Allt eða ekkert – svart eða hvítt

„I‘m starting to think I will never know better“

Ég var ofvirkur krakki, ég var líka mjög hvatvísur krakki. Ég ólst upp í það að vera ofvirkur fullorðinn og hvatvís fullorðinn. ADHD hverfur ekki, það breytist örlítið með aldrinum en hvatvísin, kvíðinn, depurðin og eirðarleysið er eitthvað sem er órjúfanlegur hluti af mínu ADHD. Hef verið svona svo lengi sem ég man eftir mér. Ég á það líka til að vera óhemju kærulaus, sem einstaka sinnum getur verið góður eiginleiki en oftar en ekki á það til að koma mér í vandræði.

Eirðarleysi og að leiðast er eitthvað sem ég þarf að takast á við daglega, mér leiðist hrikalega auðveldlega og á það til að gera alls konar gloríur þegar ég er eirðarlaus því mér þykir lífið of tilbreytingalaust og hálfleiðinlegt. Ég sæki í alls konar spennu og á mjög erfitt með að una við rólegheit og rútínu. Þó það sé að sjálfsögðu það besta sem ég gæti gert fyrir sjálfa mig. Þá komum við að spakmælinu sem ég skrifaði efst.

Þegar rútínan og rólegheitin eru að drepa mig þá á ég það til að gera eitthvað sem hleypir smá fútti í lífið, hvort sem það er hreinlega að byrja að rífast við einhvern eða bara fara út að skemmta mér. Þá kemur þetta spakmæli í hausinn á mér daginn eftir og ég hugsa með mér að kannski sé þetta eitthvað sem ég mun aldrei fullorðnast upp í. Ég hélt alltaf fyrst að þetta kæmi að sjálfu sér. Eitthvað sem maður myndi læra þegar maður yrði eldri, svona eins og maður verður vissulega ábyrgðarfyllri eftir því sem árin líða. En að stjórna eirðarleysinu hefur einhvern veginn farið ofan garðs og neðan.

Það versta við að leiðast auðveldlega er hversu auðveldlega ég get líka hreinlega dottið út úr samtölum sem mér finnast óáhugaverð, jafnvel þótt samtölin séu ekkert sérstaklega óáhugaverð þannig þá er ég kannski bara illa fókuseruð þann daginn. Þá er ég kannski að tala við manneskjuna, hún stendur þarna beint fyrir framan mig og ég er að horfa á hana. En ég er ekki að hugsa um það sem hún er að segja. Nei ég er að hugsa um lagið sem ég heyrði áðan, eða kannski hvaða mat ég ætti að elda í kvöldmatinn, hvort ég hafi munað eftir því að setja þvottavélina af stað eða að velta fyrir mér hvort þvotturinn hafi legið í vélinni í einn dag eða tvo.

Ég hef oft heyrt að þetta sé bara skortur á sjálfstjórn og dónaskapur en eins mikið og ég hef reynt að einbeita mér gegnum óáhugaverðar samræður þá breytist það ekkert. Áður en ég veit af er hugurinn kominn á flug og ég er farin út í geim. Ég á nefnilega líka mjög auðvelt með að láta mig dagdreyma, það er ekkert vandamál. Ég get setið heilu og hálfu dagana og hugsað, svo lengi sem ég hef tónlist þá er ég góð. Að liggja upp í sófa með góða tónlist, tölvuna í fanginu og skrifa bara um lífið og tilveruna er eitthvað sem ég eyði dágóðum tíma í að gera líka. Ef ég er ekki að hugsa það, þá er ég að skrifa það, eða að hugsa um að skrifa það.

Að hafa ADHD er samt allt annað en auðvelt, þetta hefur hreinlega áhrif á allt í mínu lífi. Ég hef engan milliveg, annað hvort er það allt eða ekkert. Annað hvort líkar mér við einhvern eða ég þoli viðkomandi ekki. Annað hvort hef ég áhuga eða ekki.

„Utterly obbessed/uninterested.“

Það lýsir þessu ágætlega, annað hvort hef ég gríðarlega mikinn áhuga á því sem ég geri eða engan. Ég elska að lesa, meðan ég get varla komist í gegnum heila bíómynd. Hún þarf að vera gríðarlega áhugaverð til að ég sé ekki að fikta í símanum mínum á meðan henni stendur eða taka mér pásur á korters fresti til að reyna að koma mér í gegnum alla myndina. Einu sinni tók það mig fjóra daga að komast í gegnum 90 mínútna bíómynd. Hún var ekki leiðinleg, þetta var gamanmynd sem ég gat vel hlegið að. En ég hreinlega gat ekki setið gegnum hana alla í einu. Ég byrjaði alltaf og svo bara gat ég ekki meira. Ég sónaði bara út í eitthvað allt annað og fékk hausverk. En ef ég dett inn í bók þá er eins gott að ég hafi engin plön allan daginn né daginn eftir, því hana legg ég ekki frá mér fyrr en hún er búin.

„Reading gives us a place to go when we have to stay where we are.“

Svo satt. Ég elska að lesa, þvílík dásemd að geta horfið í heim bóka þar sem veröldin er allt önnur en hér. Þar sem allt getur skeð og þú kynnist karakterum sem eru áhugaverðari en allt lífið þitt til samans. Góð bók er gulli betri. Versta er að hjá mörgum einstaklingum með ADHD þá er ómögulegt að einbeita sér ef eitthvað er að. Það er þessi þráhyggja. Þessi leitun eftir stöðugri örvun og kvíðinn sem kemur í kjölfarið ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þrátt fyrir að hvatvísin og eirðarleysið spili yfirleitt stóran hlut í að koma öllu úr jafnvægi. Þetta getur verið ótrúlegt sjálfskaparvíti. Þér leiðist svo þú gerir eitthvað til að fá líf í hlutina, það endar á einhvern veg svo þú verður kvíðinn í kjölfarið og getur ekki einbeitt þér að neinu öðru. Hugarheimur manneskju með ADHD er hreinlega ekki eins og hugarheimur manneskju án ADHD. En fáfræðin um ADHD er einnig mikil líka. Það virðast allir halda að þetta snúist bara um að vera gleymin eða utan við sig. Það eru minnstu vandamálin mín, ég er vissulega mjög gleymin og get gleymt heilu samtölunum, læknistímum og jafnvel foreldrafundum ef ég passa mig ekki á því að láta símann minn minna mig á það daglega í nokkra daga og nokkrum sinnum sama daginn og fundurinn á sér stað. En þetta eru samt sem áður ekki stór vandamál miðað við hvernig ADHD hefur áhrif á daglegt líf og skipulag einstaklingsins sem er með það.

Það er ekki til alltof mikið af upplýsingum um fullorðna með ADHD. Það sem er vitað fyrir víst er hins vegar að einstaklingar með ADHD eru mun líklegri en aðrir til að lenda í fangelsi, missa ökuskírteinið sitt eða þróa með sér fíkn. Þetta er því dagleg barátta fyrir alla sem hafa ADHD. Þetta snýst sjaldan um það að vera utan við sig eða gleyma daglegum hlutum, heldur er svo miklu flóknara en það.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *