Áfram heldur þöggunin

Lögreglustjóri Vestmannaeyja leggur til þöggun kynferðisafbrota sem, miðað við síðustu ár, verða á Þjóðhátíð. Á hverri einustu Þjóðhátíð síðastliðin ár hafa komið upp kynferðisbrotamál svo að öllum líkindum munu þau einnig verða í ár.

Af hverju leggur lögreglustjórinn þetta til? Jú vegna þess sem hún segir að ef sagt verði frá málunum í fjölmiðlum muni það verða fórnarlömbunum þungbært. Ég myndi ætla að afbrotið sjálft muni verða fórnarlömbunum þungbært, þögn fjölmiðla og samfélagsins er hins vegar ennþá þungbærri. Ef þetta mun verða eftir mun þögn fjölmiðla og samfélagsins um brotin ekki hjálpa til við skömmina sem fórnarlambið upplifir. Undanfarna mánuði hafa konur Íslands risið upp og rofið þögnina. Við munum ekki þegja, við erum hættar að skammast okkar fyrir ofbeldið sem við urðum fyrir því þetta var ekki okkur að kenna. Kynferðisofbeldi er aldrei fórnarlambinu að kenna, aldrei. Ekki undir neinum kringumstæðum. Það skiptir ekki máli hvernig við erum klæddar, hvað við segjum eða við hvern við tölum. Við megum segja það sem við viljum, við megum klæða okkur eins og við viljum, það gefur engum leyfi til að nauðga okkur.

Druslugangan var síðastliðna helgi, þar stóðu konur, menn og börn saman og sögðu að þetta væri ekki liðið. Fjölmiðlar bera ábyrgð. Þeir bera þá ábyrgð að segja frá. Við erum búnar að segja að við viljum ekki þögn, við ætlum ekki að bera skömmina. Við ætlum að skila henni þangað sem hún á heima, hjá gerandanum.

Á hvað treysta kynferðisafbrotamenn? Jú þeir treysta á þögnina. Þeir treysta á að samfélagið þaggi málin niður. Þeir treysta á að fórnarlömbum sé ekki trúað, þeir treysta á að þær segi ekki frá í ótta um að verða ekki trúað eða að þær verði útskúfaðar úr samfélaginu. Það sem gerðist þegar #þöggun og #konurtala byrjaði var að fleiri og fleiri konur sáu hversu margar höfðu lent í samskonar ofbeldi. Þær upplifðu stuðningin frá samfélaginu þegar þær stóðu upp og sögðu frá ofbeldinu. Fleiri þúsund manns skiptu um prófíl mynd á facebook og það var hreint út sagt ótrúlegt að upplifa samstöðuna frá fólki. Þetta veitir stuðning, það veitir þolendum stuðning að sjá að aðrir hafi upplifað samskonar ofbeldi og að samfélagið mótmæli þessum brotum. Við erum komin með nóg. Við samþykkjum ekki þetta samfélagsmein sem kynferðisofbeldi er. Að tala opinskátt um það og segja frá er stærsti liðurinn í því að uppræta þetta ofbeldi. Að þagga það niður mun hafa þær afleiðingar að það mun blómstra.

Ég vona að fjölmiðlar Íslands standi saman um það að pressa á lögregluyfirvöld í Vestmannaeyjum að segja satt og rétt frá því sem gerist á hátíðina. Það er ekki í lagi að þagga niður kynferðisafbrot. Það hefur aldrei verið í lagi að gera það. Ég vona að lögreglustjóri sjái að sér í þessum þöggunartilburðum sínum og sjái hag þolenda fyrir brjósti. Við eigum að standa saman og með #þöggun og #konurtala hafa konur Íslands sýnt samstöðu í því að brjóta niður þessa hefð sem það er að þagga niður kynferðisafbrot. Við berum ekki harm okkar í hljóði heldur segjum við frá.

Að verða fyrir kynferðisafbroti er hræðilega erfitt EN það er erfiðara að bera skömmina og þögnina sem kemur í kjölfarið.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *