Fortíðarflótti

Meira og minna allt mitt líf hef ég verið leitandi. Leitandi eftir einhvers konar innri frið sem virðist hvergi vera finnanlegur. Eftirköst kynferðisofbeldis geta svo sannarlega verið langvarandi og í mínu tilfelli er það svo. Ég hef alltaf beðið eftir að þetta lagist, að ég nái að halda algjörlega áfram en samt situr þetta fast í manni. Ég hef oftast upplifað mig hálf týnda í lífinu, ég hef vissa hluti á hreinu en meira og minna líður bara tíminn og ég veit ekki enn í dag hvað ég vil nákvæmlega út úr lífinu. Ég eyddi svo löngum tíma á unglingsárum þess fullviss að það yrði ekkert úr mínu lífi að ég planaði ekki neitt. Lífið hélt bara áfram og maður gerði sitt besta í hverju því sem maður tók sér fyrir hendur. Sem gekk svo misjafnlega.

Að reyna að útskýra líðan sína fyrir fólki sem stendur ekki í sömu sporum er næstum ómögulegt því maður kemur þessu ekki í orð. Ég get ekki útskýrt. Ég er bara týnd og ég er leitandi. Ég veit ekki hvað ég vil og ég veit ekki hvert ég stefni. Maður myndi ætla að þegar maður nálgast þrítugt óðfluga að maður hefði tekið einhverja stefnu, hefði fundið einhverja ró innra með sér eða vissi hvað maður vildi og þó það væri ekki niðurneglt að maður hefði að minnsta kosti glætu um það. En ég hef eytt lífinu í að flýja fortíðina. Gleyma vondum minningum og halda áfram en það virkar ekki. Að bæla niður vondar minningar veldur því að maður bælir niður þær góðu líka og man ég hreinlega bara ekkert eftir þremur árum í mínu lífi. Árunum á milli 13 og 16 ára. Þau eru týnd, gleymd og grafin.

Búsett í Noregi gefur mér þann kost að fólk hérna veit ekkert um mig, það veit ekki mína fortíð og það veit ekki hver ég er. Það er samt ekkert endilega jákvætt því eins félagslynd og opin ég er, þá hleypi ég engum að mér. Ég held öllum í vissri fjarlægð því ef fólk er ekki of nákomið mér þá getur það ekki sært mig og ég er dauðhrædd við að vera særð. En það hefur þann ókost í för með sér að maður tengist heldur aldrei raunverulega neinum. En minn stærsti fylgikvilli áfallastreituröskunar er tilfinningadofi. Ég finn ekki fyrir miklum tilfinningum og ég á gríðarlega erfitt með að tengjast öðrum og eins mikið og ég hef reynt að sjá það í jákvæðu ljósi þá er það samt ekki jákvætt. Það er ekki gott að geta ekki tengst öðru fólki á eðlilegan máta. Það er heldur ekki gott að geta ekki leyft sér að finna eðlilegar tilfinningar, hvort sem þær eru góðar eða slæmar.

Ég reyni almennt að vera bjartsýn og jákvæð á lífið. Það hefur vissulega heilmikið upp á að bjóða. En þrátt fyrir jákvæðni og bjartsýni þá upplifi ég mig týnda. Í dag eftir skilnaðinn er ég ennþá týndari. Þrátt fyrir að vera sátt við það uppgjör þá var afleiðingin af því samt sem áður sú að ég stóð uppi ennþá týndari. Ég hafði aldrei verið ein. Það er eitthvað sem ég er ennþá að læra. Ég er að sjálfsögðu ekki alein, ég hef börnin mín og fyrir það er ég þakklát. Þau gefa mér meira heldur en nokkuð annað í lífinu.

Að setjast niður og skrifa frá sér hugsanir er líklega það besta sem ég geri. Ég hef aldrei verið alltof flink að koma hugsunum mínum frá mér í orðum en að skrifa þær niður er einhvern veginn auðveldara. Kemur einhverri reglu á óregluna í hausnum á manni.

Það er fyndið hvað sum lög geta haft mikil áhrif á mann. Enn í dag hlusta ég alltaf á lagið „Rise up“ með Beyonce ef ég verð niðurdregin. Það gefur mér ákveðin kraft. Muna að lífið hefur upp á meira að bjóða heldur en ég sé akkúrat núna. Það er ekkert ómögulegt og maður getur alltaf haldið áfram. Bara að muna að bíða, það munu koma betri tímar.

Þetta er að öllum líkindum sú allra neikvæðasta bloggfærsla sem ég hef ritað en standandi í þeim sporum sem ég stend í dag þá er þetta eina sem ég kem frá mér. Kannski einn daginn mun ég svífa um á bleiku skýi og skrifa frá mér jákvæðan bloggpistil. Kannski, mögulega einn daginn. En í dag, þá tek ég bara einn dag í einu. Reyni að muna að ekkert er endanlegt og það koma betri tímar. Kannski einn daginn losna ég við mína áfallastreituröskun og get leyft mér að upplifa allar þær tilfinningar sem lífið hefur upp á að bjóða og hætt að vera hrædd við að hleypa fólki að mér. Hætt að vera leitandi og finn mína leið. Það er alltaf von.

Join the Conversation

  1. Avatar

1 Comment

  1. þú ert frábær :* gott að geta losað aðeins um hugsanirnar sínar og ennþá betra ap skrifa þær niður <3

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *