Að skipuleggja fimm manna fjölskyldu

Skipulag, skipulag, skipulag…

Hefur einhver hérna reynt að skipuleggja fimm manna fjölskyldu? Þið sem hafið prufað það vitið líklegast að það er næstum ómögulegt. Hvert einasta barn æfir íþróttir, stundar skóla og þarf þar að auki að sinna félagslífi, það eru líka milljón afmæli á mánuði sem eitthvert þeirra þarf að mæta í.

Ef þið eruð að bíða eftir lifehacki þá myndi ég bara loka þessu núna, ég hef enga töfralausn og þar að auki vil ég enga lausn á því hvernig ÉG á að fara að gera meira ein inná heimilinu, ég er hins vegar mjög hrifin af því að útdeila heimilisverkum milli fjölskyldumeðlima. Þá bæði lítur út fyrir að ég geri meira, meðan ég geri minna.

Ég held einhvern veginn að það að vera barn í dag er miklu erfiðara en að vera barn fyrir 20 árum. Börnin mín eru líka miklu tæknivæddari en ég. Því þegar ég leit yfir heimanámsplan yngsta barnsins (sem er í 4. bekk) þá var heimanámið hans fyrir þriðjudag að taka mynd með ipadinum (sem skólinn útvegar) af því sem hann finnur á morgunverðarborðinu og búa til bók í ensku, skrifa svo enskar setningar við hverja mynd og útskýra hvað væri á myndinni og hvað hann myndi gera við það.

Ég lærði nú ekki einu sinni í ensku í 4. bekk. Netið var ekki komið ennþá og hvað þá iPad. Svo það að fylgjast með börnunum mínum í dag, þar sem 4. bekkingurinn er með iPad frá skólanum, 5. bekkingurinn er með chromebook og 10. bekkingurinn líka, þá verð ég alltaf frekar hissa hvað það virðist vera erfitt að læra á þvottavélina. Þau geta búið til bækur í iPad, búið til sína eigin teiknimyndasögu líka, lært á píanó gegnum app og talað þrjú tungumál. En að læra 5 stillingar á þvottavél vefst fyrir þeim. Þeim til afsökunar þá tók það mig líka nokkur ár að muna að þvo ekki hvítan þvott með dökkum.

Ég tel mig ágætlega tæknivædda og ég er ekkert sérstaklega gömul en að fylgjast með börnunum mínum þá líður mér stundum eins og risaeðlu.

En að skipulagi. Ég elska lista, innkaupalista, verkefnalista, gólflista (já kannski ekki gólflista). En til að halda skipulagi á fimm manna fjölskyldu og tala nú ekki um að halda heimilinu hreinu, þá eru listar bestu vinir mínir. Með smábörn þá er maður alltaf með tuskuna á lofti en samt sem áður var yfirleitt allt í drasli (þið sem eigið smábörn og heimilið er hreint, þið hljótið að þrífa allt á nóttunni). En þegar börnin verða eldri þá, geðheilsunni sé lof, verður þetta einfaldara. Við ákváðum að gefa hverju barni nokkur heimilisverk sem þau verða að gera vikulega og í staðinn fá þau vikupening. Ég íhugaði þetta mikið á sínum tíma hvort þau ættu að fá vikupening fyrir að taka þátt í heimilisverkum því almennt séð var ég á móti því. En við flest höfum okkar drifkraft annað hvort af einskærum áhuga eða svo hvort við fáum borgað fyrir það. Staðreyndin er því miður sú að fæst okkar myndu mæta 8 tíma í vinnuna frítt. Svo niðurstaðan varð, listi með heimilisverkum og heimavinnu á móti vikupening.

Þetta gerði lífið mitt einfaldara. Þau í 4. og 5. bekk hafa mjög svipaðan lista. Þau fá 100 kr norskar í vikupening, ef þau sleppa einhverju á listanum sínum þá missa þau 10 krónur. Þau hafa heimanám 4 daga vikunnar svo ef þau gera ekki heimanámið sitt alla vikuna þá missa þau 40 krónur.

  • Pakka úr töskunni og setja fötin inní fataskáp (þau búa viku/viku hjá okkur og svo pabba sínum.
  • Vera búin með heimanám dagsins fyrir klukkan 16:00 (ef þau eru strand þá geta þau hoppað yfir dæmið og við hjálpum þeim svo þegar við komum heim)
  • Leggja á borð tvisvar í viku (þau eiga sína föstu daga).
  • Taka úr uppþvottavélinni einu sinni í viku.
  • Taka til í herberginu sínu á sunnudögum, ryksuga og þurrka af og taka af rúmunum sínum, þau fá hjálp að setja utanum sænginni sína.
  • Þrífa litla baðherbergið saman (það er gestabað, lítið með klósetti og vaski).
  • Þriðjudagar og fimmtudagar eru tölvu- og símalausir dagar.

Þetta gerir það samt að verkum að þessu er fylgt. Herbergið er alltaf hreint á sunnudögum, þau leggja á borð tvisvar í viku, sem gerir það líka að verkum að maður nær að spjalla aðeins við þau ein meðan maður eldar kvöldmat. Það er ekki alltaf jafn auðvelt að ná að eiga hversdagsleg samtöl við börnin sín, allir eru einhvern veginn svo uppteknir við sitt að það gleymist inná milli og það er gott að fá aðstoð í eldhúsinu líka. Tölvu- og símalausir dagar eru líklegast mínir uppáhalds dagar, og þeir dagar sem ég sé krakkana leika sér með eitthvað af dótinu sínu og vera duglegri að fara út og hitta vini sína. Á þessum dögum takmörkum við líka tölvu/símanotkun okkar þegar börnin eru heima svo við getum frekar notið tímann í að gera eitthvað saman. Best að taka það fram að unglingurinn er sérfyrirbæri sem þetta á ekkert við.

Næsta ekki lifehack Freyju verður líklegast hvernig þú getur raðað í eldhússkápana svo allir heimilismeðlimir geti tekið úr uppþvottavélinni meðan þú slappar af.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *