyngja var einveran á kvöldin. Vaninn að hafa alltaf félaga sér við hlið á hverju kvöldi var erfiðastur til að brjóta fannst mér og fyrstu vikurnar á eftir hlóð ég líklegast símann minn 3x á hverjum degi, því ég gerði ekkert nema að tala í símann til að dreifa huganum. Halda mér upptekinni við eitthvað svo ég fyndi ekki fyrir einverunni. Síðan þakka ég góðum vinum kærlega fyrir félagsskapinn í gegnum erfiða tíma og í þessum breytingum þá eignaðist ég eina af mínum bestu vinkonum líka. Ég hef oft lesið það og heyrt að þegar þú virkilega þarft á vinum að halda þá verður ólíklegasta fólk þér til staðar og það er svo sannarlega satt. í gegnum mína erfiðleika endurnýjaði ég vinskap við dásamlega stelpu sem ég fer ekki í gegnum daginn án þess að tala við.

Það er einkennilegt hvað lífið getur breyst gríðarlega með einni ákvörðun. Ég hef eytt síðastliðnum mánuðum í að reyna að finna út hver ég er, skilja hvað ég vil sem einstaklingur og reyna að átta mig á hvað ég raunverulega vil út úr lífinu. Ég ákvað að háskólanám væri ekki fyrir mig, mér leiðist það. Ég veit ekki alveg hvað ég vil gera í lífinu en sótti um nám í snyrtifræði. Það finnst mér virka spennandi. Ég vil ekki vera búsett á Íslandi, svo mikið veit ég, ég vil ferðast um heiminn, ég vil upplifa eitthvað nýtt á hverju ári en umfram allt vil ég muna að njóta lífsins.

Furðulegasta við allt þetta tímabil var það að ég lokaðist alveg. Ég gat ekki skrifað stakt orð. Ég hef sest niður oftar en ég hef tölu á og reynt að koma frá mér einhverju sem gæti líkst heilli setningu en; ekkert. Ég var gjörsamlega tóm. Mér finnst, sérstaklega eftir sumarfríið mitt, að ég sé að ná einhverjum áttum. Ég er að ná einhverri fótfestu aftur. Því ákvað ég að skrifa þetta niður. Kannski það sé byrjunin, byrjunin að ná að skrifa aftur.

Þangað til næst…

 

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *