Eilífðarbaráttan og skömmin

Ég hef skrifað frekar opinskátt um mína reynslu, tilfinningar og innri baráttu. Ég hef meðvitað ákveðið að vera hreinskilin um erfiðleika mína í lífinu og þá sérstaklega þá tilfinningu að vera alltaf leitandi. Að finna mig ekki í heiminum. Það er líklegast það sem ég hef strögglað mest með gegnum tíðina. Vita ekki hvað ég vil, vita ekki hvert ég stefni og eiga erfitt með að finnast ég eiga heima einhvers staðar.

Þetta eru hlutir sem ég pæli mikið í, hugsa af hverju ég upplifi mig svona týnda. Eins hugsa ég að það hljóti að vera fleiri eins og ég. Ég get ekki verið ein svona leitandi í heiminum. Kannski er þetta hluti af því að vera manneskja? Að vera alltaf leitandi?

Ég met lífið mitt og almennt reyni ég að vera jákvæð. Ég þakka fyrir það sem ég hef og á, lít á björtu hliðarnar og veit að þrátt fyrir erfiðleika þá koma bjartari tímar. En mig langar til að upplifa mig einhvers staðar heima.

Fleira fólk en maður getur ímyndað sér strögglar í lífinu, finnst það erfitt og líður illa. Samt er alltaf jafn erfitt að stíga fram og segja; ég er ein af þeim. Inni í manni hvíslar rödd að maður eigi að vera hamingjusamari, gleyma fortíðinni, halda áfram og innst inni langar manni ekkert frekar en að geta slökkt á þessum parti heilans í manni sem rifjar stöðugt upp fortíðina, slökkva á martröðunum, losa sig við þessar sársaukafullu minningar eða læra að lifa í friði við þær. Geta sætt sig við það sem maður fær ekki breytt og halda áfram. Samviskubitið nagar mann fyrir að geta ekki haldið áfram og leyft sér að vera hamingjusamur, að vera ekki nógu góður, að vera með of miklar kröfur eða að upplifa sig ekki nógu gott foreldri því maður svífur ekki um á bleiku skýi alla daga. Að leyfa fortíðinni að ná tökum á sér, aftur, staðinn fyrir að halda raunverulega áfram.

Ég á mjög erfitt með að viðurkenna að geta ekki sagt skilið við fortíðina, því mig langar að vera nógu sterk til að halda áfram án hennar og ríf sjálfa mig niður fyrir að geta það ekki. Að geta ekki leyft sjálfri mér að líða vel, trúa því innilega að ég eigi gott skilið og fara eftir því sem lætur mér líða vel. Nú mögulega er ég að opinbera alltof mikið, þetta er víst ekki lokuð dagbók, þetta blogg. En kannski með að opinbera hugsanir mínar, þá erfiðleika sem ég ströggla við enn í dag þrátt fyrir mikla sjálfsvinnu þá sjá fleiri í sömu sporum að þeir eru ekki einir. Ég er að reyna að hætta að skammast mín.

Áfallastreituröskun er erfið kvíðaröskun. Hún heldur taugahaldi í mann árum saman, jafnvel áratugum saman. Dagarnir eru misjafnir. Góðir dagar koma þar sem maður sefur og líður ágætlega, síðan koma vondir dagar. Dagar þar sem maður er hræddur og á nálum allan daginn og veit ekki einu sinni almennilega af hverju, dagar sem líða eins og eilífð því enginn er svefninn heldur.

Ég átti að byrja í meðferð við minni áfallastreituröskun í byrjun nóvember. Þriðja skiptið sem ég reyni að losa mig undan þessu. Ég mætti ekki. Ég gat ekki byrjað. Ég gat ekki hugsað mér að setjast niður með ókunnugum aðila og segja frá í smáatriðum hvað gerðist. Ég skammast mín ennþá í dag. Ég veit að skömmin er ekki mín, það er ekki mitt að skammast mín, en ég skammast mín kannski ekki svo mikið fyrir atburðinn. Ég skammast mín meira fyrir viðbrögð mín við honum, hegðun mína eftir hann. Ég skammast mín fyrir drykkjuna á unglingsárum, sjálfsniðurrifið og hvernig ég leyfði öðrum að koma fram við mig því mér var sama. Enn í dag hef ég þá löngun að hafa verið heilbrigður unglingur, ekki vandræðastelpan sem fólk horfði hornauga. Stelpan sem svaf hjá alltof mörgum, stelpan sem var alltof ögrandi klædd og of drukkin, þetta ung. Stelpan sem byrjaði að reykja varla komin á unglingsár, stelpan sem var í sambandi með fullorðnum manni 14 ára gömul.

Fólk reyndi að hjálpa manni á þessum tíma, sjálfstortímingin var bara svo sterk að maður barðist um á hæl og hnakka gegn hverjum þeim sem rétti manni hjálparhönd. Ég ströggla enn í dag við að taka á móti góðmennsku í minn garð. Ég verð skeptísk, býr eitthvað undir? Að læra að treysta fólki upp á nýtt, að opna sig og segja öðrum frá hræðslum sínum er hrikalega erfitt. Maður ýtir fólki frá sér að fyrra bragði til að þurfa aldrei að takast á við það að fólk mögulega geti farið. Enn undir niðri kraumar löngun, löngun til að treysta fólki, löngun til að leyfa sér að vera hamingjusamur og að fyrirgefa sjálfum sér. Fyrirgefa sér fyrir að koma illa fram við sjálfan sig, því ég gat ekki annað á þeim tíma.

En meðan maður heldur áfram að vinna í sér þá kemur þetta á endanum. Mér langar til að geta opnað mig fyrir öðru fólki, hleypa fólki að mér og treysta að það vilji mér ekki illt. Það tekur tíma en þó maður taki það í hænuskrefum þá kemst maður á áfangastað fyrir rest. Mikilvægast er að taka skrefið.

„Tip toe if you must, but take the step.“

Join the Conversation

  1. Avatar
  2. Avatar

2 Comments

  1. Sterka litla vinkona ❤
    Margt hefurðu sagt mér og ég bíð spennt, þín vegna, eftir því að þú rífir þig lausa ❤????

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *