5 ástæður fyrir því að mér líkar betur við Sviss en Noreg

Ég eyddi tíu dögum í Sviss og segi það enn og aftur, ég kom heim. Ég fann mig í Sviss. Þvílíkur dýrðarstaður sem verður heimsóttur minnst einu sinni á ári þangað til ég vinn í lottói og get flutt þangað. Nú líkar mér almennt betur við Noreg en Ísland; en mér líkar enn betur við Sviss. Nú hef ég bara skoðað brotabrot af heiminum, kannski mun ég finna mig einhvers staðar annars staðar líka, Ítalía verður heimsótt á næsta ári, kannski kem ég heim þar líka. Aldrei að vita. En eins og staðan er núna, þá er það Sviss sem vinnur. Ég eyddi þessum tíu dögum í bæ sem heitir La Chaux-de-Fonds, ótrúlega kósý fjallabær í 1000m hæð.

1. Vinalegheit
Nú er ég týpískur Norðurlandabúi, köld og fráhrindandi. Tilhugsunin um að einhver myndi kyssa mig hæ og bæ þótti mér hálf fáránleg ef satt skal segja. Hvað þá þrisvar sinnum í hvert sinn. Eiginlega bara út í hött. En þegar á hólminn var komið var þetta ótrúlega vinalegt hreinlega. Það var eitthvað við það að heilsa fólki svona innilega, það gaf mér góða tilfinningu. Eitthvað sem ég bjóst aldrei við.

2. Góðar almenningssamgöngur
Ég bý í um 90 þúsund manna bæ í Noregi, ég var í 38 þúsund manna bæ í Sviss. Samt voru almenningssamgöngurnar þar miklu betri! Bæði hvað varðar strætó og lestar. Strætó gengur á 10 mínútna fresti um allan bæ svo þú þarft aldrei að bíða lengi, svo fara lestarnar að sjálfsögðu út um allt og ekkert mál að ferðast með þeim hvert sem þú vilt.

3. Úrval veitingastaða
Ég væri ekki ég ef ég myndi ekki minnast á matinn. En úrval alls konar veitingastaða í þessum litla bæ var frábært! Miklu betra heldur en nokkurn tíma hérna í Kristiansand og verðið var mun betra líka, sem kom mér kannski mest á óvart. Sérstaklega í ljósi þess að maturinn er miklu dýrari í Sviss en Noregi og því hálf ótrúlegt hvað verðið á veitingastöðum var lægra heldur en í Noregi.

4. Lifandi tónlist og skemmtanalíf
Það var lifandi tónlist út um allt öll kvöld hreinlega. Ég hef aldrei farið svona mikið út á kvöldin, enda var ég án barna, en það var alltaf hægt að fara út og hlusta á lifandi tónlist á mismunandi stöðum. Þó að ég og mágur minn höfum haldið góðri tryggð við einn bar meira og minna að þá var samt nóg úrval. Einnig er mikið um alls konar hátíðir og fórum við á svokallað Promo Festival sem var haldið í bæ sem var í 10 mínútna fjarlægð, Le Locle. Festivalið náði yfir þrjár langar götur og voru þúsundir manns að skemmta sér. Þetta var ótrúleg upplifun. Í sama bæ er rokkhátíð í ágúst og þykir þetta vera mjög vanalegt að halda svona hátíðir. Virkilega skemmtileg menning.

5. Náttúran
Náttúrudýrðin í Sviss er hreinlega engu lík. Ég gat gleymt mér í að stara í kringum mig hvert sem ég fór. Risastór fjöll voru græn alla leið, það var ótrúlegt að sjá.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *