Mundu að það er bara að anda

Ljóðin hennar Cleo Wade, hafið þið lesið þau? Þau eru mjög falleg. Mæli líka með að hlusta á þetta lag við lesturinn;

Birdy – People help the people

Eitt ljóðið fjallar um að flest okkar vilja bara fá að vera við sjálf í friði, svolítið eins og börn. Við viljum öll fá viðurkenningu að það sé í lagi að vera við. Ekkert okkar er eins, en flest okkar hlaupa um í hópum að leitast eftir viðurkenningu annarra, er ég kúl? Viltu vera vinur minn? En kærasti? Lífsförunautur?

„Most people in life are just looking for a safe place to be them self“.

En er ekki nóg að finnast maður sjálfur vera kúl? Ef ég er mjög ánægð með sjálfa mig, dugar það? Kannski ekki ef athyglin sem maður fær segir manni annað. Ef mótbyrin í lífinu verður of mikill, hættirðu þá að trúa að þú sért nóg eins og þú ert?

Nærðu lengra ef þú hefur einhvern sem spyrnir við fótum og ýtir þér áfram þegar þú færð mótbyr? Ég held það. Manstu að vera þakklát fyrir fólkið í kringum þig? Manstu eftir að anda inn og leyfa fólkinu í kringum þig að vera eins og það er?

Við erum öll gjörn á að reyna að breyta öðrum. Við komum með stanslausar athugasemdir. Fyrir þann sem er með frávik þá geta þessar athugasemdir orðið of margar. Barnið með ADHD sem fær stöðugar athugasemdir í skólanum/heima, ekki endilega alvarlegar, en áminningu að sitja kyrr, vanda sig betur við skrift, stærðfræði, ekki flýta sér of mikið, tala hægar, labba ekki skokka, tala lægra.

Maðurinn með þunglyndi eða kvíða. Vinir og ættingjar koma með ráðleggingar, spyrja hvort hann geti bara ekki farið á fætur, mætt í skóla/vinnu, þetta er ekkert svona erfitt. Hvað um að brosa aðeins meira, eða bara vera jákvæður, auðvitað líður þér illa ef þú ert neikvæður.

Konan sem er alkóhólisti. Eiginmaðurinn sem segir henni bara að hætta að drekka, eða vinkonan sem spyr hvort hún geti ekki bara fengið sér einn bjór. Einn bjór er ekkert hættulegur, svo er bara að stoppa þar. Hvernig er hægt að drekka frá sér fjölskyldu, nei það gætir þú aldrei.

Dómharkan er alls staðar og það er þessi dómharka sem er okkur verst. Það er þegar hún kemur frá okkar nánustu, þar sem við héldum að við ættum okkar griðarstað; stað til að vera við sjálf. Að við höfum rými til að vera við sjálf án þess að vera dæmd, án þess að þurfa að setja upp leikrit. Að eiga sinn griðarstað, þar sem þú getur sest niður og bara andað aðeins. Það er mikilvægara en fólk gerir sér almennt fyrir, það er kannski ekki jafn mikilvægt fyrir alla. En fyrir sum okkar sem munum allt lífið dansa jafnvægisdans með tilfinningar okkar þá er þetta það mikilvægasta sem er til.

Flest höfum við lent í því að það gerist eitthvað, þar sem þú næstum missir andann og eina sem þú getur gert er að blikka augunum og sjá veröldina þína hrynja fyrir augum þér meðan þú getur ekkert gert til að breyta því. Augnablikið þar sem þú misstir andann. En til að auðvelda manni að ná andanum aftur er gott að hafa eina manneskju sér við hlið sem minnir þig á að anda, þú mátt fara í gegnum allar þessar tilfinningar og þú mátt taka þér þinn tíma. Svo er bara að standa upp aftur.

Stundum er líka gott að minna sig á að ef manneskjan væri öðruvísi þá myndi það ekki breyta neinu, þér liði ekkert betur. Þú hefur bara vald yfir sjálfum þér til að breyta hlutum í kringum þig og þín hamingja er einungis í þínum höndum.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *