Nöfn úr fortíðinni

Við frúin ræðum stundum örin á þýsku þjóðarsálinni sem erfitt er að tala um. Við erum í raun ósköp illa að okkur (hún þó heldur skár en ég) og ég hef ekki fyrir mitt litla líf þorað að ræða neitt í námunda við þau mál við samstarfsfólkið. Og mun eflaust aldrei.

En mér finnst dálítið skrítið að rekast stundum á hitt og þetta sem hringir bjöllum aftan úr fortíðinni. Reyndar ekki allt vandræðalegt, tildæmis er ekkert sem vekur óbragð í munni við það að aka framhjá verktakaskiltinu hjá Gottlob Rommel sem tekur í gagn spítalabyggingarnar uppi á hæðinni (enda sá Rommel sem varð þekktur í seinna stríði annálaður öðlingur), nema hvað það minnir mann óþægilega mikið á Kaupþingslógóið. Og þá rifjast bara upp manns eigin skömm og landa sinna:

Hitt þótti mér öllu merkilegra þegar við fórum í göngutúr á nálægan bóndabæ og sáum traktor með Mengele-kerru í eftirdragi:

Og ekki minnkuðu merkilegheitin þegar ég komst að því að fyrirtækið „Karl Mengele og synir“ er stórframleiðandi landbúnaðartækja og hefur verið allt frá því faðir Jósefs stofnaði það fyrir hundrað árum. Við frúin ræddum þessa nafngift aðeins og henni fannst að í svona kringumstæðum ættu fyrirtæki bara að sjá sóma sinn í að skipta um nafn. En ég er ekki svo viss – þá fyrst finnst mér verið að forðast að horfast í augu við fortíðina. Fyrir utan hvað það er voðalega Íslandsbanka/NBI-legt, eitthvað.

En áhugasamir eru hvattir til að tékka á heimasíðu Mengele landbúnaðartækja. Aðdáendur geta líka keypt sér sitthvað smálegt, s.s. kaffibolla, lyklakippur eða vasahnífa merkta fyrirtækinu, ef vill.

5 replies on “Nöfn úr fortíðinni”

  1. Ég hef nokkrum sinnum rætt þessi mál við Þjóðverja og það er mjög spes. Þetta er greinilega mjög þrúgandi. Einn var reyndar mjög spes og sagði mér að fyrsti hluti þjóðsöngsins hefði verið fjarlægður vegna smávægilegs misskilnings. Sá var fæddur 64 minnir mig. Síðan umgekkst ég marga Þjóðverja í Cork og þeir ræddu þetta nokkuð opinskátt. Um leið fékk ég að heyra þá segja gyðingabrandara sem var mjög skrýtið þó ég sé nokkuð viss um, miðað við það sem ég hef lært um húmor í þjóðfræði og persónuleika þeirra sem þá sögðu, að kom til sem losun vegna þjóðarskammarinnar en ekki af andúð.

  2. Mengele hefur lengi verið í íslenskum sveitum. Eitt dæmi um þennan fortíðarnúning sem ég þekki persónulega er þegar systir þýskrar vinkonu minnar hugðist skíra dóttur sína Katja og hefði þá fangamarkið orðið KZ… Henni var vinsamlega bent á að bæta við millinafni, sem gert var. Litla stelpan er nú rúmlega tvítug.

  3. Að vísu. Sko. Það sem við sáum var úðen tvívl kerra. En besta myndin sem ég fann á heimasíðunni af nafninu á einhvunnlags attanívagni var á þessum heyhleðsluvagni. Við vorum ekki með myndavél þegar við sáum kerruna.

Comments are closed.