Ég sakna Íslands

„Þú verður komin tilbaka eftir ár.“

Þetta sagði nágranni minn við mig, daginn sem ég sagði honum að ég væri að flytja til Noregs. Nú af hverju heldurðu það? Spurði ég.

Því Noregur er ekkert betri. Fólk er með draumóra og áttar sig svo á því að þetta er ekkert betra en Ísland og kemur heim með skottið á milli lappanna.

Það er rétt. Noregur er ekkert betri með sína heilbrigðisþjónustu, skólakerfi, laun eða sól. Varð að minnast á sólina þar sem veðrið hefur líka vissulega sín áhrif á því af hverju ég kýs að vera hérna frekar en á Íslandi.

Það er alltaf jafn einkennilegt að búa í landi þar sem ég get leigt húsnæði í lengri tíma án þess að hafa áhyggjur, og þó ég yrði að finna mér nýja íbúð þá er það ekkert mál. Nóg af húsnæði i boði; og á viðráðanlegu verði. Niðurgreiddar tannréttingar sonar míns, ókeypis tannlækningar fyrir börnin mín og niðurgreidd tannlæknaþjónusta fyrir sjálfa mig vegna sjálfsofnæmissjúkdóm. Nei það er rétt, ég hefði það örugglega betra á Íslandi.

Ég sakna Íslands. Ég sakna þess ótrúlega að fá ekki heimilislækni og þurfa því að bíða tímunum saman á læknavaktinni ef börnin mín eða ég urðu veik. Ég sakna þess mjög að borga himinháa húsaleigu og missa húsnæðið því það varð selt ár hvert. Ég sakna þess líka að komast ekki til tannlæknis því ég hafði ekki efni á því.

Það var ótrúlega skemmtilegt að vinna fulla vinnu en samt ekki ná endum saman. Ég þarf þó ekki að sakna verðbólgunnar. Því ég fæ að njóta hennar til fulls vegna námslána, sem betur fer er ég þess heiðurs aðnjótandi að borga námslánin mín margfalt tilbaka og með útreikningum LÍN í dag verð ég búin að greiða þau niður þegar ég er 81 árs. Það er náttúrulega bara dásamlega skemmtilegt! Mikið betra en hérna í Noregi þar sem hluti námslánana breytist í styrk og þau hækka ekki ár hvert, Norðmenn gætu nú alveg tekið okkur Íslendinga til fyrirmyndar. Enda erum við best. Líka fallegust.

Ég heimsótti Ísland síðastliðinn Janúar og fékk deja vu. Ekkert hefur breyst. Þetta var eins og að ferðast 5 ár tilbaka. Ríkisstjórnin er ennþá rugluð, fjármálin eru ennþá hræðileg, fólk er húsnæðislaust eða þeir sem eru nógu heppnnir geta búið með foreldrum/ættingjum; hinir þurfa að éta það sem úti frýs, heilbrigðiskerfið gefur mér hroll og veðrið er hræðilegt (varð að hafa veðrið með aftur, við urðum nefnilega veðurteppt í Hveragerði í 5 tíma).

Nei minn kæri nágranni, ég kem ekki aftur „heim“ og kom ekki heldur heim eftir ár.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *