Hvernig er stemmingin?

Ég ligg slappur og sloj uppí rúmi hérna í Svabíu og horfi með öðru auganu á útsendingar að heiman, eftir því sem línan leyfir. Hugsa sitthvað: um íslenska fjölmiðla, stjórnvöld, almúga og alþingi, stjórnarskrána, forsetann og frúna hans. Svo fátt eitt sé nefnt.

Það er sitthvað sem þarf bæði að segja og gera sem hvorki heyrist né sést. Veit samt ekki hvort ég verði til neins við hvort heldur sem er þar sem ég er. Enda löngum því marki brenndur að vilja helst hugsa mig um í nokkra daga áður en ég segi eða geri nokkurn skapaðan hlut sem gæti mögulega skipt nokkurn mann máli.

Svo finnur maður ekki alveg hvernig ástandið er heima; maður fær ekki nema undan og ofan af því hingað út, enda varla neinum íslensku fjölmiðlanna treystandi til að gefa sjónarhorn sem er ólitað af áhrifum pólitískra og fjármálalegra valdhafa.

(Eins og sagan ætti að hafa kennt okkur: Fjármálalegt vald er ekki endilega mælt í prósentum af eignaraðild. Pólitískt vald er ekki endilega mælt í fjölda sæta á alþingi eða í ríkisstjórn. Hvað þá í niðurstöðum nýjustu skoðanakannana.)

Svo ég velti fyrir mér: Hvernig er stemmingin?

Hvernig var hún niðri á Austurvelli? Hverju var fólk að mótmæla? Hverju vill það koma í verk? Hver er krafan? Það komst ekki alveg til skila til mín.

Hvernig er hún allsstaðar annarsstaðar? Hvernig líður fólki? Hvernig hafið þið það?

Spyr sá sem ekki veit.