GPdV 2009: Austurríki

Síðasta forkeppni Grand Prix der Volksmusik fór fram þrítugasta maí. Þar kepptu fimmtán þátttakendur um hylli landa sinna í Austurríki til að komast í úrslitakeppnina í München tvær vikur héðan í frá. Þetta var hörð og spennandi keppni og má með sanni segja að úrslitin hafi komið í opna skjöldu, enda sátu eftir með sárt ennið í lok kvölds ekki ómerkari nöfn en Steirerbluat, Zellberg Buam og Bernd Roberts.

Leona & Swen er dúett sem rétt marði Steirerbluat í blóðugri keppni um fjórða sætið með laginu „Mach das noch mal mit mir“ (7,42% greiddra símaatkvæða). Það er fyrsti smellurinn af plötunni „My Love“ sem væntanleg er í allar betri tónlistarbúðir 28. ágúst næstkomandi. Þau Leona og Swen eiga sér annars afskaplega sæta sögu – þau eru hjónakorn til átta ára og eiga sér sameiginlegan einlægan áhuga á listforminu, auk tveggja barna: þeirra Phillips (8) og Önnu (6).

Þótt ótrúlegt megi virðast var framkoma þeirra á undanúrslitakvöldinu frumraun þeirra í sjónvarpssal. Lagið sjálft sækir að vísu meira í Schlager og spænska þjóðlagahefð, frekar en þá þýsku, en við flutninginn er fagmennskan ein í fyrirrúmi. Eins og þau segja sjálf, þá hafa þau fært Volksmúsíkurgeiranum alveg nýja dúett-upplifun:

Þriðja sætinu náði stuðgrúbban Die Grubertaler með lagið „Du darfst beim Autofahr’n nit auf die Mädels schau’n“ (9,28%). Þeir Florian, Michael og Reinhard  eru bræður og leikfélagar frá uppsveitum Týról sem hafa, þrátt fyrir ungan aldur (22-25 ára) troðið upp við góðan orðstí í meira en sjö ár núna.

Die Grübertaler
Die Grübertaler

Lagið þeirra er holl áminning þeirra til allra ungra sveina sem nýbúnir eru að fá bílprófið: Það má ekki glápa á stelpurnar þegar maður er að keyra – það á að hafa bæði augun á veginum. Auglýsingastofa Umferðarráðs ætti endilega að setja sig í samband við þá strákana:

Andreas Gabalier er ungur og hjartahreinn lögfræðistúdent frá Graz sem hefur sungið sig inn hug og hjörtu Austurríkismanna með laginu „So liab hob i di,“ sem lenti í öðru sæti (12,36%) á téðu kvöldi. Hann semur öll sín lög og texta sjálfur (sem ku vera soddan rarítet í kreðsunum) og er auk þess býsna slyngur á harmónikku.

Lagið sem um ræðir er nokkuð greinilega ástarljóð, en hvað „So liab hob i di“ annars þýðir hef ég ekki minnstu hugmynd um. Sama segir reyndar gervallur þýskumælandi málheimur, enda er þetta sungið á einhverjum heimulegum Graz-díalekt. En það geta allir tekið undir með kynninum í Musikantenstadl in Tulln hér á eftir: Ástarljóð skilur maður fyrst og fremst með hjartanu.

Þá er það bara sigurlagið. Öllum að óvörum kom óþekktur katólskur prestur að nafni Franz Brei, sá og sigraði. Pfarrer Franz Brei & Signum hreinlega möluðu þetta (24,15%) með laginu „Das Leben.“ Ég kann ekki á því neina haldgóða skýringu, nema að það hlýtur að vera hátt hlutfall katólskra eldri kvenna með opinn símreikning og sterkan bent fyrir Volksmusik. Ekki samt það að ég ætli að kasta fyrsta steininum: