Þetta er bara spurning um prinsipp

Má til með að geta þess að ég fékk mér hinn erkitýpíska hádegisverð í dag: Schnitzel með Schwäbísku kartöflusalati. Og einhverslags hleypta mjólkurafurð á eftir sem var mjög ljúffeng.

Ég mætti seint í kvöldmatinn þar sem ég sat frameftir á fundi. Sá var góður. Sem og kvöldmaturinn: Fiskistautar og soðnar kartöflur hjá frúnni.

Við erum rög við að reyna okkur við fiskinn hérna í uppsveitunum. Fiskistautarnir eru þrautreyndur hittari oní ómegðina. Enda sniðnir beint úr flökunum. Eflaust djúpfrystir beint um borð í verksmiðjuskipinu. Ábyggilega eitthvað við þá sem Naomi Klein hefði að setja útá (og þá á ég ekki við Fuego piparsósuna sem ég lúri á innan á ísskápshurðinni). Ég fékk „No Logo“ sumsé lánaða um helgina sem leið. Ekki byrjaður á henni enn en hlakka til. Tek til við hana þegar ég klára „Less than Zero“ öðruhvoru megin við helgina.

Öðru megin. Hvoru megin. Hinu megin.

Með einu emmi!

Anskotakornið, hvert einasta bein í mér öskrar að þetta sé hvorugkynsmynd, ekki karlkyns. Og hefur alltaf gert (ég meina, „hinum veginn,“ hvaða helvítis rugl er það eiginlega?!). Og étiði það þarna, íslenskufríkin ykkar. Þetta er eitt dæmi af nokkrum vandfundum þar sem mér finnst fræðingarnir vera í tómri steypu með skýringarnar.

Mér finnst þetta bara eiga að vera svona!

Þetta er bara spurning um prinsipp!

Annars er sosum ekki frá miklu að segja. Enda eins gott – þrístiklan svífur á. Hún stóð undir ölum mínum væntingum.