Farðu bara í göngutúr

Hér í Noregi er vitundarvakning fyrir sjálfsmorðum og sjálfsmorðshættu ungs fólks. Fjórfalt fleiri falla fyrir eigin hendi en í bílslysum, en við heyrum miklu minna um það. Fólk talar um að það gangi á vegg þegar það leitar sér hjálpar, og það er ekki að ástæðulausu. Fyrir veika manneskju sem hefur varla orku til að standa upp úr rúminu á morgnanna þá er að það nálægt ógerningur að berjast fyrir því að fá hjálp. Einnig glíma flestir við sektarkennd og skömm. Fólk á kannski börn, fjölskyldu og vini en það hjálpar ekki ef þú ert andlega veikur. Þetta er ekki spurning um að fara bara á fætur og fara í göngutúr eins og svo margir læknar hafa ráðlagt.

Ég skammaðist mín, og hafði svo mikla sektarkennd að það var vont. Ég skildi ekki af hverju mér leið svona, og enn þann dag í dag þá tala ég lítið um þetta, að skrifa um þetta er allt annar handleggur. Ég var ein af þeim heppnu. Barðist við þunglyndi, kvíða og ptsd í fleiri ár. Martraðir, sektarkennd og óraunhæfur kvíði fyrir öllum sköpuðum hlut. Að reyna að útskýra þetta fyrir manneskju sem hefur enga reynslu af þessu svartnætti sem liggur yfir öllu er ómögulegt. Svo oft fékk ég ráð um að fara bara í göngutúr, eða að reyna bara að vera aðeins bjartsýn og glöð, þetta er ekkert svona slæmt, ha?

Vitundarvakning fyrir geðsýki og geðsjúkdómum er þörf. Á Íslandi falla að meðaltali 30 manns á ári hverju fyrir eigin hendi. Helmingur ungmenna hefur hugsað um að enda eigið líf. Hvernig getur staðið á því að við höfum þessar tölur en ekkert breytist?

Að vera þunglyndur í sjálfvígshugleiðingum er í raun og veru rosaleg hugsunavilla en það er ómögulegt fyrir þann sem veikur er að sjá það. Sá einstaklingur getur ekki séð þetta eins. Ég trúði því raunverulega að það yrði léttir fyrir alla að ég myndi deyja. Það hlyti að létta á fjölskyldu minni. Þetta var ekki einu sinni neitt vafamál fyrir mér, svona var þetta bara. Fyrir mér var þetta ekki bara hversu illa mér leið heldur var ég svo viss um að ég, persónulega, myndi valda öllum mínum nánustu gríðarlegu erfiðleikum og vera þeim byrði með því að vera lifandi. Þetta er gríðarlega sársaukafull tilfinning að bera. Eins röng og hún er þá var þetta samt mín tilfinning. Röng en raunveruleg.

Ég gat skrifað mig að hluta til út úr mínum veikindum, ég hélt úti dagbók sem ég skrifaði reglulega í. Svo stofnaði ég blogg, en það gerði ég ekki meðan ég var sem veikust. Svo ákvað ég að vera hreinskilin og skrifa bæði um mína líðan og um gamla líðan. Segja frá hvernig þetta er. Segja frá hvernig það var að lifa með ptsd. Stundum sá ég eftir því, hugsaði að fólk myndi dæma mig en í dag hugsa ég að fleiri græði á því að ég skrifi. Bæði að ég geti sagt frá að mér leið svona, en mér líður ekki svona lengur. Það er nefnilega mögulegt að fá hjálp, það er mögulegt að ná bata.

Ég þekki mig þó það vel að ég veit ég dansa alltaf á viðkvæmri jafnvægislínu. Ég er ekki jafn sterk og annað fólk sem aldrei hefur glímt við andleg veikindi og ég á auðveldara með að missa mitt jafnvægi. Aðalatriðið er þó bara að standa upp aftur, það er ekkert að því að hrasa öðru hvoru.

Í síðustu samtalsmeðferð minni þá var okkur tíðrætt um það hvernig ég afneitaði tilfinningunum, ég leyfði mér ekki að finna þær. Ég leyfði mér næstum aldrei að gráta því ég ætlaði að vera sterk. Það að vera sterkur er samt ekkert skylt því að vera stundum dapur. Einnig var ég hrædd við að verða döpur því þá varð ég kvíðin, var ég að verða veik aftur? Með mikilli aðstoð og breyttum hugsunarhætti þá lærði ég það líka að það er allt í lagi að eiga slæma daga, að vera stundum dapur eða gráta. Það þarf ekki að þýða neitt, að öllum líkindum þá vaknarðu daginn eftir og þér líður betur. Það var mjög erfitt að vera heilbrigður líka. Þegar þú ert búin að vera veikur svo lengi þá þekkirðu ekki neitt annað. Eðlilegar tilfinningar eru í raun og veru ekki mjög eðlilegar fyrir þér, svo þú kannt heldur ekki að bregðast við þeim. Það sagði mér það enginn áður en ég varð heilbrigð, að ég þurfti að læra það upp á nýtt líka. Svo síðasta samtalsmeðferðin gekk líka út á það að læra að tækla og takast á við eðlilegar tilfinningar, hvað eru eðlileg viðbrögð við erfiðum aðstæðum.

En það eru ekki allir svona heppnir en ég trúi því að með opinni umræðu og auknum skilning þá muni fleiri verða heppnir. Því þetta er í raun og veru heppni. Þú veist ekki fyrirfram hvort þú komist lifandi út úr andlegum veikindum og geðsjúkdómar fara ekki í manngreiningarálit heldur. Því mun ég aldrei hætta að tala opinskátt og heldur ekki dæma þann sem er veikur. Þú getur ekki skilið hans hugsun því hugsunin er ekki venjuleg. Það er ekki hægt að rökræða þetta. Þú getur ekki sagt veikri manneskju að ná bata núna því það hentar þér, þá skiptir engu hvort veikindin eru krabbamein, kvíði, þunglyndi eða flensa.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *