Um þjóðfund, kirkjumál og sitthvað smálegt.

Jæja, þá er þjóðfundi lokið og virðist sem hann hafi lukkast vel. Þá þarf bara það fólk sem er sammála því sem þar kom fram að kjósa sér fulltrúa á stjórnlagaþingið til að framkvæma það.

Þeir sem eru kosnir á stjórnlagaþing eru náttúrulega ekki bundnir af neinu öðru en sinni eigin sannfæringu. Þeir þurfa ekki að taka mark á niðurstöðum þjóðfundar frekar en þá langar.

Mér er þannig farið að það eru þau mál sem mér finnst skipta miklu máli að séu á ákveðinn máta. Köllum þau baráttumál. Til dæmis þetta með þrískiptinguna og áhrif stjórnmálaflokkanna sem ég nefndi í síðustu viku. Svo eru önnur þau mál sem ég hef mína skoðun á, sem ég myndi kjósa að væru á þennan eða hinn veginn, en þar sem ég geri ráð fyrir að afstaða mín myndi að stórum hluta mótast af andrúmsloftinu á þinginu sjálfu. Ég ætla rétt að vona að flestum frambjóðendum sé svipað farið.

Tökum dæmi.

– – –

Ég er utan trúfélaga. Ég hef verið það síðan í nóvemberlok 2007. Þetta verða þrjú ár á kosningadaginn, nánast upp á dag. Og mér líður ljómandi vel með þetta. Enda er ég trúlaus.

Konan mín og börn eru í þjóðkirkjunni, og samkvæmt því ölum við börnin upp. Ég segi þeim hvernig á að koma fram við náungann og fer með bænirnar með þeim á kvöldin. Og mér líður ljómandi vel með það líka. Þannig var ég alinn upp, og komst þó þangað sem ég er í dag.

Einhverjum öðrum trúlausum finnst ég kannski vera að gera þetta afturábak: Að maður eigi ekki að byrja á að innræta börnunum; ef þau vilji taka trú þá geti þau gert það þegar þau þroskast. En mér finnst þetta einmitt eiga að vera á þennan veginn en ekki öfugt: Það þarf þroska til að kasta trúnni.

Ég hef ekkert verið mikið fyrir að útvarpa þessu, þótt þetta sé ekkert leyndarmál – það verður bara hver að segja sínum guðum upp sjálfur, finnst mér.

Í ljósinu af ofansögðu er kannski ekkert skrítið að ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. En þrátt fyrir það – og þrátt fyrir að Þjóðfundur virðist hafa sent ansi skýr skilaboð um hið sama – þá er þetta ekkert sem ég set á oddinn.

Ef fólki finnst mjög mikilvægt að ríki og kirkja verði aðskilin í stjórnarskrá, þá á það að kjósa einstaklinga sem finnst það mikilvægt. Einnig, þeir sem vilja vinna allt hvað þeir geta til að halda í sína gömlu góðu þjóðkirkju verða að kjósa sér fulltrúa til að gera akkúrat það. Sjálfum finnst mér mikilvægast að sátt náist um málið – að þetta mál verði ekki ásteytingarsteinninn fyrir því að allt fari í vaskinn.

Ef ekki næst breið sátt um afnám ákvæða um þjóðkirkju úr stjórnarskrá, þá ætti að vera hægt að setja ákvæði sem segði eitthvað á þá leið að alþingi sé heimilt að setja lög um þjóðkirkju – að leyfilegt sé að hafa hana samkvæmt stjórnarskrá, þótt útfærsla hennar sé ekki bundin í stjórnarskrána sjálfa.

Sjálfur held ég að aðskilnaðurinn muni verða, einhverntíma. En þetta byði þá upp á meira þrepaskipt aðlögunarferli.

– – –

Ég á enn eftir að nefna það sérstaklega í hér meginmáli að auðkennisnúmer mitt er 3502.

Einnig vil ég benda á stuðningssíðu framboðsins á fasbók.