Afmæli og íslenska fjölskyldan

Skömmu eftir að ég fékk bílpróf – mig minnir að ég hafi verið á nítjánda ári – fengu foreldrar mínir mig til að vera bílstjórinn þeirra. Þau bjuggu þá á Hólum í Hjaltadal og þótt félagslíf á staðnum hafi verið með líflegu móti þá gerðist ekki oft að þau fóru beinlínis „út á lífið,“ eins og sagt er. En einu sinni á ári mættu þau á kaupfélagshátíð í Miðgarði, þar sem Karlakórinn Heimir hélt sína árlegu tónleika og Geirmundur Valtýsson lék fyrir dansi á eftir. Og í eitt skiptið fengu þau mig til að vera bílsjtóri og buðu mér út í staðinn. Á Karlakórinn Heimi og Geirmund Valtýsson.

Nei hvað er þetta maður. Ég skemmti mér konunglega.

En eitthvert skiptið var móðir mín á tali við eldri mann úr sveitinni og þar sem ég stóð þar skammt frá benti hún á mig og sagði að þarna væri Hjörvar sonur sinn. „Nújá,“ sagði þá maðurinn. „Og eigið þið hann bæði?“

Eitthvað kom á móður mína, svo ég skaust inn í samtalið og sagði að jújú, það stæði heima. Þetta væri náttúrulega orðið soddan rarítet í dag.

– – –

Þetta rifjaðist upp fyrir mér eftir afmælisveislu á tölvuöld sem ég var viðstaddur á sunnudaginn, þarsem sú elsta hélt átta ára fjölskylduafmæli. Þar voru allir og ég sat á meðan í vinnunni minni hérna úti og spjallaði í gegnum tölvuskerminn. Fullorðna fólkinu gekk svona og svona að sósjalísera með mér, en blessuð börnin tóku þessu sem býsna sjálfsögðum hlut. Ég frétti svo morguninn eftir að ein fjögurra ára prinsessan hefði spurt viðstadda eftir að ég var búinn að logga mig út hvort ég væri „fyrri pabbinn.“ Það þótti fyndið.