Ellefu atriði við hrunið sem ég þoli ekki

Það er víst afmæli í dag. Fyrir mitt leyti hef ég hlakkað meira til annars afmælis sem verður eftir tvo daga. En það breytir því ekki að það er afmæli í dag, hvort sem manni líkar betur eða verr.

Af því tilefni vil ég ryðja frá mér nokkrum punktum um ýmislegt sem mér líkar verr frekar en betur.

– – –

Ég hef fengið nóg af því að heyra fólk halda því fram að það verði að komast á sátt í þjóðfélaginu. Fólk ætti að vera búið að átta sig á því fyrir löngu: Það á aldrei eftir að nást sátt í íslensku þjóðfélagi um hrunið, afleiðingar þess og aðgerðir til að bregðast við því.

– – –

Og ekki nóg með það: Ég hef fengið nóg af fólki sem talar um þetta sáttleysi eins og það sé eitthvað slæmt. Mér sjálfum finnst hreinlega nauðsynlegt að það ríki ósætti um hverja þá ákvörðun sem tekin verður í íslenskri stjórnsýslu um langa framtíð. Helst héðan og til eilífðar. Til að íslensk þjóð komist útúr þessum þrengingum sem hún er í núna er bókstaflega nauðsynlegt að hver höndin sé upp á móti annarri hvert einasta skref leiðarinnar. Ef klórað er undir yfirborðið á orðum margra þeirra sem vilja „ná sátt í þjóðfélaginu“ grunar mig að þá langi í sama samfélagslega drómann sem kom landinu í þessi vandræði til að byrja með. Það má aldrei verða.

Síðasta árið hafa Íslendingar lært að rífa kjaft við valdhafa. Þeir mega aldrei gleyma því aftur.

– – –

Því tengt: Ég er búinn að fá mig fullsaddan á þessu eilífa tuði um þjóðstjórn. Á hverju einasta rauða ljósi og biðskyldumerki sem stjórnvöld hafa ekið framá síðasta árið (allt frá því einn seðlabankastjórinn mætti á sögufrægan fund með skömmum fyrirvara) hefur hvert tækifæri verið gripið til að kalla á þjóðstjórn. En það verður bara að segja þetta upphátt: Það er bókstaflega útilokað að hægt sé að skapa starfhæfa þjóðstjórn, hvorki nú né nokkru sinni. Það mun ekki gerast svo lengi sem vötn renna til sjávar.

– – –

Og líka: Ég þoli ekki þegar vælt er eftir „sameiningartákni“ fyrir „íslenska þjóð“ á „þessum erfiðu tímum.“ Það er ekki til, það á ekki að vera til og það væri eitthvað verulega mikið að ef til væri nokkur skapaður hlutur (hvað þá manneskja) sem skipti nokkru máli og sem allir Íslendingar gætu sameinast um sem táknmynd sína.

Íslendingar eru klofin þjóð. Það er gjá milli þjóðar og þjóðar. Og þjóðar. Og þjóðar.

Já það er nokkuð: kannski gætum við einna helst sameinast um Almannagjá. Ekki útaf sögulegum signifikans, heldur sem jarðfræðilegt fyrirbæri. Sem táknmynd um það jarðrek sem hefur orðið á milli okkar og sem mun aldrei gróa um heilt aftur.

– – –

Sem dæmi: Ég þoli ekki þá sem gjamma um það að þeir neiti að taka að sér að borga skuldir annarra. Oft titlaðra óreiðumanna. Sérstaklega ef þeim finnst í öðru orðinu útilokað að íslenska ríkið taki á sig krónu vegna Icesave klúðurs Landsbankamanna, og í hinu skýlaus krafa að ríkið taki á sig afföll vegna gengistryggðra bílalána. Þarna sést klofningurinn í sinninu sjálfu. Það er til fólk sem gengur um með Almannagjá í höfðinu á sér.

– – –

Fyrir utan að mér finnst óþolandi þegar látið er eins og Icesave samningarnir séu stóri pósturinn í þessum vandræðum öllum, eins og vandræði okkar í dag yrðu eitthvað auðleystari ef þessi ógreiddi fyllerísreikningur sem Icesave er hyrfi fyrir eitthvert kraftaverk eins 0g dögg fyrir sólu. Því þeir eru það ekki. Og þau yrðu það ekki.

– – –

Og í guðanna bænum, ekki minnast á „vinaþjóðir okkar“ í mín eyru. Það er til fólk sem lætur og talar eins og Ísland eigi sér enga vini í veröldinni, fyrir það hvernig fulltrúar nánast allra annarra landa virðast sammála um að draga lappirnar við að aðstoða við viðreisnina þartil Íslendingar sjálfir hafi sýnt einhverja döngun og dug til að gera hreint fyrir sínum eigin dyrum. Meiraðsegja „vinaþjóðir okkar“ í Skandinavíu taka þátt í samsærinu um að þvinga okkur til aðgerða, segir fólk.

Gimja breik.

Íslenskan á sér málshátt:

Vinur er sá er til vamms segir.

– – –

Og fyrst ég er farinn að tala um Skandinavíu: Enn ein ástæðan fyrir mig til að láta þá fara í taugarnar á mér sem kveinka sér undan að „greiða skuldir annarra“: Er virkilega mögulegt að þetta sé sama fólk og með hinu munnvikinu kallar eftir endurreisn Skandinavíumódelsins í íslenskri pólitík, með öllum þeim sameiginlegu byrðum sem því fylgja? Er ég einn um að sjá misræmið? Almannagjána í hausnum?

– – –

Ég þoli ekki þegar fólk hrópar eftir „leiðréttingu krónunnar.“ Gott og vel: Ég hef séð bregða fyrir notkuninni í þeirri merkingu að áður hafi krónan verið alltof hátt skráð, og nú sé hún búin að leiðrétta sig. En mig langar stundum til að arga innan í mér þegar fólk kallar eftir að „leiðrétta“ krónuna í þeirri meiningu að fá hana aftur í átt að því sem hún var í þá gömlu góðu daga.

Ég hef sagt það áður: Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það. Það vissi það hver sem vildi vita að krónan var alltof hátt skráð. Hver sem augu hafði gat séð það. Og nú er hún að verða búin að leiðrétta sig: Munurinn milli Seðlabankans og erlendra markaða er víst kominn niður fyrir tíu krónur á evruna.

Það eru komnir nýir tímar. Þeim fylgir ný króna.

– – –

Og börnin okkar. Blessuð börnin. Það munu þungar byrðar lenda á þeim af völdum þess sem náði hámarki fyrir ári síðan. Ég tek undir með þeim sem ergja sig yfir því. Ég þoli það ekki. Mér finnst það næstum jafn óþolandi og fólk sem ergir sig yfir þessu í öðru orðinu, og kvartar yfir þeim þungu böggum sem lagðir eru á íslensku þjóðina akkúrat í dag. Niðurskurðinum og skattahækkununum.

En lets feis itt: Þess léttari sem byrðarnar eru núna strax, því meira af þeim lendir á börnunum okkar. Með vöxtum og verðbótum. Ef menn vilja fara þá leið, þá er þeim fullfrjálst að viðra þá skoðun sína. En ef í næstu setningu er talað um að það sé ekki sanngjarnt að velta byrðunum yfir á börnin okkar fer hljómurinn í orðunum að verða býsna holur og klingjandi.

– – –

Að ekki sé minnst á hvert einasta skipti sem ég sé eitthvert af smettunum sem báru bróðurpartinn af sökinni á þessu öllusaman voga sér að bíta í hæla og naga bök yfir því hvernig farið er að því að hreinsa til eftir þau. Ég bara…

…ohhh.

En það er víst nokkuð sem mér skilst að ég sé ekki einn um.