Danmerkurpósturinn

Það er íhugunarefni að fara að blogga um lífið í fyrirheitna landinu. Nú er liðinn tæpur, sólarhringur frá því að ég steig fæti á danska jörð. Express var að vanda mjög express, en hvað er einn og hálfur tími í seinkun á milli vina… svona á þessum síðustu og verstu. Það kom sér eiginlega vel þar sem undirrituð var sjálf sein fyrir og stressuð svo um munaði og fattaði til að mynda á flugvellinum að hún hefði gleymt pústinu hennar Sunnu og fékk riddaraliðið til að sækja það. Mundi stuttu síðar að hún hefði gleymt hleðslutækinu fyrir símann en kunni ekki við að ræsa riddaraliðið í það – er þetta ekki gott tilefni til að fá sér IPhone? Við eignuðumst strax danska vini á Akureyrarflugvelli og Sóley byrjaði strax að blaka dönskueyrunum. Ungur Dani fékk matarást á Sunnu þegar hún bauð upp á cheerios og rúsínur. Baldvin nágranni tíndi danskt klink úr kassanum sínum og gaf Sóleyju. Við áttum reyndar ótrúlega þægilega flugferð þar sem Skottan sýndi sínar bestu hliðar. Hún geystist reyndar um flugvélina á smá tímabili en það er lítill fórnarkostnaður. Við lentum um hálf tólf og fyrir utan smá heilabilun í undirritaðri (sem gleymdi flíspeysu Skottunnar í vélinni og þurfti að snúa við til að sækja hana) þá gekk allt ljúflega og eiginmaðurinn beið eins og hver önnur hetja með hvíta hestinn Prius skammt undan. Við tók þriggja tíma akstur til Egå, þar sem ferðalangarnir misstu smátt og smátt meðvitund, fyrst fór Skottan, þá malandi Strumpan og svo var farið að síga á seinni hlutann hjá frúnni þegar leið að lokum sem átti sinn þátt í því að við brunuðum fram hjá réttu útleiðinni af hraðbrautinni. Komumst að lokum á leiðarenda og drifum okkur inn og í bæl. Hraðskoðun á húsinu vakti lukku en nánari skoðun beið næsta dags. Allir sváfu vel á nýjum stað og síðan voru nýju heimkynnin rannsökuð. Einu sinni hafði hugsunin verið að trappa sig aðeins niður í húsnæði en svo kom þetta hús til okkar og það er óhætt að segja að það sé frekar verið að bæta við sig. Húsið virkar risastórt og er afskaplega vistlegt og mjög danskt, sem er auðvitað algjör bónus. Svefnherbergin eru þrjú en sennilega munu systur deila herbergi því það er risastórt. Hitt verður svo nýtt undir tölvu og lærdóm, auk gesta 🙂 . Hér fylgir allt til alls, bókasafn heimilisins hefur nú þegar fengið sess í hjarta mér. Það eru bækur fyrir stelpurnar líka. Kötturinn Mille er ljúf en ekki hrifin af atganginum í Sunnu. Garðurinn er frekar lítill á okkar mælikvarða en afar gróðursæll, við erum til að mynda með þetta fína eplatré í garðinum og uppskeran lítur vel út. Við urðum okkur svo út um lágmarks vistir, héldum í heiðri sunnudagslokanir búða og fengum svo eigendurna í heimsókn sem sögðu okkur frá því helsta með húsið og við fengum líka lista með hjálplegum nágrönnum sem við megum leita til ef eitthvað er. Tókum svo gönguferð um hverfið og það er ótrúlega sjarmerandi. Göngustígar um allt, mikið af leiksvæðum, stutt í búðina (með sunnudagsopnun fyrir Íslendinga sem geta ekki hugsað um máltíðir til tveggja daga) og allt mjög hlýlegt. Síðan löbbuðum við á ströndina og systurnar skemmtu sér við að sulla í sjónum, þrátt fyrir að það væri aðeins um 20° hiti og engin sól. Eftir þetta höfum við tekið því rólega og fengum okkur sunnudagssteik á M. Sóley var ekki lengi að sjá að það hékk miði á ísskápnum sem fjallaði um hópferð nágrannanna í Djurs Sommerland og stefnir auðvitað í að við mætum þangað. Sóleyju finnst þó dagskráin hafi verið frekar þunn í dag og á von á miklu aksjóni daglega. Það verður að koma í ljós hvernig það gengur. Á morgun bíða okkar kennitöluumsóknir og að reyna að koma skipulagi á okkar dót hér innan um hitt. Það verður svolítið púsl. En eftir daginn í dag er bara tóm gleði. Eina sorgin er að ég er ekki enn búin að kaupa hvítvín. Alvarleg yfirsjón það náttúrulega.