Dagur 7

(VARÚÐ: Viðkvæmum lesendum skal bent á að í þessari færslu verður minnst á líkamlegar fúnksjónir.)

Við fórum norður um helgina. Það var ævintýraför mikil. Ferðin á föstudeginum tók meira en sjö tíma – við lögðum af stað fyrir klukkan fimm og vorum ekki komin norður fyrr en eftir miðnættið. Vesturlandsvegur var lokaður á tveimur stöðum vegna umferðarslysa. Og Holtavörðuheiðin nánast ófær vegna blindbyls allan daginn. Nema fyrir einhverja furðulega forsjón rétt á meðan við laumuðumst yfir hana á níunda tímanum. Bakaleiðin á sunnudeginum var tíðindaminni.
Hún Gjósta litla er skemmtilegt kvikindi.

Opinber skýring á nafni færslunnar er sú að í dag voru komnir sjö dagar síðan hann Logi litli kúkaði síðast. Þá kom loksins örlítil spýja. Allan þennan tíma hefur hann verið ósköp sáttur við ástandið. Annars værum við farin að hafa áhyggjur.
Í kvöld mæti ég á samlestur hjá Hugleik fyrir Þorradagskrána í Þjóðleikhúskjallaranum. Það verður gaman.

Hamingjuóskir til ljúfunnar með strákinn. Hann er fæddur á góðum degi.