Helst að frétta síðan síðast

Til að fæla strax fáa, en dygga lesendur frá er ágætt að gefa í skyn að þetta verði löng og mikil færsla. Ég er heimavinnandi húsmóðir þennan fyrripartinn, frí hjá dagmömmu og skóla svo það er um að gera að nýta tímann til að vera með börnunum, eða bara að blogga. Eins og í síðasta bloggi eru tíðindi af helstu málum Skottunnar, hún var nefnilega í eins árs skoðun í morgun. Þar dró til tíðinda því ríflega kíló hafði bæst á kroppinn síðan síðast og dreifist vel á þennan sentimeter sem hún hefur hækkað. Hún reyndi að vísu að svindla í mælingunni með því að tylla fæti á vegg og munaði þá svo sem hálfu kílóin en því miður sá hjúkrunarfræðingurinn við þessari góðu tilraun. Skotta þrífst og dafnar vel og gengur eins og í sögu hjá dagmömmunni, enda var byrjað hægt og rólega. Núna er hún sjö tíma á dag en sefur reyndar að jafnaði tvo til tvo og hálfan tíma af því svo samviskubit foreldranna er minna. Hún hefur aðeins náð að vera veik þrjá daga af heilum mánuði sem er vel innan skekkjumarka. Það stefnir allt í að hún fari að labba fljótlega, hér eru tekin hikandi eitt, tvö og jafnvel þrjú skref þegar vel liggur á manni. Daman er enn á brjósti, enda var stefnan strax tekin á að hafa hana ekki styttra en Strumpuna á brjósti, það voru þrettán mánuðir. Nú eru reyndar blikur á lofti að þrettán mánuðir náist því móðirin ákvað í bríaríi að skella sér til Svíþjóðar í vetrarfríinu, í kvennaferð (það er mikil fleirtala þar á ferð þar sem við erum tvær að fara saman, ég og Kittý) án Sunnu. Svo nú spá foreldrarnir hvort eigi að fara varlega í sakirnar næstu daga að draga úr brjósti eða hvort það verður bara cold turkey þegar móðir yfirgefur svæðið.

Ferðaplanið í Svíþjóð er enn óráðið, enda ekki nema um þrjár nætur að ræða svo það verður að nýta tímann vel. Aðal pælingarnar snúast um hvort eigi að splæsa heilli nótt í að heimsækja systur í nýja húsið. Að öðru leyti eru það mágur kær og svilkona og áður nýlega nefnd í færslu Sigrún sem eru öll nýlega flutt til Stokkhólms sem fá að deila frábærum félagsskap mínum.

Skottan átti rólegan árs afmælisdag í fyrradag. Fékk reyndar gjafir í rúmið og sunginn afmælissöngur. Hún var mjög kát að taka upp pakka, fékk þessi fínu náttföt frá Gunnsteini og Sterka-Bangsa sett frá Svíþjóð. Hún kann alveg að fara með föt og vafði þessu öllu því umsvifalaust um hálsinn á sér. Fór svo til dagmömmu sem hafði fengið leyfi til að gefa henni og félögunum ís í tilefni dagsins og hann rann víst ljúflega niður. Síðan voru heimsóknir og símtöl það sem eftir lifði dags, heimsóknirnar voru þó teknar með fyrirvara enda hálf ókunnugir karlmenn að heimsækja hana. Alvöru veisla verður síðan haldin á sunnudag. Móðirin er enn að spekúlera í hvernig afmælistertu á að búa til sem barnið getur fengið að njóta líka.

Annars er lífið auðvitað að komast í fastar skorður. Strumpan alsæl í skólanum en vantar fleiri tíma í sólarhringinn til að sinna öllum áhugamálum. Er áfram að æfa sund og fimleika og lærir enn á fiðlu en var harðákveðin í að fara líka í karate svo því var púslað inn. Móðirin er því sem aldrei fyrr keyrandi alla daga á æfingar. Vinnan mín fer vel af stað. Ég er ekki í fullri stöðu, sem er ósköp gott þegar maður þarf að keyra og sækja endalaust en verra að maður saknar þessara króna sem annars hefðu farið á bankareikninginn. Ég er reyndar með frekar einsleita kennslu, kenni sama áfangann í fjórum hópum en fæ að auki einn lúxushóp, kenni dönskuval í 4. bekk með 11 nemendur. Það er draumastarf, æðislegt fólk sem er eins og hugur manns, hingað til alla vega 🙂

Af enn eldri fréttum þá fengum við Önnu Steinu og Martin í heimsókn í rúma viku. Því miður var veðrið ekki upp á sitt besta en þó fórum við ferð í Mývatnssveit í ágætu veðri. Skottan vakti talsverða athygli meðal túristanna í jarðböðunum, við borðuðum í Dimmuborgum og fórum á fuglasafnið, sem sagt hin prýðilegasta ferð. Við fylgdum túristunum síðan á Suðurlandið og tókum smá túristarúnt þar með þeim, Gullhringinn svokallaða. Stoppuðum að vísu ekkert á Þingvöllum nema til að taka mynd, Strumpan nennti ekki einu sinni úr úr bílnum en þegar hún frétti það síðar að þetta hefði verið hinn víðfrægi „skundum á Þingvöll“ staður þá varð hún spæld að hafa misst af herlegheitunum. Henni fannst svo óttalegt prump að fara að líta á hver og foss en unglingurinn í henni mátti gefa sig þegar komið var að Strokki og síðar að Gullfossi. Foreldrarnir voru líka hrifnir, komandi þarna líka í fyrsta sinn. Landafræðin púslaðist örlítið betur saman í kollinum, Suðurlandið ekki verið þeirra sterka hlið en auðvitað er Norðurlandið alltaf fegurst!