Af tveimur tungum

Til hamingju með dag íslenskrar tungu.

– – –

Það eru tvær fréttir sem mig langar að staldra við eftir daginn. Þær eru hvor úr sinni áttinni, þótt þær tengist. Sú fyrri er gleðileg (að mestu) og er einmitt í tilefni af deginum. Gísli Einarsson var í beinni útsendingu í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins frá Landnámssetrinu í Borgarfirði:

Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, flutti ávarp og talaði meðal annars um mikilvægi þjóðtungunnar en minnti um leið á að hundruð Íslendinga hefðu annað tungumál,  táknmálið, að móðurmáli og að því þyrfti einnig að hlúa. Einnig talaði hún um mikilvægi þess að nýir Íslendingar hefðu aðgang að íslenskukennslu og að þeim væri sýnd þolinmæði við íslenskunámið.

Að mestu gleðileg, sagði ég. Ég veit nefnilega ekki hversu margir heyrnarlausir hafa frétt af þessu ennþá. Þeir hafa að minnsta kosti ekki komist að þessu gegnum fréttirnar á internetinu. Þar er ekkert um þetta á prenti, það voru bara útvarpsfréttir RÚV klukkan sex sem impruðu á þessu. Sem kemur að takmörkuðum notum við fréttamiðlun til heyrnarlausa samfélagsins.

– – –

Það vilja margir að það verði grein í nýrri stjórnarskrá þar sem kveðið sé á um það að íslenska sé opinber þjóðtunga. Ég er einn þeirra. En það verður þá um leið að tryggja rétt þeirra sem tala hana ekki. Það þarf að ganga kirfilega frá því að víst sé að slíkt ákvæði troði ekki á mannréttindum þeirra sem skilja ekki opinbera tungumálið. Þetta má ekki bara vera einhver grein sem við setjum inn án frekari umhugsunar, til þess eins að geta mært okkur af henni á dögum eins og í dag.

– – –

Önnur frétt sem barst í dag, og ekki alveg eins gleðileg og sú fyrri, er af baráttu heyrnarlausra við Tryggingastofnun Ríkisins. Úr frétt Vísis um málið:

Heyrnarlausir eru að mörgu leyti háðir táknmálstúlkum í samskiptum sínum við Tryggingastofnun ríkisins. Stofnunin lítur hins vegar svo á að henni sé ekki skylt að greiða fyrir túlka og því þurfa heyrnarlausir sem leita til stofnunarinnar sjálfir að greiða reikninginn. Um er ræða tæpar sjö þúsund krónur.

Sú opinbera stofnun sem sér um málefni almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar lítur sem sagt ekki á það sem sitt mál — hvað þá réttindi skjólstæðinga sinna — að þeir fái þjónustu á öðru tungumáli en íslensku, jafnvel þótt sama fötlun og veldur því að þeir leita til stofnunarinnar geri þeim erfitt um vik að eiga samskipti við hana öðruvísi en á táknmáli með aðstoð túlks.

Og þetta er án þess að þurfi að tilgreina íslensku sem opinbert tungumál í stjórnarskrá.

– – –

Þetta er gömul saga og ný. Í Mílanó var árið 1880 haldin alþjóðleg ráðstefna um menntun heyrnarlausra, sú önnur í sögunni. Fundargestir voru 164. Þar af var einn þeirra heyrnarlaus. Eftir viku fundahöld var ákveðið með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að notkun táknmáls væri skaðleg raddmótun og vitsmunaþroska heyrnarlausra, og því skyldi hætta að nota táknmál við menntun þeirra. Í staðinn skyldu heyrnarlausir öðlast menntun og fræðslu gegnum raddmál eingöngu.

Þessari stefnu var fylgt í þaula víðast hvar í heiminum — meðal annars á Íslandi — með þeirri mismunun og félagslegu einangrun sem hægt er að sjá í hendi sér. Þannig liðu meira en hundrað ár og sú saga verður ekki rakin hér. Ég vil þó minnast á þá uppreisn sem heyrnarlausir Íslendingar fengu haustið 2009, þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók skýrslu Breiðavíkurnefndarinnar þar sem m.a. var fjallað um Heyrnleysingjaskólann fyrir á Alþingi og baðst afsökunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og íslenskra stjórnvalda á því sem þar kom fram.

Í júlí 2010 var svo 21. alþjóðlega ráðstefnan um menntun heyrnarlausra haldin í Vancouver. Í lokaályktun hennar voru allar ályktanir Mílanóráðstefnunnar dregnar til baka, beðist afsökunar á afleiðingum hennar, og stjórnvöld hvött til að taka tillit til allra tungumála og samskiptamáta við mótun menntastefnu sinnar.

Hér má aftur gleðjast yfir fyrri frétt dagsins.

– – –

Í ýmsum stjórnarskrám er hugað að réttindum heyrnarlausra og annarra málminnihlutahópa. Í finnsku stjórnarskránni frá 1999 er ákvæðið um opinber tungumál (finnsku og sænsku) fyrsta málsgrein sautjándu greinarinnar, „Um rétt til eigin tungu og menningar.“ Í framhaldinu er m.a. talað um að réttur málminnihlutahópa (Sama og Rómafólks) og réttur þeirra sem tala táknmál eða þurfa á túlkaþjónustu að halda vegna fötlunar skuli tryggður með lögum.

Takið eftir að greinin heitir ekki „Um þjóðtungu.“ Það er ekki til þess sem hún er.

Fyrir fleiri dæmi má benda á ljómandi góða samantekt Erlu Hlínar Hjálmarsdóttur, annars frambjóðanda til stjórnlagaþings. Þau spanna allt frá því að tryggja rétt fólks fyrir dómi og í samskiptum við opinbera aðila, yfir í að táknmál viðkomandi lands er viðurkennt sem opinbert tungumál til jafns við raddmál.

Í öllum álitamálum við ritun nýrrar stjórnarskrár eru fleiri en ein fær leið. Það á líka við hér. En að hnykkja á rétti heyrnarlausra til eigin tungu og eigin menningar finnst mér sjálfsagt og nauðsynlegt. Með einum hætti eða öðrum.

– – –

Að lokum er hér ljóð í tilefni dagsins. Það er flutt á íslensku táknmáli en er þýtt úr bandarísku táknmáli (ASL). Ensk þýðing fylgir:

Handhafi Jónasar

En allt frelsi, jafnt þjóða sem einstaklinga, krefst aga. Agi hvers einstaklings, í hugsun og hátterni, getur aldrei leitt til annars en farsældar allrar þjóðarinnar. Við megum aldrei ganga svo lengi á sjóði, hvorki andlega né veraldlega, að ekkert sé lengur eftir til að gefa. Við höfum þegið góðar gjafir frá fyrri kynslóðum og öðrum þjóðum. Mesta gæfa okkar væri sú að gefa ekki minna.

Þetta er úr setningarræðu sigurvegara dagsins, fyrsta ágúst árið 1980.

Fagur texti, tímalaus og dagsannur.

Einhvern tíma á síðustu tveimur árum (kannski kringum áttræðisafmælið hennar í vor sem leið) var athygli okkar hjóna vakin á þessum orðum. Okkur fannst nógu mikið um þau til að skrifa þau upp og hengja á vegginn í stofunni okkar. Ég rifja þau upp hér í tilefni dagsins.

Til hamingju Vigdís, þú ert vel að þessu komin.

Lítil þúfa…

Síðasta laugardag varð saklaus póstur velmeinandi stúlku til allra frambjóðenda (með hlekk á stjórnarskrá Bútan) lítil þúfa sem velti stóru hlassi. Fyrst komu einn eða tveir póstar þar sem henni var þakkaður áhuginn, svo annar hlekkur til baka, þá var allt í einu eins og frambjóðendur áttuðu sig á því að þeir væru allir komnir með tölvupóst hver hjá öðrum, fleiri bættust í hópinn til að tjá sig og áður en við var litið var hávaðinn eins og í fuglabjargi.

Í bestu merkingu þeirra orða.

Þegar hér var komið sögu var næsta skref að stofna póstlista og fara að ræða málin fyrir alvöru. Ekki hefur sljákkað í bjarginu nema yfir blánóttina síðan. Og hughreystandi hve vel fer á með öllum. Auðvitað ekki allir sammála um allt, en alltaf þannig að hægt er að ræða málin.

– – –

Fyrir rúmum mánuði var uggur í mér. Mér leist ekkert á þetta. Þess vegna bauð ég mig fram. Svo kom í ljós að ég var ekki sá eini, við vorum yfir fimm hundruð, flest með mikið til sömu hugmynd í grunninn um það hvað þyrfti að gera, þótt eitthvað greindi á um útfærslurnar.

Enn um sinn hafði ég þær áhyggjur að það væri hægt að velja saman 25 manns sem allir hefðu góðar, skýrar og mótaðar hugmyndir um úrbætur á stjórnarskránni, og ekki einu sinni svo frábrugðnar hver frá öðrum, en allt gæti samt farið handaskolum fyrir þessi vandræði með það sem virðist oft vera okkur svo erfitt: að opna hugann fyrir hugmyndum annarra, að taka gagnrýni þeirra á manns eigin.

En eftir að hafa fylgst með umræðum á póstlista frambjóðenda er mér farið að líða mun betur með þetta.

– – –

Það fyrsta sem sprettur af þessu er undirskriftalisti frambjóðenda (eitthvað á annað hundraðið þegar þetta er skrifað) þar sem skorað er á RÚV að taka sér tak og bæta úr umfjöllun sinni um kosningar til stjórnlagaþings. Það er grátlegt að sjá hvernig útvarp allra landsmanna situr með hendur í skauti meðan minni miðlar eins og Svipan og DV mala samkeppnina í umfjöllun.

Mér skilst að listinn verði afhentur með viðhöfn síðdegis á morgun. Enda tíminn fyrir ríkisútvarpið nógu naumur héðan af.

– – –

Og að síðustu: Mér er nánast sama hverja þú kýst – þetta er ágætt fólk upp til hópa. Svo lengi sem þú ferð og kýst einhverja. Það er það sem mestu máli skiptir.

Opið bréf til Biskupsstofu og Aðskilnaðar ríkis og kirkju

Ágætu viðtakendur.

Nú fyrr í dag bárust mér tvö bréf með stuttu millibili, eitt frá Biskupsstofu og annað gegnum síðu og póstlista sem ég er „lækari” og áskrifandi að á Fasbók, um Aðgerðir til aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Í bréfinu frá Biskupsstofu sagði eftirfarandi:

„Kæri frambjóðandi til stjórnlagaþings,

Biskupsstofa vill stuðla að upplýstri umræðu um skipan kirkjumála í stjórnarskrá Íslands en ein grein hennar fjallar sérstaklega um þjóðkirkjuna.

Frambjóðendur til stjórnlagaþings, sem ætlað er að að endurskoða stjórnarskána, hafa gefið mismiklar upplýsingar um stefnumál sín og áherslur svo sem um afstöðu sína til sambands ríkis og þjóðkirkju.

Það hlýtur því að skipta kirkjuna og söfnuði landsins máli hver afstaða einstakra frambjóðenda er til þessarar greinar og eins hvernig þeir vilja að sambandi ríkis og þjóðkirkju sé háttað. Það skiptir raunar máli fyrir öll trúfélög í landinu.

Biskupsstofa fer þess visamlegast á leit við þig að þú gerir í stuttu máli grein fyrir afstöðu þinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.”

1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?

Svör frambjóðenda verða birt á vef þjóðkirkjunnar, kirkjan.is, eftir því sem þau berast og kynnt fjölmiðlum.

Könnuninni er svarað á vefnum og við munum senda hana út á morgun. Ef þú hefur frekari spurningar um þetta, vilt ekki svara könnuninni eða fá frekari skeyti frá okkur biðjum við þig að láta okkur vita með tölvupósti …“

Skoðanir mínar á því hvort skilja eigi að ríki og kirkju eru í sjálfu sér ekkert leyndarmál. Þær má meðal annars sjá á kosningavef dómsmálaráðuneytisins („Ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju…“), á kosningavef Svipunnar („Ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju…“), á kosningavef DV („Sp: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að hafa ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi í stjórnarskránni? – Sv: Frekar andvíg(ur)“) og í bloggi sem birtist þann áttunda nóvember síðastliðinn, „Um þjóðfund, kirkjumál og sitthvað smálegt“ þar sem ég sagði meðal annars:

„… ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. En þrátt fyrir það – og þrátt fyrir að Þjóðfundur virðist hafa sent ansi skýr skilaboð um hið sama – þá er þetta ekkert sem ég set á oddinn.Ef fólki finnst mjög mikilvægt að ríki og kirkja verði aðskilin í stjórnarskrá, þá á það að kjósa einstaklinga sem finnst það mikilvægt. Einnig, þeir sem vilja vinna allt hvað þeir geta til að halda í sína gömlu góðu þjóðkirkju verða að kjósa sér fulltrúa til að gera akkúrat það. Sjálfum finnst mér mikilvægast að sátt náist um málið – að þetta mál verði ekki ásteytingarsteinninn fyrir því að allt fari í vaskinn.

Ef ekki næst breið sátt um afnám ákvæða um þjóðkirkju úr stjórnarskrá, þá ætti að vera hægt að setja ákvæði sem segði eitthvað á þá leið að alþingi sé heimilt að setja lög um þjóðkirkju – að leyfilegt sé að hafa hana samkvæmt stjórnarskrá, þótt útfærsla hennar sé ekki bundin í stjórnarskrána sjálfa.

Sjálfur held ég að aðskilnaðurinn muni verða, einhverntíma. En þetta byði þá upp á meira þrepaskipt aðlögunarferli.“

Glöggur lesandi hnýtti útí orðalag mitt um að setja „á oddinn,“ og réttilega. Það var kauðslega orðað hjá mér (má e.t.v. skrifa á persónulegt reynsluleysi mitt í pólitík) og ég hef strengt sjálfum mér dýran eið að nota þetta orðalag aldrei framar. Ég reyndi að útskýra betur hvað ég væri að fara í athugasemdaþræðinum í framhaldinu:

„Mér finnst mikilvægt að gerðar verði breytingar á stjórnkerfi ríkisins til hins betra, og að um þær náist breið samstaða á stjórnlagaþingi svo alþingi hafi síður umboð til að krukka í breytingarnar eftir sínu höfði eftir á. Ég er líka hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Maður tiltekur fyrst það sem sett er á oddinn, annað kemur þar á eftir. Bæði hér, á Svipunni og annarsstaðar.

[…]

En það stendur sem ég sagði áður: Ég vil losa tengslin milli ríkis og kirkju. Ég vil bara gera það á þann hátt að sem best sátt náist um það, ef hægt er. Það finnst mér líka ríma fullkomlega við annað sem ég sagði á Svipunni.“

Þetta er semsagt það sem mér finnst, fyrst spurt var. Það er ekkert leyndarmál. Öllum hlekkjum má síðan fylgja til að ganga úr skugga um samhengið.

Að því sögðu vil ég tilkynna fulltrúum biskupsstofu að ég hef alvarlegar efasemdir um að svara spurningunum í könnun þeirra á vefnum kirkjan.is og mun ekki gera það nema að vandlega íhuguðu máli. Þetta svar er ekki sent með það fyrir augum. Ég dreg í efa heilindi þess að þjóðkirkjan, sem aðili með beina og augljósa hagsmuni af því hver afstaða stjórnlagaþingmanna til 62. greinar stjórnarskrárinnar verður, ætli sér að fara að beita sér í aðdraganda kosninganna.

Svo ég nefni hliðstæðu: Ég efast um að ég myndi taka þátt í könnun á vegum L.Í.Ú. þar sem frambjóðendur til stjórnlagaþings væru spurðir um afstöðu þeirra til þess hvort hafa ætti ákvæði um náttúruauðlindir sem þjóðareign í stjórnarskránni.

Sem borgari þessa lands hef ég af þessu áhyggjur.

Þá langar mig að taka til umtals bréfið sem mér barst gegnum áðurnefnda Fasbókarsíðu um aðgerðir til aðskilnaðar ríkis og kirkju, þar sem vísað var á síðu sem sett hefur verið upp með það fyrir augum að flokka aðskilnaðarsinnana á annan veginn og íhaldsfólkið á hinn. Tilgangur síðunnar er útlistaður skilmerkilega á forsíðu hennar:

„Þessarri [svo] vefsíðu er ætlað að upplýsa kjósendur hvaða frambjóðendur til stjórnlagaþings eru aðskilnaðarsinnar (græni listinn) og hverjir eru ríkiskirkjusinnar (rauði listinn). Listarnir voru miðaðir við opinberar yfirlýsingar frambjóðenda á eftirfarandi vefsíðum …“

… og svo er vísað á þær þrjár síður sem ég hlekkjaði á og vitnaði í undir máli mínu hér að framan. „Græni listinn,“ sá sem er aðstandendum síðunnar þóknanlegur, er kynntur með þessum orðum:

„Eftirfarandi frambjóðendur eru þeir sem þorðu að taka skýra og opinbera afstöðu MEÐ aðskilnaði ríkis og kirkju.  Þeir sem sögðust vilja “endurskoða samband ríkis og kirkju” eða eitthvað álíka tvístígandi orðalag komust ekki inn á listann. Ekki heldur þeir sem vildu lýsa yfir prívat stuðiningi [svo] en ekki hafa það part af opinberri lýsingu.“

Kynningin á „Rauða listanum“ er svohljóðandi:

„Eftirfarandi frambjóðendur taka skýra og opinbera afstöðu GEGN aðskilnaði ríkis og kirkju. Við mælum með að aðskilnaðarsinnaðir kjósendur forðist þá eins og heitan eldinn.“

Þegar ég renndi augunum yfir þennan síðari lista rak ég þar augun í nafn frambjóðanda númer 3502, Hjörvars Péturssonar. Þegar þessi orð eru rituð er það þar enn.

Nú langar mig að biðja aðstandendur síðunnar adskilnadur.is um að upplýsa mig um eftirfarandi:

Hvað nákvæmlega var það á kynningarsíðum Dómsmálaráðuneytis, Svipunnar og DV sem varð til þess að þið dróguð þá ályktun að ég tæki „skýra og opinbera afstöðu GEGN aðskilnaði ríkis og kirkju“ og bæri því að forðast „eins og heitan eldinn“ af þeim sem vilja rjúfa tengsl ríkis og kirkju?

Ég get kannski skilið, í ljósi síðustu bloggfærslu minnar um málið, að ykkur finnist ég ekki eiga skilið að komast í hóp þeirra sem eru á „Græna listanum.“ Það er mér að meinalausu. En ég geri mér ekki grein fyrir hvað í orðum mínum og stefnumálum gerir mig að andstæðingi aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Eða var þetta kannski bara eitthvað klúður hjá ykkur?

Ef svo er, þá myndi ég gjarnan þiggja að vera fjarlægður af „Rauða listanum“ ykkar við fyrsta tækifæri, ef það væri ekki of mikil fyrirhöfn. Afsökunarbeiðni væri líka falleg. Og þið mættuð þá líka renna aftur yfir báða listana ykkar til öryggis og lúslesa fyrirliggjandi gögn til að útiloka að nöfn einhverra annarra frambjóðenda séu skrifuð þar sem þau eiga ekki að vera. Það er ykkar verk að hreinsa það upp, ekki þeirra.

Ef, hins vegar, aðstandendum síðunnar finnst mega draga þá ályktun af orðum mínum að ég sé harður andstæðingur þess að skilja að ríki og kirkju, þá þætti mér ágætt að fá skýran rökstuðning á því með vísun í mín eigin orð.

Það má vera að markmiðið með listunum sé að skipta öllum frambjóðendum í tvö horn, ég veit það ekki. Að þeir sem ekki lýsi yfir einörðum ásetningi til þess að skilja að ríki og kirkju séu þarmeð sjálfkrafa á móti því. Að þetta sé ætlað til þess að skilja hafrana frá sauðunum. Sé sú raunin, þá er það akkúrat það sem mér finnst ekki þurfa á þetta stjórnlagaþing. Megn andúð mín á slíkri flokkadráttahugsun og þverhausamennsku var einmitt ein af höfuðástæðum þess að ég bauð mig fram til að byrja með. Ef svo, þá hafið skömm mína fyrir.

Ég hef reyndar litlu minni ímugust á þessu framtaki ykkar en því sem ég frétti af með bréfinu frá Biskupsstofu. Þótt hugsunin að baki sé virðingarverðari.

Að lokum vil ég benda fulltrúum Biskupsstofu á að þeir geti sparað sér ómakið af könnun sinni og í staðinn einfaldlega sent þá sem vilja láta vísa sér í rétta átt inn á síðu Aðskilnaðar ríkis og kirkju, með öfugum formerkjum. Ættu þá báðir að geta unað við sitt.

Með virðingu og þökk,

Hjörvar Pétursson, einnig þekktur sem 3502.

Sent Árna Svani Daníelssyni og Steinunni Björnsdóttur (fyrir hönd Biskupsstofu) og Reyni Erni (föðurnafn óþekkt, fyrir hönd Aðskilnaðar ríkis og kirkju). Einnig birt á bloggsíðu minni (http://gamla.truflun.net/hjorvar) og í greinasafni mínu á stjórnlagaþingsvef dv.is.

Um þjóðfund, kirkjumál og sitthvað smálegt.

Jæja, þá er þjóðfundi lokið og virðist sem hann hafi lukkast vel. Þá þarf bara það fólk sem er sammála því sem þar kom fram að kjósa sér fulltrúa á stjórnlagaþingið til að framkvæma það.

Þeir sem eru kosnir á stjórnlagaþing eru náttúrulega ekki bundnir af neinu öðru en sinni eigin sannfæringu. Þeir þurfa ekki að taka mark á niðurstöðum þjóðfundar frekar en þá langar.

Mér er þannig farið að það eru þau mál sem mér finnst skipta miklu máli að séu á ákveðinn máta. Köllum þau baráttumál. Til dæmis þetta með þrískiptinguna og áhrif stjórnmálaflokkanna sem ég nefndi í síðustu viku. Svo eru önnur þau mál sem ég hef mína skoðun á, sem ég myndi kjósa að væru á þennan eða hinn veginn, en þar sem ég geri ráð fyrir að afstaða mín myndi að stórum hluta mótast af andrúmsloftinu á þinginu sjálfu. Ég ætla rétt að vona að flestum frambjóðendum sé svipað farið.

Tökum dæmi.

– – –

Ég er utan trúfélaga. Ég hef verið það síðan í nóvemberlok 2007. Þetta verða þrjú ár á kosningadaginn, nánast upp á dag. Og mér líður ljómandi vel með þetta. Enda er ég trúlaus.

Konan mín og börn eru í þjóðkirkjunni, og samkvæmt því ölum við börnin upp. Ég segi þeim hvernig á að koma fram við náungann og fer með bænirnar með þeim á kvöldin. Og mér líður ljómandi vel með það líka. Þannig var ég alinn upp, og komst þó þangað sem ég er í dag.

Einhverjum öðrum trúlausum finnst ég kannski vera að gera þetta afturábak: Að maður eigi ekki að byrja á að innræta börnunum; ef þau vilji taka trú þá geti þau gert það þegar þau þroskast. En mér finnst þetta einmitt eiga að vera á þennan veginn en ekki öfugt: Það þarf þroska til að kasta trúnni.

Ég hef ekkert verið mikið fyrir að útvarpa þessu, þótt þetta sé ekkert leyndarmál – það verður bara hver að segja sínum guðum upp sjálfur, finnst mér.

Í ljósinu af ofansögðu er kannski ekkert skrítið að ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. En þrátt fyrir það – og þrátt fyrir að Þjóðfundur virðist hafa sent ansi skýr skilaboð um hið sama – þá er þetta ekkert sem ég set á oddinn.

Ef fólki finnst mjög mikilvægt að ríki og kirkja verði aðskilin í stjórnarskrá, þá á það að kjósa einstaklinga sem finnst það mikilvægt. Einnig, þeir sem vilja vinna allt hvað þeir geta til að halda í sína gömlu góðu þjóðkirkju verða að kjósa sér fulltrúa til að gera akkúrat það. Sjálfum finnst mér mikilvægast að sátt náist um málið – að þetta mál verði ekki ásteytingarsteinninn fyrir því að allt fari í vaskinn.

Ef ekki næst breið sátt um afnám ákvæða um þjóðkirkju úr stjórnarskrá, þá ætti að vera hægt að setja ákvæði sem segði eitthvað á þá leið að alþingi sé heimilt að setja lög um þjóðkirkju – að leyfilegt sé að hafa hana samkvæmt stjórnarskrá, þótt útfærsla hennar sé ekki bundin í stjórnarskrána sjálfa.

Sjálfur held ég að aðskilnaðurinn muni verða, einhverntíma. En þetta byði þá upp á meira þrepaskipt aðlögunarferli.

– – –

Ég á enn eftir að nefna það sérstaklega í hér meginmáli að auðkennisnúmer mitt er 3502.

Einnig vil ég benda á stuðningssíðu framboðsins á fasbók.

Um ýmsar mögulegar breytingar

Svo ég haldi áfram frá því síðast: Hverju er hægt að breyta við núverandi stjórnskipan þannig að hún verði í megindráttum svipuð, en samt þannig að styrki löggjafar- og dómsvald á kostnað framkvæmdavalds?

Svar: Það er margt og ýmislegt.

Ég er sjálfur hlynntur því að halda í forsetaembættið. Ég á allavega erfitt með að sjá fyrir mér hvernig hægt væri að leggja embættið niður í stjórnarskrá sem í öðrum megindráttum er svipuð, öðruvísi en að styrkja með því tök flokkakerfisins á framkvæmdavaldinu. Það væri hægt að fara út í stærri breytingar, eins og sameina forseta- og forsætisráðherraembættið í eitt og kjósa þannig sérstaklega til framkvæmdavaldsins. Og slíkar lausnir hefðu margt gott með sér. En sá möguleiki fellur eiginlega utan við það sem ég vil velta fyrir mér hér og nú.

Það væri hægt að skrifa hlutverk forseta Íslands í stjórnskipuninni upp á nýtt með það fyrir augum að draga úr tökum flokkakerfisins á framkvæmdavaldinu. Til dæmis væri hægt að herða á kröfum um kjörgengi til embættisins og undanskilja þar t.d alþingismenn og varamenn þeirra, ráðherra og stjórnendur stjórnmálaflokka, jafnvel flokksbundna sveitarstjórnarmenn. Sníða svo embætti sem yrði pólitískt, en þó utan flokkapólitíkur.

Ákvæði um málskotsrétt forseta til þjóðaratkvæðis þyrfti að skrifa betur en nú er. Til dæmis ætti frumvarpi sem forseti hafnar undirritunar alltaf að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu innan ákveðins tíma (t.d. tveggja mánaða). Ferillinn ætti að vera nauðbundinn – ráðherrar eða alþingi gætu ekki einfaldlega dregið til baka frumvarp sem hefur verið synjað undirritunar. Það er spurning hvort þetta ætti í framhaldinu að setja af stað óafturkræft ferli sem tæki mið af því sem rakið er í 11.gr. núverandi stjórnarskrár: Að annaðhvort þyrfti að rjúfa þing eða leysa forseta frá störfum, eftir því hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan færi. Ég er þó frekar á því að slíkt væri ekki æskilegt.

Í stjórnarskrá ætti tvímælalaust að vera kafli um dómstóla og skipan þeirra, og hann mun ítarlegri en þær þrjár greinar sem finna má í stjórnarskránni eins og hún er í dag. Í hverju því tilviki þar sem alþingi kemur við sögu (t.d. við skipan fulltrúa í dómnefnd um hæfni umsækjenda, eða við skipan Dómsmálaráðherra í dómaraembætti) ætti að miða við aukinn meirihluta. Það ætti að auka völd alþingis gegn ráðherravaldinu og draga úr hættunni á flokkspólitískum áhrifum inn í dómskerfið.

Raunar þykir mér að í sem flestum þeim atkvæðagreiðslum á alþingi sem hafa að gera með stjórnskipan ríkisins ætti að tíðkast aukinn meirihluti. Það ætti að ýta undir að þar verði tíðkuð meiri samræðustjórnmál og minni aðgerðapólitík. Enda sér það hver sem vill sjá er lítur yfir farinn veg að þegar klórað er undir yfirborðið á mörgum þeirra ummæla þar sem hvatt var til „aðgerðapólitíkur“ (og þá oft talað í fyrirlitningartóni um „samræðupólitík“) voru það gjarnan skrauthvörf fyrir spillingu, baktjaldamakk og vinagreiða.

Enn í dag er hrópað hátt og jafnvel hærra en fyrr um það vanti meiri aðgerðir í íslensk stjórnmál, mest af öllu. Það sé bara ekki um neitt annað að ræða. En þvert á móti: Það sem vantar mest af öllu í íslensk stjórnmál (og það langtum frekar en meiri aðgerðir) eru meiri samræður.

Svo ég snúi mér aftur að stjórnarskránni: Það er ýmislegt sem hægt er að grípa til, þannig að skapist heilbrigðara jafnvægi milli valdpólanna þriggja. Og margt fleira en það sem talið er upp hér. Myndu slíkar lausnir duga, lausnir sem dytta að því kerfi sem við höfum haft síðustu 66 árin? Eða þarf eitthvað róttækara að koma til?

Um nýjan sáttmála

Í október 2008 rofnaði sáttmáli þjóðarinnar við sjálfa sig. Sáttmáli sem má segja að sé rofinn ennþá, og óvíst hvort og þá hvenær gengur saman aftur. Það er einhvern veginn eins og það sé sama hvað er tekið til umræðu þessa dagana, það loga illdeilurnar. Hver höndin rís upp á móti annarri. Það er talað um gjána milli þings og þjóðar. En það er líka gjá milli þings og þings. Og milli þjóðar og þjóðar.

Sáttmálinn er rofinn. Okkur vantar nýjan sáttmála.

– – –

27. nóvember verður kosið til stjórnlagaþings. Nú er tæpur mánuður þangað til. Nánast sléttar fjórar vikur.

Hverja myndir þú vilja sjá á stjórnlagaþingi? Hefurðu velt því fyrir þér? Hefurðu kynnt þér eitthvað af framboðunum?

Þú hefur mánuð.

– – –

Stjórnarskrá þjóðar er sáttmáli hennar við sjálfa sig og yfirvöld sín. Hún segir, „Þetta er sá rammi sem okkur er markaður. Frelsi og skyldur, einstaklinga sem stjórnvalda, skulu hið allraminnsta ná til þess sem hér er talið.“ Útfærslan má ekki vera of nákvæm, einstaklingar geta verið (og eiga að vera) ósammála um þá stjórnarháttu sem fylgt er í þetta eða hitt kjörtímabilið. En svo lengi sem stjórnvöld starfa innan ramma stjórnarskrárinnar á útfærslan ekki að þurfa að skipta máli: Hvort þau séu til hægri eða vinstri innan rammans, íhaldssöm eða frjálslynd, í alþjóðasamstarfi eða þjóðvörn. Svo lengi sem sáttmálinn heldur.

– – –

(Ég kríta náttúrulega pínu: Sá sáttmáli sem ég talaði um að hefði rofnað í október 2008 var auðvitað ekki stjórnarskráin. Ekki bara. En hún var partur af vandamálinu. Og sá partur þess sem stefnt er á að setja í slipp um miðjan febrúar næstkomandi.)

– – –

Ég hef áður sagt að mér þyki nauðsynlegt að endurstilla hlutföllin í þrískiptingu ríkisvaldsins. Draga úr styrk framkvæmdavaldsins. Auka sjálfstæði dómstóla og alþingis. Og ég er ekkert einn um það – mér sýnist meirihluti frambjóðenda vera á þessari skoðun.

En hvernig? Hvað er hægt að gera?

Það er hægt að leggja út í róttækar breytingar á ýmsum köflum stjórnarskrárinnar: Gerbylta skipulaginu, afnema skilyrðið um stuðning meirihluta þings við ríkisstjórn, kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, taka upp einmenningskjördæmi eða gera landið allt að einu kjördæmi. Engin af þessum hugmyndum er fyrirfram óraunhæf. Borðið er galopið, það er hægt að taka hvað sem er til greina. Og það er það sem á að gera – hugleiða kosti og galla hverrar þeirrar lausnar sem stendur til boða. Við verðum að gera það.

Mig grunar að þetta verði vandratað – við viljum nýja stjórnarskrá sem er sitt eigið sjálfstæða mannanna verk, þannig að við túlkun á einstökum atriðum hennar verði ekki hægt að halla sér til hæginda upp að því hvernig við túlkuðum þá gömlu. En ef breytingin verður of stór, ef nýja lýðveldið (og já, ég geri ráð fyrir að Ísland verði áfram lýðveldi) verður of ólíkt því gamla, þá er mögulegt að fólki finnist það of framandi, að fólk eigi þá erfiðara með að líta á þessa nýju stjórnarskrá sem sína eigin.

Ein leið til að nálgast þetta væri eftirfarandi: Sjáum hverju er hægt að breyta við núverandi stjórnskipan þannig að hún verði í megindráttum svipuð, en samt þannig að tekið sé fyrir þá galla á skipulaginu sem fólk telur þörf á að bæta. Ef slíkar breytingar duga ekki til að ná því fram sem fólki finnst þurfa, eða ef útkoman er óttalegur hortittur, þá er ekki undan því vikist að grípa til róttækari ráða.

– – –

Svo hvað er vandamálið? Byrjum á því helsta: Framkvæmdavaldið er of sterkt, löggjafar- og dómsvald eru of veik, og stjórnkerfið er í það heila tekið undir of miklum áhrifum frá valdablokkum innan stjórnmálaflokkanna. Hvað getum við gert við því?

Veltum því fyrir okkur til morguns – þá skal ég velta upp nokkrum hugmyndum. En svo væri líka gaman að fá að heyra fleiri.

Um bakgrunn og hagsmunatengsl

Ég heiti Hjörvar Pétursson. Ég er fæddur á Akureyri 1972 en ólst einnig upp á Blönduósi og að Hólum í Hjaltadal áður en ég flutti til Reykjavíkur um tvítugt. Ég útskrifaðist sem líffræðingur (B.Sc.) frá Háskóla Íslands 1996, starfaði á tölfræðideild Íslenskrar Erfðagreiningar frá 1998, og hef starfað við læknisfræðilega erfðafræðideild Háskólasjúkrahússins í Tübingen í Þýskalandi frá vorinu 2009. Jafnframt vinn ég að mastersverkefni um erfðir handskjálfta við læknadeild Háskóla Íslands. Ég er kvæntur Árnýju Guðmundsdóttur táknmálstúlki, bókasafns- og upplýsingafræðingi og mastersnema í fötlunarfræðum. Við eigum þrjú börn, það elsta fætt árið 2000.

Svipan.is hefur undanfarna daga verið að safna saman banka af upplýsingum fyrir stjórnlagaþingkosningarnar (sjá dæmi um undirritaðan). Þar má finna upplýsingar um ekki bara stefnumál frambjóðenda og bakgrunn, heldur líka  hagsmunatengsl þeirra og fleira. Það eru gagnlegar upplýsingar þarna fyrir þá sem þurfa að gera upp hug sinn. Sérstaklega þetta með hagsmunatengslin, sem ég veit ekki hvort nokkur annar vef- eða annarskonar fjölmiðill hefur lagt sig fram um að halda til haga fyrir kjósendur. Þar sem mér finnst skipta mjög miklu máli að fólk viti hvaða hagsmunir geti skarast við störf þeirra sem kjósast á stjórnlagaþing vil ég hnykkja sérstaklega á því fyrir mitt leyti:

  • Ég skráði mig í VG til að geta kosið í prófkjöri fyrir kosningar vorið 2009, en hef hvorki tekið þátt í flokksstarfi í þeim flokki né öðrum.
  • Ég vann um langt árabil á Íslenskri Erfðagreiningu og þykir vænt um það starf sem þar hefur verið unnið. Ég kom ekki auga á þetta strax, en ef upp kæmi umræða í tengslum við möguleg mannréttinda- eða náttúruauðlindaákvæði stjórnarskrár um það hvort kveða ætti á um rétt einstaklinga m.t.t. lífsýna, þá gæti þetta þótt skipta máli. En mér þykir bara svo sjálfsagt að sá réttur sé alltaf metinn einstaklingnum í vil. Og ég tel mig geta sagt að það fannst öllum sem ég hafði þá ánægju að vinna með á Íslenskri Erfðagreiningu.
  • Það má e.t.v. telja til hagsmunatengsla sem ég hef gegnum störf og nám konu minnar að ég hef haft kynni af málstað heyrnarlausra og nauðsyn þess að tryggja mannréttindi þeirra, eins og allra, óháð tungu, menningu eða fötlunum.
  • Ég hef verið utan trúfélaga síðan árið 2007 og ekki verið virkur í neinu félagsstarfi tengdu trúmálum eða afstöðu til þeirra. Kona mín og börn eru í Þjóðkirkjunni.

Ég vil hvetja fólk til að kynna sér bakgrunn og möguleg hagsmunatengsl þeirra sem það gæti hugsað sér að kjósa til stjórnlagaþings. Og ganga eftir því að fá upplýsingar um hagsmunina, ef þær liggja ekki fyrir.

Það er auðvitað ekki það eina sem skiptir máli. En það verður að vera hægt að taka það með í reikninginn.

Um framboð til stjórnlagaþings

Nú þegar frestur fyrir framboð til komandi stjórnlagaþings er útrunninn virðist sem þau slagi eitthvað á fimmta hundraðið. Dálítill munur frá því fyrir minna en þremur vikum þegar einhvernveginn virtist ósköp lítil umræða í gangi um komandi þjóðfund og kosningar. Nú berast líka fréttir af því að þjóðfundur í byrjun nóvember verði fullsetinn og ekkert sem bendi til annars en að þaðan eigi að geta komið skýr skilaboð frá fundargestum um þau gildi sem þeir vilja sjá í stjórnarskránni sinni.

Á fimmta hundrað manns gefur kost á sér í kosningum til stjórnlagaþings þann 27. nóvember. Ég verð einn þeirra.

Þetta er það sem mér finnst mestu máli skipta:

Mikilvægasta verkefni stjórnlagaþings verður að breyta hlutföllum í þrískiptingu valdsins, þ.e. að styrkja löggjafar- og dómsvaldið gegn framkvæmdavaldinu. Það þarf að treysta bæði framkvæmda-, löggjafar- og dómsvald gegn áhrifum flokkakerfisins, og vernda stjórnmálaumhverfið sem frekast er unnt fyrir áhrifum valdablokka og viðskiptalífs. Hlutverk, ábyrgð og réttindi forsetaembættisins þarf að afmarka nákvæmlega, og valdmörk þess við framkvæmdavaldið.

Margir óska sér ákvæðis um náttúruauðlindir sem þjóðareign í nýja stjórnarskrá. Þá verður að vera ljóst hvað átt er við, þannig að hafi raunverulegt inntak og merkingu. Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eru mun betri í dag en þau voru við upphaf lýðveldisins. Enn má samt til einhvers vinna – mér sjálfum er annt um að þar verði kveðið á um rétt fólks til eigin tungu og eigin menningar. Ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju og afnámi atkvæðamisvægis eftir búsetu.

Á fimmta hundrað sem býður sig fram. Það eru gleðitíðindi.

Ég vona að hvar sem fólk kemur saman á næstunni noti það tækifærið til að ræða hvert við annað um stjórnarskrána, komandi þjóðfund og stjórnlagaþing, og hvernig það vilji móta lýðveldið til framtíðar. Ef vel tekst til er dálítið merkur tími að fara í hönd.

IgNóbelsverðlaunin 2010

Ignóbelsverðlaunin 2010 voru veitt í Harvard síðastliðið fimmtudagskvöld við hátíðlega athöfn (þá tuttugustu fyrstu árlegu, nánar tiltekið). Þar voru verðlaunuð eftirfarandi vísindaleg afrek sem áttu skilið að fá viðurkenningu fyrir að, með orðum verðlaunanefndarinnar, „fá fólk til að hlæja, og svo til að hugsa.“

Sokkar utanyfir stígvél. Sviðsett mynd.
Mynd 1: Sokkar utanyfir stígvél.

Verkfræði: Fyrir að þróa aðferð til að safna hor úr blæstri hvala með fjarstýrðri þyrlu.

Læknisfræði: Fyrir þá uppgötvun að hægt sé að draga úr asma með því að setja asmasjúklinginn í rússíbana.

Samgönguskipulagsfræði: Fyrir að nota slímmyglu við að reikna út hvernig best sé að leggja járnbrautarteina. Hluti viðtakenda voru hér að vinna sín önnur IgNóbelsverðlaun, þar sem þeir voru einnig í hópnum sem vann verðlaunin í hugvísindum árið 2008 fyrir að uppgötva að slímsveppir geta leyst völundarþrautir.

Eðlisfræði: Fyrir að sýna fram á það með tvíblindri slembirannsókn að fólk rennur síður á rassinn í hálku ef það fer í sokkana utan yfir skóna (sjá mynd 1).

Mynd 3:Skeggjaður maður og bakteríusmitberar. Þessi mynd er sviðsett.
Mynd 2:Skeggjaður maður og bakteríusmitberar. Þessi mynd er sviðsett.

Friðarverðlaun: Fyrir vísindalega staðfestingu á þeim gömlu alþýðusannindum að það dregur úr sársauka að bölva hressilega þegar maður meiðir sig.

Dæmi um skegghreinsun. Myndin er sviðsett.
Mynd 3: Dæmi um skegghreinsun.

Lýðheilsuverðlaun: Fyrir að sýna fram á að skeggjaðir vísindamenn eru gróðrarstíur baktería. Ég hvet lesendur eindregið til að kynna sér verðlaunagreinina, „Microbiological Laboratory Hazard of Bearded Men“ eftir Barbeito et al., sem birtist í tímaritinu Applied Microbiology árið 1967. Klassísk grein í fræðunum og vel studd dæmum (sjá myndir 2 og 3).

Hagfræði: Stjórnendur Goldman Sachs, AIG, Lehman Brothers, Bear Stearns, Merrill Lynch, og Magnetar fjármálastofnananna, fyrir að skapa og ýta undir nýjar fjárfestingarleiðir til að hámarka fjárhagslegan gróða og lágmarka áhættu fyrir fjármálakerfi heimsins, eða hluta af því. Hagfræðiverðlaunin í ár kallast því skemmtilega á við hagfræðiverðlaun IgNóbels í fyrra, sem fóru einmitt til Íslands, sællar minningar.

Efnafræði: Veitt rannsakendum frá MIT og háskólanum á Hawaii, sem hröktu þær gömlu kerlingabækur í skýrslu á vegum BP árið 2005 að olía og vatn blandist ekki saman.

Mannauðsstjórnun: Fyrir stærðfræðilega útskýringu á því að affarasælasta leiðin til að veita stöðuhækkanir innan stofnana og fyrirtækja er að velja bara einhvern af handahófi.

Líffræði: Fyrir vísindalega skrásetningu á munnmökum meðal ávaxtaleðurblakna. Bæði er hægt að nálgast greinina í heild sinni, og þeir sem eru ekki fyllilega sannfærðir geta séð þetta með eigin augum á þjónvarpinu.

Góðar stundir.