Grand Prix der Volksmusik 2010: Svissneska forkeppnin

Nú þegar Evróvisjónsöngvakeppninni er lokið leggjast allir unnendur vandaðrar dægurtónlistar í kör og vesaldóm þartil undirbúningur kemst á skrið fyrir keppnina að ári. Víðast hvar er ekki farið að huga að slíku fyrr en líða fer að jólum, eða þar uppúr, svo framundan er hálfsárslöng eyðimerkurganga fyrir söngvakeppnisfíkla.

Nema maður sé svo heppinn að tilheyra þýska menningarsvæðinu.

Úrslit Grand Prix der Volksmusik söngvakeppninnar verða haldin í Vín í Austurríki þann 28. ágúst næstkomandi. Þar verður mikið um dýrðir, hátt til lofts og vítt til veggja og enginn hörgull á lystisemdum, enda nú þegar orðið uppselt á herlegheitin. Þar munu keppa 16 lög frá Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Suður-Týról, fjögur lög frá hverju landi. Þau voru valin af áhorfendum í símakosningum eftir undankeppnir sem haldnar voru í hverju landi fyrir sig nú í maí sem leið. Þá var svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki komist til að setja mig inní keppendurna fyrr en nú.

– – –

Svissneska forkeppnin var fyrst í röðinni þetta árið, hún var haldin strax þann fyrsta maí síðastliðinn. Þeir eru svo nútímalegir á Schweizer Fernsehen að þar má finna alla keppnina í fullri lengd. Áhugasamir ættu endilega að kynna sér herlegheitin, ef þeir eru alveg vissir um að hafa ekkert skárra að gera (og ekki setja tungumálið fyrir ykkur – þótt það minni afar takmarkað á þýsku stendur tónlistin alltaf fyrir sínu). Þarna var mikið um dýrðir, allir sótraftar á sjó dregnir og ástsælustu sigurlög fyrri ára rifjuð upp milli keppnisnúmera. Hápunkturinn var þegar Nella Martinetti steig á svið og tók sigurlagið úr allrafyrstu GPdV árið 1986, Bella Musica. Það var greinilegt að hún hefur engu gleymt og syngur enn nákvæmlega sömu engilþýðu röddinni og hún gerði fyrir 24 árum. Og svo var Semino Rossi þarna, þar fer listamaður sem er einn í sínum klassa.

Keppnin sjálf var samt náttúrulega aðalmálið, og hún var hörð. Til dæmis sætir furðu að ekki ómerkari listamenn en sjálfir Pläuschler-bræður hafi dottið út (en þeir áttu einmitt ógleymanlegt lag í úrslitum í fyrra) þrátt fyrir ágæta frammistöðu í sjónvarpssal og þaraðauki með stórkanónurnar Marcel Schweizer og Regina Engel til að bakka sig upp.

– – –

Í fjórða sæti með 10,51% atkvæða í símakosningunni lenti Original Voralpen-Express með lagið „Pfeif einfach drauf.“ Þrátt fyrir að hafa skyggnst um á heimasíðunni þeirra strákanna hef ég ekki enn getað komist að því hvort það sé einhver önnur Voralpen-Express sem er svona miklu meira Un-Original en þeir. Þetta mál er allt hið dularfyllsta. En lagið er hresst:

– – –

Í þriðja sæti með 12,98% lentu þau skötuhjúin Stixi & Sonja og höfðu sér til fulltingis ekki ómerkara kompaní en jóðlklúbbinn Alpablóm (takið sérstaklega eftir hvað þeir strumpa engilblítt í kynningunni á undan flutningnum hér að neðan). Lagið, „Bete zu unserem Herrgott,“ samdi Sonja sjálf og má með sanni segja að hún sé mikil hæfileikakona (hún átti annan entrans í keppninni þetta kvöldið, fluttan af ellibelgjunum í Tomaros). Ég vil hrósa róturunum á SF fyrir stórglæsilega sviðsmynd undir þessu lagi, þeir á RÚV gætu tekið sér þessi vinnubrögð til fyrirmyndar:

– – –

Yasmine-Mélanie er ein skærasta stjarnan á svissneska Schlager-himninum. Þessi tvítuga snót („Hallo zamme! Ich bid Yasmine-Mélanie, ich bid zwanzki!“) söng sig inn í hjörtu Svisslendinga með hugljúfum óð um það að það fylgja jú sorgir öllum sigrum. Að lífið er ekkert eintómur dans á rósum og ekki nóg með það, heldur væri það okkur ekki þess virði sem það er nema fyrir tárin sem fylgja með í kaupunum. „Tränen gehören zum Leben“ í flauelsmjúkum flutningi Yasmine-Mélanie lenti í öðru sæti svissnesku forkeppninnar með 13,74% greiddra atkvæða:

– – –

Sigurvegari kvöldsins með 15,72% greiddra atkvæða var tvítugur stráklingur, útlærður í því að spila á hakkbretti (Hackbrett), einhvunnlags slaghörpu sem leikið er á með þartilgerðum kjuðum (Svisslendingar virðast haldnir blæti fyrir þjóðlegum hljóðfærum – skemmst er að minnast Geni Good og félaga með Chlefele-lagið sitt í fyrra). Höfundar sigurlagsins í ár, Carlo Brunner og Philipp Mettler (en hann samdi líka lagið sem hún Yasmine-Mélanie söng upp í annað sætið) dæla þessu útúr sér eins og heimavöfðum vindlingum aftanúr silfursleginni styttu af Hjaltlandshesti: þeir sömdu með Maju Brunner (systur Carlos) lagið „Bliib doch bi mir“ sem lenti í öðru sæti í svissnesku forkeppninni í fyrra. Að síðustu er hér sigurlag svissnesku forkeppni Grand Prix der Volksmusik í ár, „Feuer und Flamme“ með Nicolas Senn, fyrsta manninum til að leika á hakkbretti á toppi Kilimanjaro. Ég vek sérstaka athygli á smekklegu eyrnaskrauti: