Máttur bókarinnar

Ég hlakka alltaf mest til jólanna þar sem ég veit að þá get ég átt ótrúlegar góðar stundir með bók í hönd. Eða réttara sagt, með kindil í hönd. Mikilvægustu eign mína.

Ég þarf ekki á neinu að halda ef ég hef góða bók, ég tala ekki í símann, ég kíki ekki á netið og ég hef ekki opnað tölvuna mína síðan 22. desember, svona til að gera þetta einfalt, ég verð örugglega svakalega leiðinleg manneskja sem talar ekki við neinn. Reyndar hef ég netið í símanum mínum en það hefur ekki verið notað sérstaklega mikið, aðallega til að deila einstaka jólamyndum.

En síðan 22. desember hef ég verið að lesa Divergent bækurnar, réttara sagt byrjaði ég á fyrstu bókinni -Divergent, las svo bók númer tvö -Insurgent og að lokum bók númer þrjú -Allegiant. Ég sá nefnilega myndina, Divergent, í nóvember og hugsaði með mér að þetta gæti ekki bara verið mynd, hún minnti mig á Hunger Games, þetta eru keimlíkar sögur að mörgu leyti en samt ekki alveg. Svo ég ákvað að leita að myndinni og upplýsingum og sá að ég hafði rétt fyrir mér! Þetta voru að sjálfsögðu bækur, svo ég náði í þær á kindilinn minn og beið spennt eftir jólafríi.

Nú hef ég gleypt þessar bækur í mig bókstaflega, lesið þær allar þrjár á fjórum dögum en sit eftir frekar vonsvikin. Þegar ég las Hunger Games bækurnar þá var það eins, ég las þær allar í einu en ég varð þó ekki vonsvikin með endinn, hann var kannski örlítið fyrirsjáanlegur en þessi, ég get ekki útskýrt það, viss tómleiki varð til við endann á bókinni. En þær eru góðar.

Næstu bækur sem ég ætla að byrja á er Maze Runner, alveg eins og Divergent er þetta mynd sem ég sá í nóvember, hugsaði það sama og fann út það nákvæmlega sama. Sumar myndir eru þess háttar að þú situr eftir og sérð að þetta getur ekki bara verið mynd, þetta hlýtur að vera bók. Bækur eru, og munu alltaf vera, betri.

Að lesa góða bók er ótrúlegt, fyrir einhvern sem ekki hefur gaman af bókalestri hljómar þetta líklegast einkennilega, en bækur geta búið til heim, svo lifandi að þú getur næstum snert hann. Þú veist öll smáatriði, ekkert er ósvarað og karakterinn verður lifandi fyrir sjónum þér eins og manneskja.

En þar sem ég hef nýlokið lestrinum á þessum bókum er ekki seinna vænna en að byrja á þeim næstu, eftir allt, þá hef ég ekki endalaust jólafrí og eins gott að nýta það vel!

-Freyja

Jólagleði trúleysingjans

Ég er búin að vera svo hugsi yfir allri þessari ljótu umræðu sem hefur átt sér stað á netmiðlum undanfarið. Ég elska jólin, mér finnst þetta alveg stórkostlegur tími. Tími barnanna minna, tíminn þar sem þau telja niður dagana allan desember fram að aðfangadag, þar sem þau búa sér til jólagjafalista og svo skreytum við saman, bökum piparkökur, byggjum piparkökuhús og allt er skreytt í öllum regnbogans litum. Þetta er svo stórkostlega skemmtilegur fjölskyldutími sem ég nýt til ystu æsar með börnunum mínum.

Eitt skyggði þó á gleði mína og byrjaði ég að vera reið, þangað til kunningi minn henti mér niður á jörðina aftur og minnti mig á jákvæðnina. En það er þessi leiðinlega umræða sem hefur átt sér stað á netmiðlum. Börnin mín fara í kirkju með skólanum, ég er ekki hrifin     -þau vita ekki af því- en aldrei myndi ég viljandi láta skilja börnin mín ein eftir. En það er líka vegna þess að ég er trúlaus, trú skiptir ekki máli í mínu lífi, hún er ekki partur af því og því líkar mér heldur ekki að það sé verið að boða trú í skóla barnanna minna en ég get hummað það af mér. Hins vegar er til fullt af fólki með aðra trú en kristni þar sem trúin spilar stóra rullu í þeirra lífi, vegna þess fara börnin þeirra ekki í kirkju. Börnin tilheyra minnihlutahópum og eru jaðarsett í skólanum.

Þetta eitt og sér eyðileggur næstum jólagleðina hjá mér. Ég á virkilega bágt með að vita af því að börn eru pikkuð út eftir trú í opinberum skólum og flokkuð þar niður, sum, yfirleitt örfá, eru svo skilin eftir í skólanum meðan aðrir fara í kirku. Þetta er sárt og þetta er ljótt.

Jólin eiga að vera tími barnanna, þetta á að vera tími fjölskyldunnar og þetta á að vera tími náungakærleiks. Hvort sem við erum bleik, hvít, brún, gul, rauð eða fjólublá, eða trúlaus, kristin, múslimar, búddha trúar eða alls konar trúar, það skiptir ekki máli. Við erum öll manneskjur af holdi og blóði, öll berum við tilfinningar og allt eru þetta börn sem ganga í leik- og grunnskólana okkar. Börn eiga aldrei -undir nokkrum kringumstæðum- skilið að vera mismunað.

Foreldrar eiga að sjá um trúarinnrætingu hjá sínum börnum, af hverju ekki að virkja foreldrastarf innan kirkjunnar? Skipuleggja huggulegar aðventustundir hvern sunnudag fram að jólum fyrir börn og foreldra? Möguleikarnir eru endalausir ef einungis viljinn er fyrir hendi.

En ég ætla allavega að njóta jólanna, í faðmi fjölskyldunnar og þakka fyrir hvað ég hef verið heppin í mínu lífi, með stórkostleg börn, góða fjölskyldu, fallegt heimili og gott líf. Það eru sönn forréttindi að búa við það.

Þið hin, njótið jólanna á ykkar hátt, með ykkar hefðum og hafið það gott.

-Freyja

Týnda sálin og eilífðarstúdentinn

Einhvern tíma sagði maðurinn minn við mig að ég væri fullkomið dæmi um manneskju með ADHD í háskóla, flakkandi á milli brauta í hvert einasta skipti viss um að þarna væri námið komið! Draumurinn að rætast og ég var handviss… –þetta- vildi ég læra!

Verst að þetta var meðal annars tæknifræði þar sem ég kláraði vor- og sumarönn, rafmagnsverkfræði þar sem ég kláraði haustönn, félagsfræði þar sem ég kláraði vorönn og svo að lokum lýðheilsufræði þar sem ég hef lokið hálfri BA gráðu.

Síðan fyllist ég námsleiða, þetta er ekki það sem ég vil læra, ég vil læra næsta þetta. Maðurinn minn kinkar eins skilningsríkt kolli og hann mögulega getur þegar næsta þetta kemur upp og vonar að það sé síðasta þetta sem ég tek mér fyrir hendur.

Hálfnuð í mínu námi ákveð ég að þetta er ekki það sem ég vil læra og fann mér næsta þetta. Hef samband við háskólann og sæki um, þetta er það sem ég vil gera. Þetta er draumurinn.

Fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri í fjarnámi varð fyrir valinu og bíð ég spennt eftir því að hefja nám, vonandi að þetta sé minn raunverulegi draumur.

Ef ekki, þá get ég kannski sameinað þetta í endann í eina Bachelor in Bullshit gráðu, með áherslu á næstum allar deildir háskólans.

-Freyja

Jafnréttið byrjar í leikskólanum

Nú hef ég áður skrifað um hinn stórkostlega grunnskóla sem eldri börnin mín tvö ganga í og taldi ég því tímabært að skrifa um hinn dásamlega leikskóla sem örverpið er á.

Leikskólinn heitir Hokus Pokus og er stúdentaleikskóli rekinn af Studentsamskipnaden i Agder (SIA) og er leikskólinn svokallaður jafnréttisleikskóli. Það er næstum jafnt kynjahlutfall af starfsmönnum (40% starfsmanna karlmenn) og á deild sonar míns (elstu deild leikskólans) er deildarstjórinn karlmaður, svo eru þrír leikskólastarfsmenn, allt menntaðir leikskólakennarar, ein kona og tveir karlmenn. Svo á deild örverpisins starfa fleiri karlmenn en konur. Mikið er lagt upp úr jafnrétti á leikskólanum og það er tíðrætt.

Hverri viku er tileinkað þema, það hefur verið brunavarnaþema þar sem þau fræddust um eldvarnir, slökkviliðsstarfsmenn, viðbrögð í eldsvoða og að lokum heimsótt slökkvistöðinn sjálf. En í síðustu viku var jafnrétti þema vikunnar.

Í jafnréttisvikunni var rætt um jafnrétti, hvort það sé munur á því hvernig stelpur og strákar leika, hvort strákar megi leika með dúkkur og stelpur með kaptein sabeltann og svo framvegis. Varla að ég þurfi að taka það fram en geri það til öryggis. Áherslan er að sjálfsögðu sú allir geta leikið með hvaða leikföng sem er og að leikföng eru fyrir alla óháð kyni, sem og er rætt um liti og föt.

Fimmtudagur er svokallaður innidagur, þar sem til ca. 14 á daginn er leikið inni, meðal annars sett upp brúðuleikhús, búin til listaverk og þess háttar. Í jafnréttisvikunni var sett upp SPA stofa, þar sem börnin fengu að nudda hvort annað, svo var slökunarstöð þar sem þau fengu gúrku á augun og allir fóru í slökun í vissan tíma og einnig var í boði að fá naglalakk og „manicure“ og þar lagt áherslan á að strákar jafnt sem stelpur hafa gaman af þess konar dekri og að gera sig fína með naglalökkum, það er ekki einbundið við stelpur og mætti örverpið heim með silfurlitað naglalakk á annarri hendi og rautt á hinni. Hæstánægður með daginn.

En málið er að þetta er hárrétt. Jafnréttið á að byrja á leikskólanum. Það er erfitt að segja börnum frá því að kynin eru jöfn þegar einungis konur starfa á leikskólanum, en ekki bara á leikskólanum heldur einnig í grunnskólum, þar vantar stráka fyrirmynd, því samkvæmt Félagi Grunnskólakennara í janúar 2013 voru meðlimir þar 80% konur og 20% karlmenn.

Jafnréttiskennsla verður að hefjast snemma til að bera góðan árangur. Það er erfiðara að ætla að byrja þegar samfélagið hefur þegar mótað einstaklinginn í 14-15 ár og samfélagið er mjög kynjaskipt, það er ekki jafnrétti þar og við ölumst upp við það, á endanum teljum við það norm nema við byrjum strax að tala gegn því. Það þarf að velta þessu upp strax svo allir séu meðvitaðir, það þarf líka að gera stráka meðvitaða um það að það sé allt í lagi líða illa og gráta, það á ekki að harka allt af sér. Þetta hefur nefnilega meiri líkamlegar afleiðingar fyrir karlmenn heldur en kvenmenn. Karlmenn lifa skemur, þeir leita síður til læknis og sjálfsmorðstíðni karla er mun hærra heldur en kvenna.

Jafnrétti snertir okkur öll og gerir heiminn betri, það skiptir ekki máli hvort um sé að ræða konur eða karla.

-Freyja-

Góðu ofbeldismennirnir og lögreglustjórinn

Í mars 2012 birtist einkar óviðeigandi viðtal við Sigríði Björk núverandi lögreglustjóra Höfuðborgarssvæðisins og þáverandi lögreglustjóra Suðurnesja. Í fullum skrúða birtist Sigríður Björk á forsíðu tímaritsins Nýtt Líf þar sem hún efaðist um orð Guðrúnar Ebbu varðandi meinta misnotkun föður hennar, þáverandi Biskup Ísland, Ólaf Skúlason.

Sigríður Björk er gift bróður Guðrúnar Ebbu, sr. Skúla Ólafssyni og er Guðrún Ebba því mágkona Sigríðar. Þar sem málið var opinbert á sínum tíma þá birtust bæði systkinin og sögðu sögu sína, þó það sé örlítið einkennilegt að bróðir hennar segi sína sögu af meintu kynferðisofbeldi systur sinnar þar sem það fór nú ekki beint fram á opnum torgum, ekkert frekar en kynferðisofbeldi gerist almennt.

En ekki þótti þeim hjónum nóg um að hann birtist einn í Kastljósi að rengja sögu systur sinnar því stuttu síðar birtist Sigríður í forsíðuviðtali Nýs lífs. Af hverju rifja ég þetta upp núna? Ég sá þessa umfjöllun einungis nýlega og það sem vakti athygli mína fyrst og fremst, er að sífellt hefur verið talað um baráttu Sigríðar í heimilisofbeldi og kynferðisbrotamálum varðandi störf hennar hjá lögreglunni og kom hún fram í frétt mbl.is um málið og sagði það áherslur sínar, reyndar í fréttinni stendur að áherslan sé á rannsókn kynferðisbrotamála, sem kemur kannski ekki mikið á óvart miðað við orð hennar í viðtali Nýs Lífs.

Nú er stórundarlegt svo vægt sé til orða tekið að manneskja, starfandi lögreglustjóri, stígi fram í forsíðuviðtali í fullum skrúða og leggi sitt persónulega mat á meint kynferðisofbeldi. Því með því að standa þarna í búningnum þá er hún ekki einungis að koma fram sem mágkona Guðrúnar Ebbu, heldur líka sem lögreglustjórinn Sigríður Björk. Það er óhjákvæmilegt þegar hún stígur fram í sínum búning. Lögreglubúninurinn er táknrænn, því getur enginn neitað og þegar konan birtist í viðtali í þessum búningi þá er hún einnig í viðtalinu sem vinnan sín.
Í þessu viðtali segir hún meðal annars að hún eigi einungis góðar minningar af Ólafi Skúlasyni, nú er ég ekki í nokkrum vafa um að það sé rétt, það er alveg ábyggilega til fullt af fólki sem á góðar minningar af Ólafi, það kemur málinu samt ekki við. Það getur ekki verið lagt undir sem ástæða fyrir því að hún telji Guðrúnu Ebbu ljúga, það skiptir nefnilega engu máli hvernig hún upplifði Ólaf, það var ekki hún sem sakaði hann um nauðgun. Ég er heldur ekki í vafa um að Guðrún Ebba á ekki bara góðar minningar um Ólaf Skúlason.

Það er vel þekkt að ofbeldismenn koma vel fram, þetta eru engin skrímsli sem ganga um og meiða hvern einasta mann sem á vegi þeirra verður, heldur þvert á móti. Það er mjög algengt að kynferðisbrotamenn eru vel liðnir og oft á tíðum vinsælir bæði hjá fullorðnum og börnum. Þetta ætti manneskja sem sérhæfir sig í að uppræta ofbeldi að vita, henni ætti ekki að detta til hugar að hennar upplifun af manneskju hafi áhrif á það hversu vond/ur sú manneskja getur verið við einhvern annan.

Nú verð ég að segja að þegar manneskjan kemur svona fram með sitt persónulega mat og segir hreint út að hún trúi ekki Guðrúnu Ebbu meðal annars vegna þess hve góðar minningar hún á af Ólafi þá vekur það ekki upp traust. Það getur ekki verið traustvekjandi fyrir konur höfuðborgarsvæðisins að hafa lögreglustjóra sem opinberlega hefur rengt fórnarlamb kynferðisofbeldis vegna sinna góðu minninga. Hvað ef kona verður fyrir ofbeldi af vinum Sigríðar í framtíðinni? Er hætta á að Sigríður stígi þar einnig fram með sitt persónulega álit og góðu minningar? Þetta grefur undan trausti og finnst mér hreint út sagt ótrúlegt að enginn hafi vakið athygli á þessu fyrr, nema einhver hafi gert það, þetta viðtal fór framhjá mér á sínum tíma, umfjöllunin hefur geta gert það líka. En hvernig sem umfjöllunin um það fór hafði það ekki meiri áhrif en það að hún var settur lögreglustjóri Höfuðborgarsvæðisins tveimur árum síðar. Hvernig kemst starfandi lögreglustjóri upp með það að segja sitt persónulega álit á meintu kynferðisofbeldi í fullum skrúða án þess að eitthvað sé sagt?

 

*Nú hef ég virkilega óbeit á orðinu meintu og hvað þá þegar kynferðisofbeldi fylgir þar á eftir en til öryggis þá nota ég þetta orð, í ljósi þess að önnur hver manneskja er kærð fyrir meiðyrði á netinu nú til dags.

-Freyja

Óvænt athygli

Pistillinn minn um framkomu skólans í garð okkar foreldrana og Mikaels fékk óvænta athygli og var sólarhringurinn eftir færsluna hálf óraunverulegur. Ég er virkilega þakklát fyrir stuðninginn sem ég fékk fyrir að stíga fram og hversu mikið þetta opnaði umræðuna. Þá vil ég líka þakka fréttamiðlum fyrir að koma til móts við mínar kröfur að öllu leyti og fjalla vel um þetta mál.

Ég hef mikið séð kallað eftir að ég nafngreini kennarana sem komu nálægt þessu og skólann sjálfan en ég nafngreindi þessa aðila ekki af ástæðu, þetta átti ekki að verða að nornaveiðum og vandamál sem þetta er landlægt og alls ekkert bundið við einstaka kennara eða skóla og því tilgangslaust að nafngreina og valda einstaka fólki verulegri vanlíðan, þessir aðilar vita uppá sig skömmina og er það nóg.

Ákvað ég að senda námsmatsstofnun póst aftur með fyrirspurn hvað hefði orðið af kvörtuninni okkar og bíð ég eftir svari frá þeim, sem betur fer hef ég geymt öll samskipti um þetta mál skrifleg.

Þar að auki hef ég séð vangaveltur um að Mikael fái einn daginn að vita að skólinn hafi komið svona fram við hann og að aðrir krakkar kringum hann muni jafnvel stríða honum á því.  Fyrir það fyrsta þá erum við búsett í Noregi og munum ekki flytja til Íslands í nánustu framtíð, engin íslensk börn ganga með Mikael í skóla en það allra mikilvægasta í þessu máli er að hvorki við né Mikael höfum eitthvað til að skammast okkar fyrir. Þetta er ekki leyndarmál og munum við segja Mikael frá hegðun skólans í þessu máli. Það er ekkert skammarlegt við það að fá skítlega framkomu, það er ekki eitthvað sem er í okkar ábyrgð og því algjörlega til einskis að þagga það niður og að segja ekki frá vegna mögulegrar stríðni.

En að lokum vil ég bara þakka aftur fyrir auðsýndan stuðning í þessu máli.

-Freyja

Viltu ekki hringja og tilkynna veikindi?

Í byrjun september 2012 fékk ég símtal sem ég bjóst aldrei við að fá. Það var símtal frá þáverandi kennara Mikaels þar sem hún sagði mér að nú færi brátt að líða að samræmdu prófunum í 4. bekk og spurði hvernig mér fyndist Mikael stemmdur í þau. Ég sagði henni að ég hefði litlar áhyggjur af þessu prófi, við gerðum ekki mikið úr þessum prófum frekar en öðrum prófum sem eru lögð fyrir í skólum og hvöttum hann nú, sem áður, að gera bara sitt besta og hafa engar áhyggjur. Niðurstöður prófsins myndu ekki hafa nein áhrif á hans skólagöngu og að við værum stolt af honum fyrir að gera sitt besta, það væri meira en nóg.

Þar að auki var búið að sækja um og sjá til þess að hann fengi lengri tíma, aukahjálp og sérstofu en það var gert klárt af skólanum sem hann hafði verið í í 3. bekk en við höfðum flutt um sumarið. Aldrei hafði verið rætt neitt annað við mig í þeim skóla en að Mikael tæki prófin, enda engin ástæða til annars, hann félli þar að auki ekki undir þau skilyrði sem eru gerð til að fá undanþágu undan prófunum.

En aftur að þessu merkilega símtali. Hún spurði mig hvort ég hefði velt því fyrir mér að hringja hann bara inn veikan á prófdegi, því þá þyrfti hann ekki að taka prófin og ekki væru lögð sjúkrapróf. Ég varð meira en lítið hissa á þessari beiðni og spurði af hverju ég ætti að gera það og sagði hún þá að þau í skólanum hefðu áhyggjur af velferð hans og andlegri líðan ef hann myndi mæta í prófin. Mér fannst það líka frekar undarlegt þar sem andleg líðan hans var í góðu standi og ekkert sem benti til neins próf- né skólakvíða. Sagðist ég ætla ræða málin við manninn minn og hafa samband seinna. Eftir að hafa rætt við manninn minn, ákvaðum við að til öryggis væri réttast að ráðleggja mig við lækni Mikaels sem hafði hitt hann stuttu áður og spyrja hvort hún teldi einhverja ástæðu vera fyrir því að hann ætti ekki að mæta í prófið, hvort hann væri að sýna einhver kvíðaeinkenni eða hvort þetta gæti mögulega farið illa með hann. Henni fannst þetta jafn einkennilegt og mér þar sem Mikael sýndi engin merki kvíða og engin ástæða væri til annars en að mæta í prófið.

Eftir það sendi ég tölvupóst til kennarans að við sæjum enga ástæðu fyrir því að Mikael mætti ekki í þessi próf og myndi hann því mæta í næstu viku.

Vikan leið og komið var að lesskimunardegi, enn sýndi barnið enginn kvíðaeinkenni og hafði engar áhyggjur af þessum prófum, enda engin áhersla lögð á þau frá heimilinu og ekkert stress. Upp úr hádegi fæ ég svo enn einkennilegra símtal. Fæ ég hringingu frá sérkennara sem ég hafði aldrei hitt og það sem kannski einkennilegra var, hún hafði ekki einu sinni hitt Mikael! en málið var að skólinn sem Mikael gekk í, var í raun „útibú“ frá stærri skóla, þar sem börnin færðust í þann skóla við 5. bekk og þessi kona sem hringdi í mig starfaði inn í þeim skóla en ekki Mikaels. Hún sagði að kennari hans hefði hringt í hana og beðið sig um að hringja í mig. Aftur fannst mér þetta stórundarleg vinnubrögð og líka sérstaklega einkennileg samskipti.

En þessi kona tilkynnti mér að Mikael gæti ekki mætt í prófin. Hann hefði farið í lesskimunarprófið um morguninn og það hefði gengið svo illa að hann hefði brotnað niður og liðið skelfilega. Ég spurði hvernig í ósköpunum stæði á því? Og spurði hvort allt væri í lagi núna og hvort ég ætti þá ekki að koma strax og sækja hann, fékk hálfgert sjokk sjálf að honum liði svona illa, því ekki hafði hann minnst einu orði á það um morguninn og ekkert bent til þess að honum liði illa. Hún sagðist ekkert vita um þetta, hún hefði ekki verið á staðnum og því einungis með þessi skilaboð til mín. Ég spurði hana hvort henni þætti þetta eðlileg samskipti við foreldri? Að hringja og tilkynna að barnið hefði brotnað niður í prófi og það frá manneskju sem var ekki á staðnum og gæti ekki einu sinni sagt mér hvernig hefði verið brugðist við og af hverju hefði ekki verið haft samband við mig strax?

Hún endurtók að hún væri einungis að hringja til að tilkynna mér að hann gæti ekki mætt í prófin. Ég endurtók við hana að það kæmi ekki til greina, ef hann væri að brotna niður í prófi þá væri það vegna pressu frá skólanum en ekki heimilinu og þyrfti augljóslega að rannsaka það frekar, ekkert við þetta væri í lagi og að hann myndi mæta í prófin.

Þá sagði þessa kona setningu sem ég mun seint gleyma, ef nokkurn tíma. Enda var hún orðin reið þarna að ég skyldi hreinlega ekki segja já og amen strax og sagði hún við mig: „Veistu það, ef hann mætir í þessi próf þá mun hann bara upplifa sig heimskan!“.

Jáhá! Merkilegt, hvað ætti að valda því að barn í 4. bekk upplifir sig heimskt? Hvurslags pressa er sett á barn á þeim aldri til að það upplifi sig heimskt í prófi? Þegar búið er að ítreka heiman frá að þessi próf séu sett upp þannig að fæstir nái að klára og því eigi bara að gera eins mikið og hann treystir sér til og að hann þurfi ekki að klára, bara gera það sem hann getur og sleppa rest. OG það sé allt í lagi, það er allt í lagi að klára ekki próf, það er allt í lagi að geta ekki allt, það getur enginn allt.

En aftur að þessum stórundarlegu samskiptum. Ég varð eiginlega hálforðlaus og orðin gjörsamlega miður mín eftir þessar tilkynningar og eitt af því dónalegustu símtölum sem ég hef nokkurn tíma átt við fullorðna manneskju, að ég kvaddi konuna bara og hún stóð föst á sínu, hann hafði ekki leyfi til að mæta í prófin. Strax að símtali loknu hringdi ég í manninn minn sem á mínútunni hringdi í sérkennarann til að ræða þetta við hana. Þá gerðist svolítið sem ég næ enn ekki uppí. Hann byrjaði á að segja að við hefðum fyrir löngu sagt að hann myndi mæta í þessi próf og við það væri staðið, já ekkert mál svaraði konan. Henni datt ekki til hugar að rökræða neitt við manninn minn, eins mikinn dónaskap og hún sýndi mér þá sagði hún bara já og amen við hann.

Ég dríf mig heim úr skólanum til að taka á móti Mikael, dauðhrædd um að honum liði illa og væri miður sín yfir prófinu. Stuttu eftir að ég mæti heim þá kemur hann heim svona eldhress. Ég spyr hvernig hafi gengið í prófinu, bara mjög vel svaraði hann brosandi og líkur sjálfum sér. Ég reyni að fela undrun mína og spyr hvort að kennarinn hans hafi nokkuð talað eitthvað við hann í dag, hún hafi nefnilega haft samband við mig og haft áhyggjur yfir að honum liði kannski ekki nógu vel. Hann lítur hissa á mig og spyr: Af hverju hélt hún það? En nei hún talaði ekkert við mig í dag.

Þarna renna á mig tvær grímur. Ekkert af þessu gerðist. Hann brotnaði ekki niður í prófinu. Enginn ræddi við hann og ekkert gerðist, það átti bara að beita öllum ráðum til að hann myndi ekki mæta í prófin þar sem vitað var að hann myndi ekki fá yfir meðaleinkunn (sem var í góðu lagi okkar vegna, þessi próf eru ekki lögð fyrir til að bara þau börn sem skora hátt í bóklegum fögum taki þau!). Þarna vorum við komin með nóg og höfðum samband við námsmatsstofnun og menntamálaráðuneytið og lögðum fram formlega kvörtun. Þá fengum við að heyra það frá námsmatsstofnun að þetta væri ekki fyrsta kvörtunin og heldur ekki í fyrsta skipti þar sem þau heyra frá skólum sem koma svona hrikalega fram við mæðurnar en um leið og feðurnir myndu blanda sér í málið myndu allir bakka.

Ég veit í dag ekki hvað varð um þessa kvörtun, við fluttum ári seinna frá Íslandi og ég hef aldrei heyrt meir um þetta. Hann kláraði að taka prófin og gekk bara vel, fékk verðlaun frá okkur fyrir góðan árangur og sjálfur upplifði hann það slíkt að þetta gekk vel og miðað við hans stöðu námslega á þessum tíma þá kom árangur hans okkar foreldrunum á óvart, hann stóð sig nefnilega mjög vel. En öðru hverju þá hugsa ég um þennan tíma og þessi stórundarlegu samskipti skólans við okkur foreldrana og þakka kannski mest fyrir í dag að hann gangi ekki í þennan skóla í dag.

-Freyja

Opnum augun

Hér úti hefur einelti verið gríðarlega mikið í umræðunni. Sagan af honum Odin hefur hrist ótrúlega upp í samfélaginu, þar sem hver einasta manneskja sem les söguna hans fær illt í magann og tár í augun. Hvernig getur svona grimmd á móti barni þrifist í okkar samfélagi? Hvað veldur því að þetta er ekki stöðvað? Ég hef áður skrifað um einelti í pistlinum mínum foreldravandamálið einelti þar sem ég var nýbúin að hlusta á rektor skóla barna minna tveggja, Mikaels og Kristínu. Í nýlegri rannsókn kom það fram að Torridal skóli, sem er skóli barna minna væri að mælast með einna minnst einelti stórra skóla í Noregi þar sem mældist 0,7% einelti yfir tímabilið 2007-2012.

Nú hafa börnin mín gengið í þennan skóla síðan um miðjan ágúst og sé ég gríðarlegan mun þá helst á Mikael, hann hefur aldrei þrifist jafn vel í skóla og í þessum, á góða vini, er hamingjusamur og hefur náð lygilegum námsárangri á þessum stutta tíma. Samstarf foreldra og skóla er mjög mikið í skólanum og samstarf milli annarra foreldra mjög mikið. Á foreldrahittingum (í báðum bekkjum) sem eru reglulega yfir árið þá hafa foreldrar verið settir saman í hópavinnu þar sem við eigum að koma með hugmyndir fyrir börnin að gera saman til að viðhalda góðum bekkjaranda og styrkja foreldrasamstarf, samstarf milli barnanna og minnka líkur á einelti. Þetta hefur virkað mjög vel.

Virkt foreldrasamstarf hefur gríðarlega góð áhrif gegn einelti en skólinn ber þar líka ábyrgð að leiða foreldra áfram til að mæta og stýra hópnum hvað eigi að gera. Það er ekki bara hægt að ætlast til að foreldrar nái að skipuleggja svona allt sjálfir, stjórnendur hvers skóla bera þar mikla ábyrgð að forgangsraða þannig að baráttan gegn einelti sé þar efst á baugi, það getur varla neitt verið mikilvægara en að skapa öruggt og gott starfsumhverfi fyrir börnin að vera í. Grunnskólagangan mótar hvern einstakling og það er samfélaginu öllu til bóta að hver einstaklingur komi upp úr grunnskóla með góðan grunn og tilbúinn til að halda áfram en ekki niðurbrotinn eftir margra ára vítisdvöl. Hvert líf er of dýrmætt og ekkert foreldri á að þurfa að upplifa sig varnarlausan gagnvart skóla barnanna sinna og börn eiga aldrei að þurfa að upplifa það að missa von og trú á því fólki sem á að standa með þeim og passa þau í skólanum.

Öll börn geta byrjað að leggja önnur börn í einelti en það eru einungis börn góðra foreldra sem ná þeim tilbaka, einelti á ekki að vera liðið, það á aldrei að segja „við erum að vinna í þessu“, þetta er ekki eitthvað sem þú vinnur bara í, þetta er eitthvað sem þú stöðvar á punktinum. Einelti á ekki að vera liðið og það er ekki í boði að leggja aðra í einelti, svo einfalt er það og svo einfalt á að vinna útúr þessu. Ef foreldri stendur sig ekki í því að stoppa sitt barn í að leggja í einelti þá verður bara að veita þeim foreldrum viðeigandi aðstoð, það er íka viss vanræksla að gera það ekki og ef foreldrarnir ráða ekki við barnið þá verður líka að veita þeim aðstoð.

Ég get ekki hugsað mér kvölina sem þessi börn fara í gegnum og get heldur ekki hugsað mér að þetta samfélagsmein sem einelti er verði ekki stöðvað. Það er hægt að stöðva það, með sameiginlegu átaki foreldra og skóla, öll berum við ábyrgð í að segja nei, þetta er ekki í boði, við viljum ekki búa í samfélagi þar sem börn eru beitt ofbeldi í skólum og ef við stöndum öll saman þá er þetta hægt. Að einelti þrífist er á ábyrgð okkar allra.

Þangað til næst…

Fjarlægðin gerir fjöllin….

blá? Eða mögulega er búið að selja öll fjöllin og því ekkert eftir til að sakna.

Nú hef ég verið búsett í Noregi í rúma 15 mánuði og að fylgjast með Íslandi í fjarlægð og þeirri firringu sem á sér þar stað er hreint út sagt ótrúlegt. Ég varð virkilega glöð inní mér þegar ég sá að skipulögð voru mótmæli og jafnvel enn glaðari þegar ég sá á vefmyndavél mílu allt fólkið sem mætti! Bravó og vel gert!

En þrátt fyrir mótmæli þá sé ég ekki fyrir mér að ég komist á þann stað að vilja flytja til Íslands aftur, kostirnir við Noreg eru bara svo miklu meiri. Það er ekki einungis það að geta unnið eðlilegan vinnudag og fá laun til að lifa út mánuðinn fyrir, heldur er það vegna þess að hér er heilbrigðiskerfi sem virkar, hér eru stjórnmálamenn látnir bera ábyrgð á orðum og gjörðum, hér svara stjórnmálamenn þegar þeir eru spurðir, og lögreglan, og herinn og.. þarf ég að halda áfram? Af hverju og hvernig kemst næstum hver einasti maður í valdastöðu á Íslandi upp með allt þetta bull?

Hvernig getur það staðist að opinber starfsmaður heimtar að blaðamaður fer í fangelsi fyrir blaðagrein? Að blaðamenn þurfi að leita til mannréttindadómstóls til að fá uppreisn æru? Hvað í ósköpunum gengur eiginlega á í okkar litla landi?

Þetta er ekki léttvægt og snýst ekkert lengur um það hvaða stjórnmálaflokkur er við völd, þetta snýst um það að spillingin virðist vera í gjörsamlega hverju einasta skúmaskoti sem fyrirfinnst á Íslandi og fólk verður svo samdauna ástandinu að enginn gerir raunverulega neitt. Svo er bara ætlast til að hver einasti landsmaður vilji flytja tilbaka að loknu námi í útlöndum. Til að fólk eigi að vilja búa á landinu verður að gera landið þannig að venjulegt fólk geti búið þar. Það verður að búa við eðlilegt og vel starfandi heilbrigðiskerfi, menntakerfi og atvinnulíf.

Elsku íslendingar, haldið áfram að mótmæla, gerið það sem er rétt. Þessir menn, þeir eiga ekki landið og þeir starfa í ykkar þágu, ekki sinna, minnið þá á það!

Þangað til næst….

Af hverju ég vorkenni ekki

Það hefur verið örlítið í umræðunni að kenna í brjósti um kynferðisbrotamenn en best að taka það fram að betra er að lesa umræðuna í heild sinni inná facebook síðu Haukar þar sem DV fjallar einungis bara um brotabrot af því, en ég kann hreinlega ekki við að linka beint á facebook síðu annarra og því linka ég frekar inná DV. Þessar umræður og umfjallanir hafa vakið mig til umhugsunar og hér eru mínar vangaveltur.

Nú geng ég út frá því að flestir sem nauðga eru eitthvað skertir. Það nauðgar enginn heilbrigð manneskja, ekki frekar en að heilbrigð manneskja labbi út og myrði næsta mann. Það er eitthvað mikið að þeim sem nauðga, hvort sem um ræðir einhvers konar siðblindu, tímabundna geðveiki eða annað. Það er bara á hreinu að heilbrigð manneskja er ekki nauðgari.

Nú get ég bara ekki séð þörfina fyrir því að vorkenna þessu fólki, það þarf ekki á minni vorkunn að halda. Það er bara allt í góðu að líða illa eftir að hafa brotið svona alvarlega á annarri manneskju og ég skil hreinlega ekki þessa þörf til að fyrirgefa og vorkenna. Fullorðið fólk verður bara að axla ábyrgð á sínum gjörðum og stundum er glæpurinn það alvarlegur að þú átt enga vorkunn skilið -heldur enga fyrirgefningu, að minnsta kosti ekki frá þolenda ofbeldisins. Það að mamma þín, pabbi, systkini eða nánustu fyrirgefa þér er bara allt annað mál.

Þegar ég er komin inná þetta ætla ég einnig að nefna mína meiningu á fyrirgefningu. Ég fyrirgef ekki kynferðisbrotamönnum, ég mun ekki og hef ekki fyrirgefið nauðgurum mínum og sé nákvæmlega ekkert að því. Ég þarf ekki að fyrirgefa þeim til að halda áfram með mitt líf, sem betur fer eru þeir ekki hluti af mínu lífi og munu heldur ekki vera það. Málið með fyrirgefningu er að ég mun fyrirgefa börnunum mínum fyrir að brjóta uppáhalds myndina mína eða vini mínum fyrir að klessa bílinn minn og þar fram eftir götunum. Þá er það fyrirgefið, gleymt og grafið og allt er í lagi. Það er aldrei í lagi að nauðga. Það er ekki í lagi að hafa nauðgað fyrir 10 árum. Það mun heldur aldrei vera í lagi. Tíminn læknar heldur ekki öll sár en þegar tíminn líður þá lærir maður að lifa í sátt. Ég sætti mig við mína fortíð og held áfram.

Að ná sáttum er frekar langt og erfitt ferli. Það tekur tíma að sætta sig við svona erfiðan hlut en ég þarf ekki að fyrirgefa til að sætta mig við þá staðreynd að á mér var brotið og að ég get ekki breytt fortíðinni. Æðruleysi er mikilvægt til að sættast við fortíðina og sætta sig við hluti sem maður getur ekki breytt. Ég get ekki farið aftur í tímann og breytt því sem kom fyrir mig en ég get haldið áfram og lifað mínu lífi eins vel og ég get, í sátt við sjálfa mig. Ég gerði eins vel og ég gat og ég er sátt við minn hlut, ég er ekki reið lengur en ég hef ekki fyrirgefið og mun ekki gera.

Mér þykir mikilvægt að koma þessum punkti inn. Það þurfa ekki allir að fyrirgefa til að halda áfram með lífið og vera sáttir og hamingjusamir í sínu lífi, þessi eilífa krafa um að þú getir ekki lifað hamingjusömu lífi nema að fyrirgefa er ekki sanngjörn, hún er í raun heftandi fyrir þá sem geta eða vilja ekki fyrirgefa. Lífið er ekki svart/hvítt og margir lifa hamingjusömu lífi án þess að fyrirgefa brotamönnum sínum, þeir sem finnst það vera nauðsyn að fyrirgefa geta gert það, en mega þá vel sleppa því að halda því fram að við hin sem kjósum að gera það ekki burðumst með reiði og óhamingjusemi allt okkar líf.

Nú er líklegast til fullt af fólki sem horfir á fyrirgefningu með allt öðrum augum en ég og það er allt í góðu, en þegar kemur að svona glæpum þá er mikilvægt að hafa það í huga að fólk tekur misjafnlega á sínum málum, það er ekki til ein rétt leið fyrir alla. Þolendur kynferðisofbeldis hafa að öllum líkindum hundrað leiðir til að díla við sína erfiðleika og það að segja að ein leið sé sú rétta en hin ekki er hreinlega vanvirðing við alla þá sem velja sér aðra leið.

Þangað til næst!