Söngkeppni MA

Söngkeppnin var haldin í gær og hún er orðin svo stór í sniðum að hún var haldin í KA heimilinu. Ég fór með ÖnnuPönnufrönskukennara og við vorum mættar vel tímanlega til að tryggja okkur góð sæti. Vorum með þeim fyrstu í hús og sátum á þriðja bekk og gátum fylgst vel með öllu. Það er alltaf gaman að sjá nýjar hliðar á nemendum sínum, af 22 atriðum var um þriðjungur með gömlum og nýjum nemendum mínum. Ein náði að koma mér algjörlega á óvart. Sú er frænka mín í þriðja lið, heitir Þórunn Rögnvaldsdóttir og ég kenndi henni eina fimm tíma í vor í afleysingum. Þá fór afskaplega lítið fyrir henni en þarna kom fram eitthvert alter-egó, dúndur rokkgella, með þrusurödd og sviðsframkomuna alveg á hreinu. Ég gapti hreinlega af undrum. Því miður var hún ekki í efstu sætunum en örugglega næst inn og ég vona að hún eigi eftir að taka þetta einhvern daginn, hún er nefnilega bara í 2. bekk.

Annars verð ég að láta smá skúringafréttir með í dag. Eygló bloggaði nefnilega um skúringar um daginn og ég kommentaði hjá henni um að ég væri komin með nýja ofurskúringagræju, þar sem maður setur vatnið í skaftið og svo sprautar maður á gólfið. Nema hvað, það er bara allt annað að skúra þegar maður hefur tæknina með sér og til marks um það þá skúraði ég í gær, jamm bara sisona á fimmtudagseftirmiðdegi, og það voru bara liðnar tvær vikur síðan ég skúraði síðast. Ég slít örugglega parketinu með þessu þrifæði. Því miður bera kettirnir takmarkaða virðingu fyrir þrifunum, það eru strax komin kattaspor á gólfið og í morgun voru komnar tvær grasælur, þar af þurfti ég að sjálfsögðu að finna aðra með því að stíga í hana 🙁