Pæjusögur

Strumpan fór í sína fyrstu prófessjónal klippingu í gær. Fram að því hafði ég séð um að hárið væri snyrt enda sá ég fyrir mér að það væri ekki leggjandi á nokkra manneskju að klippa forvitna belginn. Nema hvað, sú stutta gekkst mjög upp í þessu og var bara eins og fín dama. Þetta var ekkert mál, hún dáðist bara að sér í speglunum og var mjög upprifin. Það kom aðeins upp eitt vandamál og það var tengt mömmunni. Fína heimaklippingin var (eins og mig grunaði) ekki alveg nógu hentug. Svo nú er Sóley með tvo toppa, annan stuttan og hinn síðan (sem mamman klippti einhvers staðar úr miðju hári).

Við fórum í smá jólakortamyndatöku í gær, hún var sett í sitt fínasta púss og mynduð í bak og fyrir, en við náðum ekki að skoða útkomuna. Það er ögn auðveldara að fá hana til að brosa núna en í fyrra. Núna tók Kusa bara reglulegt flug og það var nóg til að gleðja mann ógurlega. Oft.

Annars er helgin búin að vera fín. Vorum með Gylfa, Arnheiði og Eyþór (sem ég er reyndar að fá til ættleiðingar í dag) í afmælismat, í tilefni fimmtugsafmælisins og svo kaffi fyrir pabba og tengdó á sunnudag. Nóg að borða. Strumpa hafði annars náð í ælupesti tvö á miðvikudag og smitaði okkur bæði, þannig að ég var veik á fimmtudag og Mummi á föstudag og aðeins áfram. En það slapp að minnsta kosti til fyrir þetta mikla át.

Nú styttist í próf. Það skýrir að einhverju leyti bloggdeyfðina. Ég get örugglega leyft mér að vera duglegri í prófatímanum sjálfum. Núna er ég bara á barmi taugaáfalls yfir öllu sem bíður.